Hildur Ása Henrýsdóttir

Sýning Hildar Ásu Henrýsdóttur „Þú Hildur það?“ opnar í Gallerí Fold laugardaginn 10. maí kl. 14. Þetta er fyrsta einkasýning Hildar í Gallerí Fold.Hildur Ása Henrýsdóttir (f. 1987) ólst upp á Þórshöfn á Langanesi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2016 og er einnig með BA gráðu í Nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. Hildur vinnur málverk, skúlptúra og gjörninga. Hún hefur sýnt víða, meðal annars í Hafnarborg, Gerðasafni, Listasafni Akureyrar og á sýningum í Berlín, London og Antwerpen.

Í listsköpun sinni gefur Hildur einlæga sýn inn í mannlegan reynsluheim. Hún afbyggir hugmyndir um fullkomnun og rannsakar persónuleg tengsl sem fólk skapar sín á milli, líkamlega og tilfinningalega. Verk hennar fjalla á umbúðalausan hátt um persónuleg málefni sem eru laus við tabú og hampa ófullkomnun. Á þann hátt útmáir hún landamæri þess sem er almennt talið perónulegt og þess sem er samfélagslega viðurkennt. Hildur birtir gjarnan sjálfa sig í verkum sínum þar sem hún kannar líkama sinn og fer í ferðalag inn á við. Hún kannar líkamann sem fundarstað á milli hins ytri efnisheims og innra sjálfs manneskjunnar. Staður sem við mætum öðrum manneskjum og eigum við þau samskipti. Hildur fjallar um þau samskipti sem við eigum við okkur sjálf, annað fólk og með hvaða hætti þau hafa áhrif á okkur og aðra. Hún kannar mörk einstaklingsins með því að velta upp spurningu um línuna á milli hins opinbera heims og þess persónulega.

hildurhenrys.com

instagram: hildurhenrysdottir_art

Sýningin opnar laugardaginn 10. maí kl. 14 og stendur til 31. maí 2025

 

Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.

RELATED LOCAL SERVICES