Emilie Dalum

18.08.-29.10 2018
„Það má líkja vegferð einstaklings í lyfjameðferð við keppni í hnefaleikum þar sem keppandinn fær endurtekið á sig högg. Þreyttur og ringlaður stendur hann upp, aftur og aftur, og býr sig undir næstu lotu. Eftir hverja lotu missir hann kraft og þrek.“

Aðeins 26 ára gömul greindist Emilie með krabbamein í sogæðakerfinu, heimsmynd hennar breyttist á einni nóttu. Í bataferlinu vann hún að ljósmyndaseríu sem ber titilinn Emilie og samanstendur af ljósmyndum sem hún tók á fimm mánaða tímabili á meðan hún gekkst undir lyfjameðferð.

„Ég myndaði átökin og þá einangrun sem ég mætti í lyfjameðferðinni með hjálp tímastillis myndavélarinnar. Samspilið á milli mín, sjúkdómsins og myndavélarinnar var mjög náið. Með því að skrásetja meðferðina sá ég glögglega breytingar á sjálfri mér, líkamlegar og andlegar. Verandi ljósmyndari þá rann mér blóðið til skyldunnar að mynda bataferlið og upplifun mína á þessu stormasama ferðalagi. Ég faldi aldrei þá staðreynd að ég væri veik, þetta var raunveruleikinn, hví skyldi ég afneita honum?“
Áhersla Emilie er á viðfangsefnið fremur en lokaafurðina sem leiðir af sér að myndbyggingin í verkum hennar er stundum skæld eða stuttaraleg. Ljósmyndastíll hennar er kraftmikill og sérstakur. Emilie er í stöðugri sjálfsskoðun. Lífsskilningur og skoðanir hennar hafa mótast út frá samspili töfra, galla, ótta og ástar ásamt víxlverkandi áhrifum mannlegra samskipta. Sú áhersla speglast í verkum hennar.
„Ég sekk mér í viðfangsefnið og tapa mér algerlega þegar verkefni grípur mig, ég gleymi að ég er ljósmyndari. Því er ég mjög tilfinningalega tengd verkum mínum, berskjölduð og viðkvæm.“
Emilie Dalum er ljósmyndari, listamaður og sýningarstjóri, fædd og uppalin í Danmörku en búsett á Íslandi. Hún hefur síðustu ár stýrt árlegri listasýningu, The Factory, í Djúpavík. Þessi misserin vinnur hún að ljósmyndabók sem ber titilinn Michael.   www.emiliedalum.com

Ljósmyndasafn Reykjavikur

Tryggvagata 15, 6.hæð
Sími: 411-6300
http://www.ljosmyndasafnreykjavikur.is
[email protected]

Sýningastjóri:
Íris Gyða Guðbjargardóttir [email protected]

Ljósmyndari:
Emilie Dalum, [email protected]