Frá einum degi til annars // Pablo Jansana

„Frá einum degi til annars“
Á sýningu sinni í BERG Contemporary í ágúst 2023 sýnir Pablo Jansana ný verk sem endurspegla hrifningu hans af glufunni sem gerir okkur kleift að ná utan um breytingar á tilvist okkar. Í verkum sínum þýðir Jansana umbreytingu bæði sem hreyfingu og nálægð við tiltekið hlið, sem biður okkur um að íhuga aðliggjandi heima, en tryggir þó ekki öryggi. Hliðið á milli hins þekkta og óþekkta opnast skyndilega og skilur eftir sig óljósar hugmyndir að ofbeldi. Í verkinu Estrella distante sjáum við til að mynda fjögur handapör sem sýna mismunandi bendingar umhverfis fölgráa sporöskju sem upplitast í grá-blóðrauðan fyrir miðju. Tvö pör á hvorum enda hliðsins leggja lófa upp að fyrirbærinu líkt og þær séu að kalla hliðið fram eða halda því í skefjum. Tvö pör til viðbótar—skreytt dökkum útlínum sem líkja þeim við beinagrind—teygja sig í átt að hvort öðru yfir opið og þrá snertingu, þrátt fyrir hringiðuna sem þyrlast undir þeim á yfirborði málverksins. Á milli handanna fljóta tvö rauð form; tvö skurðlækningaseymi sem brúa geispandi opið. Hver sem umbreytingin er, innan í eða umhverfis sporöskjulaga tómarúmið, er hún ófyrirsjáanleg, jafnvel ofsafull.
Sundurlaus hugrenningatengsl skjótast upp í huga mér þegar ég ræði við Jansana um ný verk hans, til dæmis Paul B. Preciado: transmaður, sjálfyfirlýstur femínisti, hinsegin heimspekingur búsettur í Frakklandi og höfundur bókarinnar Can the Monster Speak? (Semiotexte, 2021). Í bókinni endurritar hann ávarp sitt á árlegri ráðstefnu lacanískra sálgreina í París árið 2019 og varpar ljósi á þær heterónormatívu forsendur í anda feðraveldisins sem—að mati Preciados—sálgreining byggir á. Í ávarpi sínu deilir hann á kynjatvíhyggjuna og færirrök fyrir því að kyn sé róf í sífelldu flæði. Reynsla Preciados af endurteknum og sveiflukenndum umbreytingum á huglægu viðhorfi mannsins samsvarar áhuga hans á hliðinu. „Ímyndið ykkur ef við mannfólkið værum tilbúin til að umbreyta okkur, aftur og aftur,“ skrifar hann.
Þessi sami möguleiki rammar inn marglaga tilvísanir í verkum listamannsins á sýningunni: Hvað ef við gætum melt ofbeldið sem við höfum þurft að þola eða tileinka okkur—heterónormatív viðhorf; óraunsæja karlmennsku; undirokun—að fullu í gegnum göng, handan tíma og rúms?
Sýningin dregur titil sinn af upphafssetningu bókarinnar Myth of Pterygium (2022), fyrstu skáldsögu mexíkóska rithöfundarins Diego Gerard Morrison, sem hljóðar svo: „Hægra augað mitt er blóðhlaupið og veldur mér kláða frá einum degi til annars. Óvanalega miklum.“ Aðalpersónan, Arthur, vaknar einn morguninn í Mexíkóborg með augnsjúkdóm sem kallast pterygium – vöxt út frá táru sem leggst yfir hornhimnuna og hindrar sjón einstaklingsins ef ekkert er gert. En það er einmitt tilfelli Arthurs, sem upplifir að skynjun á nokkrum mikilvægum umbreytingum í lífi hans verður óskýr, þar með talið fæðing fyrsta barns hans.
Hægra auga Arthurs, sem hann sér varla út um, rímar við sporöskjulaga hliðið í málverkum Jansana. Að mati Jansana fæst skáldsagan við tvírætt eðli umbreytinga. Sagan endurspeglar þá staðreynd að breytingar (sem eru óaðskiljanlegur hluti af því að vera manneskja) geta á sama tíma verið bæði ofbeldisfullar og vænlegar. Skyndilegt sjónleysi Arthurs á tímum breytinga fyrirstillir yfirvofandi foreldrahlutverkið og þá breyttu forgangsröðun sem hlutverkið þröngvar upp á fólk. Í huga Jansana fjallar skáldsagan þó einnig um eðli pólitískra breytinga. Árið 2019 flykktust milljónir manns út á götur Chile og kröfðust samfélagslegra og pólitískra breytinga. Lögreglan miðaði gúmmíkúlum sínum í átt að augum mótmælenda sem olli því að þúsundir misstu sjón að hluta til.
Mörg verka Jansana staðsetja áhorfandann inni í hringlaga rými umbreytinga sem svipar til augntóftar. Það er þó mikilvægt að átta sig á því að, líkt og raunir Arthurs, hafna hlið Jansana geðhreinsun áhorfenda. Möguleikinn á því að verða öðruvísi tryggir ekki stöðugleika. Dæmi: Þann 11. september 1973 fór hershöfðinginn Augusto Pinochet fyrir valdaráni hersins í Chile sem hafði þær afleiðingar að borgaraleg stjórn og lýðræðislegri stjórnmálastarfsemi í landinu var afnumin. Þann 11. september 2001 skipulagði al-Qaeda fjórar hryðjuverkaárásir á Tvíburaturnana í New York sem leiddi til vægðarlausra viðbragðsaðgerða bandaríska hersins í Afganistan og Írak. Málverk Jansana fjalla ekki um þessa pólitísku atburði. Þau varpa fremur ljósi á það hugarmisræmi sem slík endurtekning vekur innra með þeim sem standa nærri í báðum atburðum. Jansana ólst upp undir stjórn Pinochet og flutti til New York á þeim áratug sem árásirnar á Tvíburaturnana áttu sér stað. Atburðurinn 11. september, sem hann hafði talið einstaka og óafturkræfa breytingu, upplifði hann í staðinn sem endurtekningu.
Í Chile, þar sem algengt er að jarðskjálftar valdi gríðarlegu tjóni, hefur fólk snúið sér að yfirnáttúrulegum hugmyndum til að takast á við fjarstæðu stórfelldra hamfara sem endurtaka sig. „Það er erfitt að átta sig á tíma og rúmi hringrása,“ skrifar Jansana. „Töfraraunsæi auðveldar fólki að skilja sorgina, að eitthvað sé nálægt en þó svo langt í burtu, að við séum á hreyfingu en stöndum einnig í stað.“ Ný verk Jansana hverfast um frásagnir, öllu heldur hvernig saga er sögð, þegar við göngumst við þeirri hringrás eða endurtekningu sem tilheyrir mannlegri tilvist.
Í verkinu Offer for Communication (2023) afmyndast múrveggur við það að tveir útlimir brjótast út úr regluföstu, hörðu efninu. Stór lærin í forgrunni málverksins tilheyra manneskju sem við sjáum ekki fyrir ofan mitti. Þar sem við myndum búast við að sjá blóð, vöðva og bein, lýsir sérkennilegt grængult ljós innan í formunum. Ég upplifi líkt og ég standi fyrir ofan einhvern og horfi niður í átt að klofi viðkomandi og fylgist þögult með tilfærslu milli vídda. Það mótar fyrir dökkgrænu skýi á milli læranna. Skærappelsínugult form sem líkist ugga vex út úr skýinu og hringar sig upp að múrsteinsveggnum í bakgrunni. Þar sem ég ferðast í gegnum múrsteinsvegg rekst ég á fígúru sem er að fæða sjálfa sig og einhverskonar veru á sama tíma. Á lagskiptu yfirborði málverksins birtast teikningar af manneskjum úti á götum Santíagó og Kaupmannahafnar ásamt persónum og táknum sem eru sótt í verk Nancy Spero, Fridu Kahlo og Ernu Rosenstein—allt listakonur sem taka bæði fyrir sársauka og umbreytingar í verkum sínum.
Útgangspunktur Offer for Communication er lokalínan í Myth of Pterygium, augnablikið sem Arthur verður faðir: „Innan úr herberginu berst ómótstæðilegt skrækjandi öskur nýrrar raddar, öskur lífs og lausnar. Í öskrinu má greina hæfilega reiði, andstyggð og von.“ Jansana skrifar: „Verkið fjallar um myrkrið sem óhjákvæmilega fylgir umbreytingum.“
Önnur og ekki síður mikilvæg hugmyndafræðileg tilvísun í verkunum sem sýnd eru á „Frá degi til dags“ er tilraunakvikmyndin Pinochet Porn eftir bandarísku listakonuna Ellen Cantor (1962 – 2013). Hún hóf tökur á myndinni árið 2008 en eftir að hún lést luku vinir og samstarfsmenn hennar við gerð myndarinnar árið 2016. Myndin fjallar um fimm börn sem ólust upp undir herforingjastjórn Pinochet á árunum 1973-1990. Þar sem Jansana er fæddur í Santíagó í Chile árið 1976 er þetta einnig tími og samhengi hans eigin barnæsku. Að sögn rithöfundarins og mannfræðingsins Alkisti Efthymiou varpar myndin fram spurningum um: „hvernig huglægni og persónuleg reynsla mótast undir alræðisstjórn,“ eða í tíma og rúmi sem er gegnsýrt af opinberum og persónulegum birtingarmyndum ofbeldis. Fyrir Efthymiou, líkt og fyrir Jansana, sýnir kvikmyndin hvernig fólk lifir kerfisbundið ofbeldi af eða hefur stjórn á eigin áföllum.
„Á sama tíma,“ skrifar Jansana, „var ég að lesa og horfa á leikritið The Balcony eftir Jean Genet.“ Jean Genet (1910-1986) var þekktur franskur anarkisti, rithöfundur og leikskáld. Á Encyclopedia Britannica segir að hann hafi verið „franskur glæpamaður sem var útskúfaður úr samfélaginu en gerðist rithöfundur, sem og skáldsagnahöfundur, sem breytti oft erótísku og klúru efni í ljóðræna sýn á heiminn…“ Þetta minnir um margt á viðhorf Ellenar Cantor gagnvart samfélagslegum viðmiðum og hrifningu hennar á eymd. The Balcony skiptist í níu leikþætti, þar af eru átta sem eiga sér stað á samnefndu vændishúsi í ónefndri evrópskri borg, þar sem uppreisn byltingarsinna er yfirvofandi. Að mati Jansana skoðar leikrit Genets hvernig pólitískt ofbeldi—sýnilegt vald sem talið er vera framlenging á metnaði til að ná stjórn—blæðir saman við ofbeldisfulla drottnun í samhengi við samskipti manna. Þúsundir hálfblindra einstaklinga sem marséruðu um götur Chile árið 2019 lifa áfram með tjöldin dregin fyrir hálfa tilveruna. Einvaldið mun móta þeirra nánustu kynni það sem eftir er ævinnar.
Verkin sem Jansana sýnir hér eru að mestu abstrakt. Á mörgum þeirra vottar eingöngu óljóst fyrir sporöskju í djúpi myndbyggingarinnar. Skilningur minn á verkunum kemur að hluta til frá stóru og þægilega fígúratífu málverki sem ber titilinn Self (2021). Málverkið sá ég í heimsókn minni á vinnustofu Jansana en verkið er ekki hluti af þessari sýningu. Engu að síður markar Jansana það sem útgangspunkt hugmyndavinnu sinnar hvað varðar hliðið og það er lykillinn að því hvernig hugmyndir um ofbeldi og von lita verk sýningarinnar. Í verkinu Self birtist áhorfendum stór getnaðarlimur og enn stærra gapandi gin hvílir á sammiðja hringjunum sem mynda hliðið fyrir aftan viðkomandi, líkt og steinvala sem hvílir á yfirborði vatns á hreyfingu. Önnur höndin dregur varirnar mjúklega aftur svo sést í fullkomnar tennur sem ramma inn aðra frásögn innan í gini verunnar. Það er líkt og fígúran noti líkama sinn til að umbreyta ytra hliðinu í minna og stöðugra hlið innra með sér. Hér sjáum við standandi fígúru ofan frá. Hún gengur í gegnum græna slikju af landslagi, óttast ekki hugsanlega umbreytingu og virðist ekki skeyta miklu um framandi veruna sem hún hefur fallið í ginið á. Hún táknar undirliggjandi skilaboð sýningarinnar „Frá einum degi til annars“ er varða margbrotið eðli mannlegrar tilvistar í heimi þar sem baráttan eykst en enn tórir vonin. Báðar halda þær áfram að endurtaka sig, hreyfast, soga okkur inn í hringiðu umbreytinga.
Texti: Natasha Marie Llorens
Um listamanninn:
Pablo Jansana (f. 1976, Chile) vinnur verk sín í hina ýmsu miðla, þar á meðal málverk, skúlptúra og texta. Hann lauk BFA gráðu frá Universidad Finis Terrae í Santiago áður en hann flutti til New York árið 2008, þar sem hann stundaði nám við School of Visual Arts og tók þátt í alþjóðlegu myndlistar -og sýningargerðarnámi skólans á árunum 2009-’10. Hann hefur búið og starfað í Kaupmannahöfn frá árinu 2019.
Verk Jansana byggjast á margvíslegri efnisnotkun olíu, vatnslita, lakks, resin, viðar og leirs. Efnin binda saman sköpunarferli sem byggist meðal annars á uppbyggingu efnis, lagskiptingu, afmáun og að hylja það sem fyrir er. Áhugasvið listamannsins liggur jafnframt í efniskennd og þeirri merkingu sem liggur að baki efnisvali, sem andsvar við sögulegu, persónulegu og uppspunnu samhengi, auk þess sem hann leitast við að skapa verk sem dregur áhorfandann inn í ástand sem einkennist af sáldramatískri frásögn.
Verk hans er að finna í ýmsum safneignum víðsvegar um heiminn, meðal annars í The Rema Hort Mann Foundation í New York, USA, Lista og menningarráðuneyti Chile, Museo de
Arte Moderno Chiloe í Chile, Libreria Nacional and Museo de Arte Moderno Chiloe í Chile and CSAV í Santiago, Chile.

https://www.pablojansana.net/

Klapparstígur 16 101 Reykjavík

562 0001

[email protected]

bergcontemporary.is


18. ágúst - 30. september, 2023


CATEGORIES


NEARBY SERVICES

 • Best of Iceland

  Best of Iceland
 • Related Articles

   Harpa – Eldbjørg og Tortelier

   Harpa – Eldbjørg og Tortelier

   Harpa Eldbjørg og Tortelier - Sinfón­íu­hjóm­sveit Íslands 12. október kl. 19:30 EFNISSKRÁ: Gabriel Fauré Forl...

   Helga Kristjánsdóttir – Inntak

   Helga Kristjánsdóttir – Inntak

   Inntak // Helga Kristjánsdóttir 4.-7. maí 2023 Innblástur minn á þessari sýningu sem ber yfirskriftina „Inntak“ er ís...

   Safnahúsið við Hverfisgötu

   Safnahúsið við Hverfisgötu

   Fjársjóður á Hverfisgötunni Eitt af stásslegustu húsum höfuðborgarinnar er Safnahúsið við Hverfisgötu. Húsið var bygg...