Á Suðurlandi má alltaf sjá eitthvað nýtt

Suðurland má kalla heimkynni jökla, eldfjalla og þekktra staða eins og Þingvallaþjóðgarðs og Geysissvæðisins sem hægt er að heimsækja á leið um „Gullna Hringinn“. En einnig finnast þar minna þekktar perlur mitt á milli litríkra fjalla, fossa, gljúfra og úfins landslags hraunsins.

Hinn sígildi Gullni hringur

Gullni hringurinn er ein vinsælasta skoðunarferð þeirra sem vilja kynnast íslenskri náttúru en fyrsta stopp ferðalanga er hið heimsfræga jarðhitasvæði Geysis. Þar er að finna bullandi hveri og þar á meðal okkar virkasta hver, Strokk, en hann gýs reglulega. Næst er haldið að Gullfossi, eins magnaðasta og vatnsmesta foss Evrópu, til að sjá gífurlegt magn af vatni steypast ofan í tilkomumikið gil. Að lokum er haldið í Þingvallaþjóðgarð, það svæði okkar Íslendinga sem hefur hvað mesta sögulega og jarðfræðilega þýðingu, auk þess sem Þingvallavatn er stærsta náttúrulega stöðuvatn okkar, 83,7 km2 að flatarmáli.

Gullfoss – Ljósmyndari Páll Jökull Pétursson

Strandlengja Suðursins

Suðurströnd Íslands er eitt fallegasta svæði landsins þar sem svartur sandur, dynjandi fossar og víðfeðm gljúfur leika við hvern sinn fingur. Seljalandsfoss og Skógafoss eru best þekktir fossa á þessu svæði – hægt er að ganga bak við Seljalandsfoss til gamans og Skógafoss hefur birst í kvikmyndum á borð við The Secret Life of Walter Mitty og Thor: The Dark World.

Gaman er að upplifa Reynisdranga, klettadranga myndaða í eldsumbrotum og allt að 66m háa. Töluvert fuglavarp er í dröngunum, bæði fýll, lundi og langvía eiga sér þar hreiður. Þeir eru staðsettir í sjónum sunnan við Reynisfjall í Mýrdal og gefa umhverfinu ögrandi sýn mót svartri fjörunni sem nefnd er Reynisfjara. Hún er ein frægasta strönd Íslands enda sandurinn svartur og fallegt er að sjá þegar brimið leikur við fjöruborðið. Reynisfjara er reyndar ein hættulegasta fjara landsins svo ekki má fara of nálægt þeim dansi.

Reynisdrangar – Ljósmyndari Þórir N

Fjaðrárgljúfur er annað náttúruundur og er það talið hafa myndast við lok síðasta jökulsskeiðs eða fyrir um 9000 árum. Fjaðrá sem var þá mun stærri, svarf hjallana með hjálp sands og aurs frá jökli. Gljúfrið er stórbrotið og hrikalegt á að líta, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd – þó er ekki miklum erfiðleikum bundið að ganga þar um.

Hin mikla, sláandi fegurð Vatnajökulsþjóðgarðs

Jökulsárlón er ein helsta náttúruperla landsins, stórt jökullón við rætur Breiðamerkurjökuls í suðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Lónið er friðlýst sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og dýpsta vatn landsins, tæpir 300m. Jökulsárlón er blátt að lit vegna þess magns af sjó sem streymir inn í það en sérstaða þess orsakast m.a. af nálægð þess við sjóinn sem hefur gífurleg áhrif á bæði lit lónsins svo og á ísjakanna sem í því eru.

Jökulsárlón – Ljósmyndari Þorvarður Árnason

Svartifoss, staðsettur í Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði, er einn af frægustu fossum landsins, sökum fagurrar umgerðar úr óvenju reglulegum, gildum basaltstuðlum sem slúta yfir farveg vatnsins. Stuðlarnir mynduðust fyrir um 300.000 árum, þegar hraun rann niður Skaftafellsheiði og fyllti gamlan árfarveg.

Suðurlandið býður okkur velkomin með myndavélina í farteskinu – að njóta fegurðar fossa þess, jökla og strandlengju.