Skapandi tækninámskeið

Skema sérhæfir sig í kennslu með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi. Fyrirtækið stendur fyrir skapandi tækninámskeiðum fyrir börn og unglinga auk þess að styðja við menntakerfið í innleiðingu á forritun og spjaldtölvum.

Rakel   *** fv 4 tbl 2013

Rakel Sölvadóttir, stofnandi og framkvædastjóri Skema

Skema er leiðandi í kennslu varðandi tækni og enduruppbyggingu á menntun í takt við tækniþróun,“ segir Rakel Sölvadóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Skema. „Við höfum þróað aðferðafræði byggða á rannsóknum í sálfræði, kennslufræði og tæknifræði til að kenna börnum frá sex ára aldri að forrita. Með því að læra að vera skaparar tækninnar í staðinn fyrir einungis neytendur hennar byggja nemendur upp gagnrýna hugsun auk þess sem rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á sjálfsmynd, líðan og árangur í öðrum námsgreinum.“ Fjölbreytt námskeið eru í boði hjá Skema og er lögð áhersla á námskeið ætluð börnum og unglingum á aldrinum 6 – 16 ára. „Við bjóðum upp á fjölbreytt námskeið í forritun og annarri tæknisköpun fyrir börn, unglinga og kennara. Við höfum einnig lagt mikla áherslu á að nálgast nemendur út frá þeirra áhugasviði og kemur tölvuheimurinn Minecraft þar sterkur inn. Við höfum til dæmis sett upp sér Minecraft þjón sem byggir á Íslandskortinu og er nýttur til að kenna landafræði og skapandi hugsun.“

Mira_lengst_til_haegri

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra, ásamt Evu Huld Halldórsdóttir og Míru Esther Kamallakharaan sem hefur lagt stund á forritun hjá Skema frá sex ára aldri og starfar nú sem aðstoðarþjálfari hjá félaginu.

Tæknisetur
Skema fékk upplifunarhönnuð frá HAF stúdíó til liðs við sig til að setja upp sérhannað tæknisetur byggt á aðferðafræði félagsins. Þess má geta að um er að ræða fyrsta og eina barnvæna tæknisetrið í heiminum. Glaðlegir litir eru þar ríkjandi enda um skapandi umhverfi að ræða og voru húsgögn sérvalin með það í huga að styðja við nám barna.
„Stólarnir eru t.d. sérvaldir með athyglisstýringu í huga en krakkarnir geta fengið útrás fyrir hreyfiþörf en samt haldið athygli. Borðin eru líka sérvalin út frá því að einstaklingurinn fái að vera hann sjálfur og reynist það vel fyrir nemendur með greiningar líkt og ADHD, Asperger-heilkenni og einhverfu.“
Rakel segist vilja hvetja krakka til að kynna sér forritun og tæknisköpun almennt. „Fyrir utan hvað það er mikill skortur á tæknimenntuðu fólki þá opnar þekking á forritun á svo marga möguleika inn í framtíðina. Að læra forritun veitir nemendum forskot til framtíðar óháð þeirri atvinnugrein sem þau ætla að velja sér í framtíðinni.“

Aðstoðarþjálfarar
Hjá Skema er byggt mikið á jafningjakennslu og lögð sérstök áhersla á að leyfa nemendum að rækta fyrir sína styrkleika. „Auk starfsmanna og þjálfara hjá okkur erum við með í kringum 30 aðstoðarþjálfara í vinnu frá aldrinum 8 – 16 ára. Þau vinna við að aðstoða í kennslu og er alveg magnað að fylgjast með því hvað þau ná að endurspegla hvernig þau myndu vilja láta koma fram við sig í skólakerfinu í samskiptum og stuðningi við sína nemendur.“

Olafur1 icelandic times

Ólafur Örn Þorsteinsson, átta ára, er stoltur aðstoðarþjálfari hjá Skema.

„Hef lært að læra og muna“
Ólafur Örn Þorsteinsson er átta ára og hefur sótt þrjú námskeið hjá Skema, grunnnámskeið, Minecraft og Skapandi hönnun, og segist hann horfa frekar mikið á kennsluvídeó um forritun og Minecraft.
„Ég hef lært að læra og muna. Í fyrsta lagi finnst mér skemmtilegast að læra og svo finnst mér líka skemmtilegt að spila með öðrum í námskeiðinu og læra nýjar skipanir í Minecraft.
Ég er að vinna sem leiðbeinandi á námskeiðum hjá Skema. Ég vinn við að aðstoða fólk/krakka á námskeiðum og ef einhver er ekki almennilega að fylgjast með kennaranum þá sýni ég þeim hvað á að gera.“

taekniafmaeli2 icelandic times

Aukið sjálfstraust
Jóhanna Vigdís Arnardóttir er móðir Ólafs og segir hún að námskeiðin hjá Skema hafi aukið sjálfstraust hans til muna.  „Mér finnst kostirnir vera miklir við að bjóða upp á svona námskeið. Ég á tvo syni, annar vill vera endalaust í íþróttum en Ólafur er meira fyrir lestur og að vera í tölvunni. Þá skiptir sköpum að beina þessum tölvuáhuga á uppbyggilegar brautir. Hann er ekki bara að hanga og eyða tímanum í tölvunni heldur er verið að gera eitthvað uppbyggilegt og læra eitthvað. Mér finnst þetta vera frábært framtak hjá Skema hvernig þeim tekst að ná til krakkanna á þennan hátt því það er mikils virði að fá að stunda það sem maður er góður í og fá hjálp til að verða ennþá betri.“

taeknisetur„Kenni mest byrjunarstigsforritun“
Mira Esther Kamallakharan er 12 ára og var sex ára þegar hún sótti sitt fyrsta námskeið í Skema.
„Ég lærði að forrita og fannst mér það vera mjög skemmtilegt. Ég lærði að búa til tölvuleiki og bjó til einn sem fór á YouTube.“ Mira Esther hefur sótt fjölda námskeiða hjá Skema og hefur verið leiðbeinandi.
„Ég kenni mest byrjunarstigsforritun sem er mjög létt og þarf eiginlega ekki að skrifa neina kóða. Þetta er drag og drop. Ég kenni líka stundum Unity 3D sem er aðeins flóknara en þar er maður byrjaður að forrita; þetta er alvöru kóði sem maður forritar og hef ég kennt það tvisvar.“

TaeknibornAdLeikÁhersla á hópavinnu
„Ég var ráðgjafi þegar Rakel var að opna Skema og var Mira einn af fyrstu nemendunum við skólann,“ segir faðir hennar, Bala Kamallakharan.  „Ég vildi að hún færi á námskeið hjá Skema vegna þess að mér fannst grunnskólinn, sem hún er í, ekki gera nógu mikið varðandi hópavinnu og tækni. Mér fannst Skema geta boðið upp á það, þ.e. öfluga hópavinnu þar sem nemendur vinna mikið saman og ýtt er undir áhuga þeirra á tækni og forritun.“ Bala segir að honum hafi líka litist vel á að nemendur gætu aðstoðað kennarana. „Góðir nemendur eru venjulega góðir leiðbeinendur. Mira hefur fundist gaman að vera leiðbeinandi og lærir hún um leið mikið um nýja tækni.“