Á aðventu og fram á þrettándann má sjá sýningu á jólatrjám af þeirri gerð sem mörg muna eflaust eftir af æskuheimilum sínum eða úr stofum ömmu og afa eða langömmu og langafa. Jólatrén eru frá því snemma á 20. öld og fram undir 1970. Trén eru úr safneign Þjóðminjasafnsins og eru til sýnis á annarri hæð safnsins.
Fyrstu jólatrén bárust til Norðurlanda laust eftir 1800 og náði hefðin einna fyrst rótfestu í Kaupmannahöfn. Eftir miðja öldina tók hún að breiðast út til annarra staða, en þó var jólatréð ekki sjálfsagður hlutur í hvers manns húsi fyrr en eftir aldamótin 1900. Fyrstu heimildir um jólatré á Íslandi eru frá miðri 19. öld. Þau munu fyrst hafa sést hjá dönskum kaupmönnum og íslenskum embættismönnum sem höfðu kynnst þessum sið í Kaupmannahöfn. Á síðustu áratugum 19. aldar fjölgaði jólatrjám meðal hinna efnameiri og fyrir aldamótin 1900 má sjá jólatré og jólatrésskraut auglýst í verslunum.
Fyrstu íslensku jólatrén voru gjarnan búin til úr spýtum, því grenitré uxu ekki villt á Íslandi og skipaferðir gátu tekið það langan tíma á þessum tíma árs, að innflutt grenitré voru oft búin að missa mikið af barrinu þegar komið var til Íslands. Heimatilbúin jólatré voru algengust meðal almennings fram undir miðja 20. öldina. Eitthvað var flutt inn af lifandi jólatrjám eftir 1920, en sá innflutningur datt að mestu niður á kreppuárunum og hófst ekki aftur að ráði fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld. Upp úr 1970 fóru íslensk grenitré að koma á markað og anna nú æ stærri hluta af eftirspurninni. Gervitré hafa sótt á, því mörgum finnst þrifalegra við þau að eiga en grenitré.