Hannesarholt – Himininn yfir jöklinum

Hannesarholt
Margrét E. Laxness – Himininn yfir jöklinum
14. október – 1. nóvember 2023

Margrét E. Laxness opnar málverkasýningu sína „Himininn yfir jöklinum“ í Hannesarholti laugardaginn 14. október kl. 14.

Á sýningunni sýnir Margrét E. Laxness ný verk unnin í akrýl á striga. Í verkunum birtist landslag, órætt en þó kunnuglegt, við könnumst við víðátturnar, sandana og jökulinn en getum þó ekki nefnt staðinn, yfir sveima skýin í litagleði og krafti og tjá andrúmsloft, hugarástand – ógn eða kyrrð, óveður eða veðurblíðu. Leikurinn með liti og kröftugar pensilstrokur myndar andstæður og tjáir hugarástand listamannsins og tilfinningar andspænis náttúrunni; einskonar náttúruljóð sem þenur mörk hins raunsæja og þekkta.

Margrét E. Laxness nam myndlist við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, í Textíldeild og Nýlistadeild, stundaði og framhaldsnám í málun við Accademia di Belle Arte í Róm. Margrét hefur haldið einkasýningar og einnig tekið þátt í samsýningum á Íslandi og á Ítalíu þar sem að hún hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir verk sín á samsýningu 2023 á vegum Art Space Milano í HubArt Gallery í Mílanó. Sýningin er sölusýning og stendur til 1.nóvember.

Hannesarholt er opið alla daga nema sunnudaga og mánudaga frá kl.11:30-16:00.

RELATED LOCAL SERVICES