Vestnorræna ráðið

Samvinna og gagnkvæm viðskipti nauðsynleg

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga Íslands, Grænlands og Færeyja og á meðal markmiða þess er að vinna saman að vestnorrænum hagsmunum og hugðarefnum. Samvinna landanna þykir vera nauðsynleg þegar kemur að siglingum á norðvesturleiðinni.

 

P1100436

Inga Dóra Markussen. „Framtíðarmöguleikar landanna þriggja eru miklir og hvað varðar norðurheimskautssvæðið þurfum við að hugsa um hagsmuni okkar allra.“

Vestnorræna ráðið er með skrifstofu í Reykjavík og er framkvæmdastjóri þess Inga Dóra Markussen. Átján þingmenn sitja í ráðinu, sex frá hverju aðildarríki, og kemur ráðið saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu og ársfundar.
Á meðal markmiða ráðsins er að vinna saman að vestnorrænum hagsmunum og hugðarefnum, að vernda auðlindir og menningu landanna í Norður-Atlantshafi og efla samráð ríkis- og landstjórna Vestur-Norðurlanda og þá einkum í viðkvæmum og alvarlegum málum sem snerta t.d. mengun og auðlindanýtingu. Þá á ráðið að fylgja eftir samstarfi ríkis- og landstjórna vestnorrænu landanna, efla samstarf við Norðurlandaráð og að vera tengiliður milli þinga landanna, vestnorrænna stofnana og alþjóðlegra samtaka.
„Framtíðarmöguleikar landanna þriggja eru miklir og hvað varðar norðurheimskautssvæðið þurfum við að hugsa um hagsmuni okkar allra,“ segir Inga Dóra.
„Miklar auðlindir eru á svæðinu og þá sérstaklega á Grænlandi hvað varðar málma og með góðri samvinnu og viðskiptum við hvert annað getum við staðið sterk á heimsmarkaði. Þá er innan ráðsins rætt um sjávarútveg landanna þriggja en möguleikarnir þar eru miklir.
Vestnorræna ráðið hefur sótt um áheyrnaraðild hjá Norðurheimskautsráðinu en við sem búum á norðurheimskautssvæðinu viljum geta fylgst með í fremstu röð á þessum mikilvægu fundum þar sem umræður eru um svæðið eins og það leggur sig.“

greenland icelandic times iceland

Skipaflutningar um norðvesturleiðina
Á þemaráðstefnunni á þessu ári verður lögð áhersla á sameiginlega stefnu landanna þriggja á norðurslóðum.
Inga Dóra segir að löndin þrjú hafi unnið mikið saman í tengslum við menningu, heilbrigðismál og málefni um nám en að koma þurfi á meiri samskiptum eða samvinnu í tengslum við viðskipti á milli landanna. Þá segir hún þurfa meiri samvinnu varðandi skipaflutninga um norðvesturleiðina, siglingaleiðina frá Kyrrahafi til Atlantshafs um norðurheimskautið, sem opnast vegna hnattrænnar hlýnunar og þar með hops heimskautaíssins.
„Ísland, Grænland og Færeyjar myndu tengjast þessum flutningum sem hafa með heimsmarkaðinn að gera og það gerir það að verkum að við þurfum að hugsa saman um þessi mál; áhuginn er mikill en það er nauðsynlegt að vera samtaka og hugsa lengra til framtíðar. Við verðum að vera viðbúin þegar þessir flutningar fara í gang. Fjalla á m.a. um stefnu vestnorrænu landanna hvað þetta varðar á fundi ráðsins í lok janúar.“

greenland icelandic times

Seinkun á námuvinnslu
Tvær yfirlýsingar voru samþykktar á ársfundi ráðsins í fyrra og í annarri eru ríkisstjórnir Íslands og Færeyja hvattar til að styðja viðleitni Grænlands til að öðlast viðurkenningu sem strandríki og fá þátttökurétt í samningaviðræðum strandríkja um uppsjávarfiska á jafnréttisgrundvelli. Það tengist markrílveiðum þar sem makríll er farinn að veiðast æ meira í grænlenskri lögsögu.
Um 57.000 manns búa á Grænlandi þar sem Grænlandsjökull þekur um 80% landsins og mikil verðmæti eru í jörðu. Samt sem áður eru lífskjör ekki nógu góð og vonir um námagröft hafa minnkað að undanförnu.
„Það er mikil kreppa á Grænlandi og það mun taka langan tíma að byggja upp svona námuiðnað. Vonir stóðu til að sá iðnaður gæti haft jákvæð áhrif á fjármál landsins en það krefst miklu meira en þess að fá einhverjar námur í gang til þess að gera Grænland sjálfstæðara eða sjálfbærara efnahagslega. Ef ég lít til Grænlands og hagsmuni Grænlendinga þá er ég ekki í vafa um að þeir munu einn góðan veðurdag vilja breyta stöðu sinni varðandi sjálfstæði.“

Inga Dóra Markussen