Svart og hvítt: Ný sýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur
Svart og hvítt er titill nýrrar sýningar er opnaði í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur í dag með myndum eftir Thomas Kellner.
“Hverjum hefði dottið í hug að enn yrðu teknar svo árifamiklar filmuljósmyndir á tímum stafrænnar byltingar?” Alan G. Artner, Chicago Tribune
Ljósmyndun í svarthvítu varð fyrst útbreidd um 1871 og náði hún fljótt miklum vinsældum. Svarthvíti myndheimurinn var allsráðandi áratugum saman eða allt þangað til að ljósmyndir í lit komu til sögunnar. Kellner hefur mest megnis tekið og sýnt ljósmyndir í lit, en um tíma tók hann svarthvítar ljósmyndir.
Í dag eru margir ljósmyndarar að enduruppgötva svarthvíta ljósmyndun og gera tilraunir með þann miðil. Í þessari sýningur horfir Kellner aftur til þess tíma þegar hann var að stíga sín fyrstu skref sem listamaður. Á upphafsárum ferilsins tók hann myndir á filmu og stækkaði þær á ljósmyndapappír. Hann þróaði sérstaka aðferð við framsetningu á verkum sínum, sitt eigið sjónræna tungumál. Með því að leggja 35 mm filmubúta samsíða á ljósnæman pappír skapaði hann eitt heildstætt verk samsett úr mörgum ljósmyndarömmum. Úr varð afbökuð mynd af viðfangsefninu.
Kellner býr og starfar í Bonn, Þýskalandi, hann er menntaður í félagsfræði, stjórnmálafræði, hagfræði, list og listastögu frá Háskólanum í Siegen. Verk Kellners hafa verið sýnd víða um heim, en einnig hefur hann unnið við sýningastjórnun, bókaútgáfu og haldið fyrirlestra.
Sýningin stendur til 31. Janúar 2018.
Nánari upplýsingar á:
https://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/svart-og-hvitt