Reykjavík og Berlín

Skapandi greinar í skapandi borgum

Ferðþjónusta, skapandi greinar og menning í ferðamannaborgunum Berlín og Reykjavík eru umræðuefni á málþingi sem fer fram í Hörpu miðvikudaginn 25. maí milli kl. 17-20.
Burkhard Kieker framkvæmdastjóri visitBerlin og Moritz von Dülmen framkvæmdastjóri Kulturprojekte Berlín verða í pallborði á málþinginu ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Áshildi Bragadóttur forstöðukonu Visit Reykjavík/Höfuðborgarstofu. Aðrir þátttakendur á málþinginu eru margir af helstu forsvarsmönnum ferðaþjónustufyrirtækja, skapandi greina og menningarstofnana á höfuðborgarsvæðinu. Málþingið markar upphaf að víðtæku samstarfi milli Visit Reykjavík og visitBerlin.

Ferðamönnum í Reykjavík heldur áfram að fjölga en á fyrstu fjórum mánuðum ársins fjölgaði þeim um 35% milli ára. Sama þróun hefur átt sér stað í Berlín. Síðasta ár var metár í fjölda ferðamanna  þegar 30 milljónir ferðamanna heimsóttu borgina sem var 30% aukning milli ára.
Öflugt menningarlíf er eitt helsta aðdráttarafl beggja borga en fer það saman með auknum fjölda ferðamanna?  Getur borg í senn verið skapandi með áherslu á öflugt menningarlíf og áfangastaður ferðamanna? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem velt verður upp á málþinginu í Hörpu.

Á málþinginu ætlar Burkhard Kieker framkvæmdastjóri visitBerlin m.a. að segja frá hvernig tekist hefur að laða að skapandi fólk alls staðar að úr heiminum til borgarinnar. Þá mun hann segja frá verkefni sem Berlínarborg hefur ráðist í þar sem útbúa á heilt þorp í kringum skapandi greinar.
Moritz von Dülmen framkvæmdastjóri Kulturprojekte Berlín segir frá stærstu hátíðum og viðburðum í Berlín en daglega eru yfir þúsund lista- og menningarviðburðir  í borginni. visitBerlin kynnti nýlega vörumerkið 365/24 sem undirstrikar að borgin er lifandi menningarborg allan sólarhringinn, allt árið um kring.
Reykjavíkurborg er jafnframt öflug menningarborg og leiðandi í að styðja við skapandi greinar, listir og menningu í borginni. Flestar helstu menningarstofnanir landsins eru í miðborginni. Árlega eru yfir 70 hátíðir á höfuðborgarsvæðinu og íslensk matarmenning og hönnun vex ásmegin ár frá ári. Þá bera íslenskir listamenn hróður borgarinnar um allan heim. Í stefnu Reykjavíkurborgar kemur enn fremur fram að markmið borgarinnar séu að menningarlífið einkennist af alþjóðlegum borgarbrag og menningarlegri sérstöðu. Fjölbreytt menningarlíf, árvissir viðburðir og aðlaðandi og skemmtileg miðborg séu forsendur þess að Reykjavík eflist sem áfangastaður.
Þetta er í annað sinn sem forsvarsmenn frá Reykjavíkurborg og Berlínar hittast til að ræða málefni skapandi borga og ferðaþjónustunnar en yfirskriftin er Berlín – Reykjavík Creative (Cities) Talk.
Nánari upplýsingar veitir undirrituð,

BERGHILDUR BERNHARÐSDÓTTIR
PUBLIC RELATIONS & MARKETING MANAGER
Kynningar- og markaðsstjóri
visitreykjavik.is
#reykjavikloves