Sýningaropnun laugardag 7. desember kl. 14.
Verið velkomin
Nú eru til sýnis og sölu í Gallerí Fold æskuteikningar Alfreðs Flóka sem flestar eru frá árunum 1948-1952. Teikningarnar varðveittust innan fjölskyldunnar og þær er virkilega gaman að skoða og sjá inn í hugarheim hins unga Flóka. Framan af voru hugðarefnin dæmigerð fyrir 11 og 12 ára gamlan strák, löggur og bófar, indjánar og kúrekar, þjóðsögur og ævintýri, Charlie Chaplin og Mikki mús, táfýla og yfirburðir KR svo eitthvað sé nefnt. Mikill húmor er í mörgum teikningunum, en einnig ber á ádeilu. Hann teiknar skoplega mynd af listgagnrýnendum, ávarpar bilið milli fátækra og ríkra, sem og heimsmálin og er sennilegt að þar hafi tímaritið Spegillinn verið áhrifavaldur. Líkt og fleiri alvöru listamenn gerði hann nokkrar atlögur að sjálfsmyndum og fer svo að spreyta sig við að teikna eftir myndskreytingum í bókum. Meðal annars úr Leyndardómum Parísarborgar og eftir myndskreytingum Doré úr Lygasögum Munchausens. Einnig stúderaði hann bók ungverska listamannsins Stefáns Strobl Samtíðamenn í spéspegli sem kom út árið 1938 og innihélt fjölda skopmynda af þekktu íslensku fólki. Eftirgerðir Flóka á skopteikningum Stobl eru, líkt og frummyndirnar sjálfar, stórskemmtilegar.
Ljóst er að áhuginn og eljan var mikil því teikningarnar skipta hundruðum og oftar en ekki er teiknað beggja vegna blaðsins. „Hann var alltaf teiknandi“ segir Elías Kristjánsson æskuvinur Flóka í viðtali við Pál Ásgeir Pálsson árið 2006. Hann lýsir Flóka sem feimnum og hlédrægum, sílesandi og grúskandi í hrollvekjum, draugasögum og ljóðum þar sem óhugnaður, dauðaþrá og yfirskilvitlegir hlutir voru í aðalhlutverki. Þeir fóru stundum saman í bíó. „Ég man sérstaklega eftir Rauðu myllunni sem var sýnd í Austurbæjarbíói. Þetta var umtöluð mynd, ekki síst fyrir að hún var í lit sem var nýmæli á þeim tíma en þetta var rétt eftir 1950. Umfjöllunarefni myndarinnar er ævi listamannsins Toulouse Lautrec og Flóki hreifst óskaplega af henni. Ég held að við höfum séð hana átta til tíu sinnum og svo sá ég senur og brot úr henni í teikningum Flóka lengi á eftir.“
Flóki var óvenjulegt barn sem ólst upp undir verndarvæng móður sinnar og ömmu. Móðir hans segir svo frá í bók Nínu Bjarkar: „Flóki gekk í Austurbæjar- og Miðbæjarskóla, en mamma var alveg á móti því að hann væri rifinn upp eldsnemma á morgnanna. Hún sagði að dreng sem væri að teikna á næturnar og lesa Leyndardóma Parísarborgar mætti ekki vekja klukkan átta. Og hún samdi við skólakerfið. Fékk tímasetningunni breytt.“
Í æskuteikningum Flóka má víða greina minni sem fylgdu honum áfram í listinni. Þegar möppunum með teikningum hans er flett sjást framfarirnar vel og hugðarefnin breytast eftir því sem hann eldist, enda drengurinn orðinn unglingur. Flóki lærði teikningu hjá Jóhanni Briem í Gaggó Vest og er sagt að Jóhann hafi bjargað honum frá falli á gagnfræðaprófinu með því að gefa honum 10.1 í teikningu. Síðar fór Flóki í Myndlista- og handíðaskólann og svo í áframhaldandi nám í Danmörku. Hann lét þó hafa eftir sér að þrátt fyrir það hafi nám hans alltaf mest verið sjálfsnám, en alla tíð hafi hann búið að teiknikennslu Jóhanns Briem.
Alfreð Flóki fæddist árið 1938 og ólst upp á fjölskylduheimili í miðbæ Reykjavíkur ásamt foreldrum, systrum, ömmu og afa. Síðar fluttu foreldrar hans í Vesturbæinn. Á báðum heimilum var gestkvæmt og voru heimilin miklir ævintýraheimar. Þeim var skemmtilega lýst í bókum Nínu Bjarkar Árnadóttur Ævintýrabókin um Alfreð Flóka og í formála Jóhanns Hjálmarssonar í bókinni Alfreð Flóki Teikningar. Jóhann segir svo frá: „Á heimili hans var menningarlegra andrúmsloft en maður átti að venjast. Í bókaskápnum voru þykkar alfræðiorðabækur og verk norðurlandameistara eins og Hamsuns og Strindbergs … móðir hans skar sjálf út myndir í tré og bjó til tröll …Ég er efins um að Flóki hefði gert myndir þær sem liggja hér eftir hann, ef ekki hefði komið til einstakur skilningur foreldra hans Guðrúnar og Alfreðs Nielsen. Þau leyfðu honum að fara eigin leiðir og ráku hann ekki niður á Eyri eða í byggingarvinnu þegar hugðarefni listarinnar knúðu svo ákaft á hjá hinum unga manni að ekkert var veruleiki nema það eitt.”
Árið 1959 hélt listamaðurinn Alfreð Flóki sína fyrstu myndlistarsýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins, þá rúmlega tvítugur. Hann vakti strax mikla athygli og dagblöðin voru flest með umfjöllun um sýninguna, m.a. Tíminn og Þjóðviljinn sem voru hvort um sig með heilsíðu umfjöllun, persóna Flóka var þó kannski fyrirferðameiri í blaðagreinunum en verkin sjálf. Enda sparaði hann ekki gífuryrðin og var stóryrtur um eigið ágæti. Þegar hann var spurður í Þjóðviljanum hvort hann hafi ekki lært eitthvað af íslensku meisturunum svaraði hann: „Íslenzkir meistarar! Hvað er nú það? Mér vitanlega eru ekki til neinir íslenzkir meistarar þótt Muggur og Kjarval hafi sosum teiknað ágætlega …Ég er húmoristinn, mystikerinn og satírikerinn í íslenzkri myndlist. …Fígúratív myndlist á Íslandi. Það er ég!“
Sýningunni lýkur 22. desember.
Sýningin opnar
laugardaginn 7. desember kl. 14
og stendur til 22. desember 2024.
Verið velkomin
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg
mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.