Uppskera, málverkasýning Ástríðar Jósefínu Ólafsdóttur, opnar í Gallerí Fold laugardaginn 7. september kl. 14.
Ástríður Jósefína Ólafsdóttir (f. 1990) ólst upp á Ítalíu og lærði myndlist í Accademia di Belle Arti í Bologna á Ítalíu. Hún útskrifaðist þaðan árið 2016 og hefur starfað hér á landi síðan 2019. Ástríður hefur sýnt víðsvegar í galleríum á Ítalíu og á Íslandi. Síðasta sýning Ástríðar í Gallerí Fold, Fellingar, hlaut góðar viðtökur árið 2022.
Líkaminn er algengt viðfangsefni Ástríðar. Sjálf er hún hugfangin af því hvernig hann tengist, aðlagast og flæðir í umhverfinu. Undanfarin ár hefur hún stúderað klæði, áferð þess og fall, með aðferð sem kallast panneggio, tækni er ítalskir fyrirrennarar hennar notuðust við á endurreisnartímum.
Verkin á sýningunni eru fígúratífari en á sýningunni 2022 og nú ráða kaldir, bláir tónar ríkjum. Klæðið er enn fyrir hendi í verkunum en ljóst er að meira ber á andlegri hugsun að baki þeirra en áður. Orka og orkujöfnun hafa verið Ástríði hugleiknar síðustu misseri og hin viðkvæmu mörk lífs og dauða, kyrrðar og endurnýjunar. Klæðin, með sínum mjúku fellingum, falla að líkamanum og skapa sjónrænt samspil verndar og dulúðar. Dökkir tónarnir kalla fram tilfinningu um íhugandi einveru þar sem líkaminn endurnýjast og endurheimtir tapaða orku hulinn klæðum. Verkin eru hlaðin orku, þar sem flæðandi efnið er fryst á striganum.
Hvert verk táknar augnablik í óræðu ástandi, þar sem líkamar virðast í bið milli svefns og vöku, lífs og dauða. Klæðið er ekki aðeins verndarhjúpur, heldur einnig athvarf sem eflir dvínandi orku og veitir nýjan styrk.
Á sýningunni má einnig finna landslagsverk Ástríðar, sem hún kallar Land-escape, þar sem dökkt og framandi landslag úr klæði myndar hliðstæður við útlínur líkamans.
Sýningin opnar
laugardaginn 7.september kl. 14
og stendur til 28. september 2024.
Verið velkomin
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg
mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.