Sundlaugar Reykjavíkur

Einstök upplifun  á íslenska vísu
Að synda er eins og að svífa í draumi sagði skáldið og sá þá ef til vill tilefni til að smella sér í sundskýluna og setjast með lokuð augun einhvers staðar þar sem vatnið næði upp að eyrum. Á Íslandi teljast nú um 170 sundlaugar sem marka einstök lífsgæði þjóðarinnar enda eru laugarnar heilsulind og uppspretta hreyfingar, útiveru og ánægjulegra samverustunda allan ársins hring. Heiminum er tildæmis reglulega bjargað í rökræðum heitu pottana enda finnst ekki betri staður fyrir hitamál en í hringiðu mannlífsins.  Fólk ræktar bæði andlega og líkamalega líðan  í sundlaugunum.  Skemmtun og slökun þykja hvoru tveggja réttmætar athafnir  enda sækja jafnt ungir sem aldnir í vatnið. Unga kynslóðin buslar og skvettir af hjartans lyst á meðan aldursforsetarnir sýna  gjarnan listir sínar í sundleikfimitímum eða njóta heitu pottana. Karlmenn  berja sér á brjóst og spígspora á laugarbökkum en dömur vilja oft sýnast penari. Margar synda svokallað frúarsund og einstaka leyfa sér þann munað að vera berbrjósta þegar sólin situr hæst á himinum. Samkvæmt íslenskum sundlaugarlögum er  konum almennt heimilað að vera berbrjósta í sundlaugum á Íslandi  (að Bláa lóninu undanskildu ) en þrátt fyrir það hefur konum hefur verið vísað úr laugum fyrir að bera brjóst sín.

Sundlaugarnar gömlu
Fyrstu laugar sem ætlaðar voru til sundæfinga voru staðsettar nokkuð fyrir neðan Þvottalaugarnar, norðan við Sundlaugaveg. Þær voru lagðar niður þegar Laugardalslaugin var fullgerð árið 1968 og sjást ekki lengur, en þarna hófst sundkennsla vorið 1824. Sextíu árum síðar var lækurinn dýpkaður, breikkaður og stíflaður þannig að lítil laug myndaðist. Þetta var eina sundlaugin í Reykjavík sem var opin almenningi allt til ársins 1937 þegar Sundhöll Reykjavíkur tók til starfa. Miklar hetjur voru þeir sem æfðu fyrstu tökin í Sundlaugunum gömlu. Samkvæmt þriðja bindi bókarinnar  Reykjavík, sögustaður við sund átti nefninlega eitthvað af óhreinu þvottavatni Þvottalauganna  það til að renna í laugina og ata sundhetjur okkar auri. Því varla á færi nema þeirra allra hraustustu að spreyta sig undir handbendi kennarans. Karlmenn eingöngu að sinni.

laugarnes-sundnamskeid-pilta-1900Sundkennsla 1884
Kennarinn heitir Blöndal, er einhvers staðar norðan úr landi og hefur kennt þar sund. Strákarnir klæða sig úr á laugarbakkanum, skilja fötin sín þar eftir í hrúgu og láta stein ofan á, ef veður er hvasst, svo fötin fjúki ekki. Nokkru ofar eru þvottalaugar og eitthvað af óhreina vatninu úr þeim rennur í sundlaugina. Botninn í sundlauginni er fullur af leðju.  Þegar strákarnir koma upp úr, eru þeir mórauðir á skrokkinn. Ef veður er gott, hlaupa þeir niður á Kirkjusand til þess að skola þar af sér í sjónum leðjuna úr lauginni. Sé hins vegar kalt eða rigning fara þeir blautir og óhreinir í fötin.
Knud Simsen 1952

goantiques3_2(1)Áfram stelpur
Nú, ekki mátti sniðganga kvenþjóðina.  Árið 1908 tók Bríet Bjarnhéðinsdóttir sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd Kvennalistans og fékk samþykkta tillögu sína varðandi sundkennslu stúlkna til móts við pilta.  Árið 1908 var því laugin gamla fullgerð úr tilhöggnum steini  og var heitt vatn leitt til hennar með pípum. Fröken Ingibjörg Brands (Guðbrandsdóttir) kenndi, en hún var fyrsta konan á Íslandi sem lagði fyrir sig íþróttakennslu. Sundlaugar bæjarfélags Reykjavíkur eru nú sjö talsins, reknar með mikilli prýði af Íþrótta og Tómstundaráði og má með sanni segja að þó nokkur þróun hafi átt sér stað  frá fyrstu dögum sundiðkunnar Íslendinga.

Arbaejarlaug_400x300Árbæjarlaug
Laugin er staðsett ofarlega í Elliðaárdalnum við Fylkisveg, umkringd gróðursæld sem einkennir þennan stað. Árbæjarlaugin státar af 25m aðallaug, vaðlaug með ýmiskonar vatnsnuddi og  11m innilaug undir glerhimni. Er sú síðastnefnda reglulega notuð við námskeið í ungbarnasundi. Rennibrautir eru tvær, önnur stærri og ætluð börnum eldri en átta ára, (6-8 ára í fylgd með fullorðnum) og minni, staðsettri í vaðlauginni og ætluð yngstu kynslóðinni. Heitir pottar ylja gestum og einnig er boðið bæði upp á gufu og eimböð.Vígsludagur Árbæjarlaugar var 30. apríl 1994.

Breiðholtslaug
Hafist var handa við að byggja innilaugina í Breiðholtslaug árið 1976 og upphaflega var hún byggð sem kennslulaug fyrir skólana í Breiðholti. Fyrstu tvö árin var eingöngu innilaugin starfrækt en árið 1981 var aðallaugin tekin í notkun. Íbúar Breiðholts fengu takmarkaðan aðgang að lauginni fyrstu árin, og var hún þá nefnd Sundlaug Fjölbrautarskólans. Í dag njóta gestir 10m hárrar rennibrautar,  25m aðallaugar, 12,5m innilaugar auk 12,5m grynnri útilaugar fyrir minni sundgarpa. Heitir pottar, nuddpottur, gufu og eimböð eru á staðnum.

Grafarvogslaug
Fyrsta skóflustunga Grafarvogslaugar var tekin  13. desember 1996  en laugin hefur verið að byggjast smátt og smátt frá opnunardegi sínum, 3. maí tveimur árum síðar. Lokið var við  innilaug og nuddpott  haustið 1998 og eimbað vorið 1999. Leiklaug  með ýmiskonar flotleikföngum og 6,2m rennibraut var opnuð 25. apríl 2002. Félagsmenn íþróttafélagsins Fjölnis hafa þreytt sundmót  í aðallauginni sem telur 25m og líkt og í Árbæjarlaug hafa námskeið í ungbarnasundi farið fram í innilauginni.

klebergslaug1Klébergslaug
Klébergslaug á Kjalarnesi býður upp á  sundaðstöðu með útilaug, barnalaug, lítilli rennibraut og heitum potti auk yndislegra eim og gufubaða. Kajaknámskeið á vegum björgunarsveitarinnar Kjölur hafa verið haldin í lauginni en þar kynnast þátttakendur sjókajakbúnaði, læra undirstöðuatriði  róðrartækni og aðgeta bjargað sér og ferðafélögum sínum við einfaldar aðstæður.

Laugardalslaug 007Laugardalslaug
Ein stærsta og vinsælasta  sundlaug Íslands er staðsett í Laugardal, miðstöð íþrótta- og tómstundaiðkunar í Reykjavík. Árið 1958 var hafist handa við að byggja laugina rétt sunnan við Sundlaugaveg og hún tekin í notkun 1.júní 1968 . Í Laugardalslaug eru tvær 50m laugar, önnur útilaug en hin innanhússlaug sem er fullkomin keppnislaug. Fyrirtaks rennibrautir, þrjár talsins gleðja gesti, fimm heitir pottar, þar af tveir nuddpottar, barnalaug, eimbað og birtulampar. Að auki státar nú laugin af heitum sjópotti, þeim fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

sundhollin_innjSwimmingpoolsSundhöll Reykjavíkur
Arkitektinn Guðjón Samúelsson á heiðurinn af hönnun Sundhallar Reykjavíkur. Gaman er að geta þess að fyrsta tillaga Guðjóns  var bygging í burstabæjarstíl. Laugin átti að vera þrískipt, ein laugin átti að vera fyrir börn, önnur stærri fyrir íþróttamenn, sú þriðja átti að vera sjólaug. Sú tilllaga var ekki samþykkt, en fleiri ráku á eftir og árið 1929 var byrjað á að byggja Sundhöllina í þeirri mynd sem hún er í dag. Í nokkur ár gekk hvorki né rak með bygginguna vegna fjárskorts en hún var loksins tekin í notkun 24. mars 1937. Sundlaugin er einungis innisundlaug.  Tvö stökkbretti eru í lauginni, það lægra er 1,0 m frá vatnsyfirborði og það hærra 2,75 m frá vatnsborði. Hafa margir ofurhugarnir haft gaman af. Heitir útipottar eru tveir, sólbaðsaðstaða og eimbað.

Vesturbæjarlaug
Sameiginlegt framtak Kvennaskólastúlkna og fjáröflunarnefnda í kringum 1953 ýtti á að hafist var handa við byggingu Vesturbæjarlaugarinnar . Fjármagn kom einnig frá Reykjavíkur bæ. Hluti af söfnunarfénu var varið til listaverkakaupa sem málað var á loft og veggi í afgreiðslusal auk kaupa á stóru fiskabúri sem sett var upp í anddyri laugarinnar. Var laugin opnuð árið 1961. Ein notalegasta laug Reykjavíkur býður gestum að njóta 25m aðalllaugar, barnalaugar, potta og eim og gufubaða.

nvikNauthólsvíkin
Nýjasta sundmannvirkið sem tilheyrir Reykjavík er Nauthólsvíkin sem var opnuð 17. júní árið 2000 og vígð með sundtökum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ylströndin í Nauthólsvík er annar tveggja baðstaða á landinu, sem hefur fengið „Bláfánann”, alþjóðlega viðurkenningu, sem Landvernd hefur umboð til að veita. Staðir, sem fá þessa vottun, verða að uppfylla ströng skilyrði um hreinlæti, vatnsgæði, öryggi, aðbúnað og fræðslu fyrir gesti og umhverfisvernd. Hefur Nauthólsvíkin glatt mörg hjörtu síðan hún opnaði enda fáir staðir á landinu sem státa af hvítum sandi og heitum sjó.

Heitar staðreyndir
•   Reykvíkingar fóru árið 2000 að minnsta kosti 15 sinnum í sund á ári.
Árið 1970 fóru þeir 9 sinnum á ári í sund.
•   Hljómsveitin Múm var á meðal þeirra sem héldu tónleika í Sundhöll Reykjavíkur árið 1998.
Þurftu  tónleikagestir að stinga höfðinu fyrir neðan vatnsborðið til að njóta tónanna!
•   Íslenskt sundlið tók þátt í Ólympíuleikunum í Berlín 1936, á  Ólympíuleikana í London 1948 undir leiðsögn
Jóns Pálssonar sem var um árabil aðalþjálfari og kennari í sunddeildum Ægis, Ármanns, ÍR og KR.
•  Fyrsti heiti potturinn sem byggður var eftir fornri hefð var tekin í notkun í Vesturbæjarlaug árið 1962.
Í dag eru heitu pottarnir mikilvægur hluti af sundlaugamenningu Íslendinga.

Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur
Borgartún 12-14 • 105 Reykjavík
+354 411 5000
[email protected]
www.itr.is