Bygging 52 íbúða fjölbýlishúss við Skyggnisbraut 14-18 og Friggjarbrunn 42-44 er stærsta byggingarverkefnið í Úlfarsárdal. Íbúðirnar verða á stærðarbilinu 60-120 m² og verklok eru áætluð síðla árs 2018.
Framkvæmdir við húsið, sem verður 4-5 hæðir með fjórum stigahúsum og sameiginlegum bílakjallara, hófust í apríl 2017. Búið er að steypa upp kjallara/bílageymslur og uppsteypa fyrstu hæðarinnar er langt komin.
„Við erum bæði með stórar íbúðir, sem flestar fara í leigu, en einnig minni íbúðir, allt niður í 60 m², sem flestar fara í sölu,“ segir Benedikt Gabríel Jósepsson, framkvæmdastjóri og eigandi Bygg Ben, sem stendur fyrir framkvæmdum. Hann segir mikið lagt upp úr vönduðum frágangi, góðri hljóðvist og að fylgja nýjustu tækni og þróun við frágang íbúðanna sem eiga að vera tilbúnar til innflutnings næsta haust.