„Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað breytti mestu í lífi fólks við komu rafmagnsins. Þó tel ég að birtan hafi haft einna mest áhrif. Það er enginn efi að draugatrú og myrkfælni minnkaði mikið við alla þá birtu sem rafmagnið skapaði. Nú þekki ég varla myrkfælið barn.“
Nútímafólk veltir lítið fyrir sér þeim lífsins gæðum sem í boði eru í dag. Okkur finnst að þau lífsgæði sem eru til staðar hafi alltaf verið og séu sjálfsögð. Þegar betur er að gáð er alls ekki svo og á það meðal annars við um rafmagnið. Þegar lesnar eru fundargerðarbækur Grýtubakkahrepps frá um og eftir 1950 er þar mikið fjallað um að þrýsta á að rafmagn komi í sveitina. Til að mynda var haldinn almennur sveitarfundur fyrir Grýtubakkahrepp 19. desember 1954. Fyrir fundinum lá aðeins eitt mál, raforkumál. Ég gríp hér niður í fundargerð fundarins. Oddviti hafði framsögu í málinu. Gat hann þess að nú á næsta ári ættum við kost á því að fá leitt til okkar rafmagn frá Laxárvirkjun, þó væru enn þrír bæir sem ekki enn væru teknir í áætlun raforkumálaskrifstofunnar. Gat hann þess að heimtaugargjöld þyrfti að greiða í tvennu lagi, helmingur fyrirfram en seinni helmingur áður en tengt væri. Raflagnir í hús hefði KEA lánað á þessu ári þar sem lagt hefði verið í Eyjafjarðarsýslu og líklegt væri að við mundum fá að sæta sömu kjörum. Þá gat hann þess að hreppsnefnd hefði lítillega athugað og unnið að möguleikum til sameiginlegrar lántöku fyrir hreppsbúa til framkvæmdarinnar.
Þá leitaði oddviti eftir því við fundarmenn hverjir óskuðu eftir rafmagninu. Já, sögðu allir fundarmenn nema einn og tveir voru óákveðnir. Að lokum var eftirfarandi tillaga samþykkt á fundinum. „Fundurinn lítur svo á að eðlilegt væri að hreppsbúar tryggi húseignir sínar gegn brunatjóni að öðru jöfnu hjá því tryggingarfélagi sem veitt gæti lán til raforluframkvæmda í hreppnum“. Samþykkt í einu hljóði. Mér finnst þessi fundargerð segja aðallega tvennt. Það var mikil samstaða í sveitarfélaginu um málið og hversu erfitt var að fá lán á þeim tíma. Hvort það þætti eðlilegt í dag að binda alla við sama tryggingarfélag skal ósagt látið. Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað breytti mestu í lífi fólks við komu rafmagnsins. Þó tel ég að birtan hafi haft einna mest áhrif. Það er enginn efi að draugatrú og myrkfælni minnkaði mikið við alla þá birtu sem rafmagnið skapaði. Nú þekki ég varla myrkfælið barn. Þrátt fyrir þennan samhljóm þurfti að huga að ýmsu. Á þessum árum voru að koma stórvirkari vélar til jarðvinnslu en áður þekktust og sumir vildu láta ræktunina hafa forgang í framkvæmdum. Hún var undirstaða í lífsafkomunni, rafmagnið nálgaðist lúxus og marga óaði við að steypa sér í skuldir vegna heimtaugagjaldanna. Þá þurftu að vera til eldhugar sem börðust eins og ljón fyrir málefninu og svo fór að lokum allir urðu þátttakendur.
Sverrisdætur fá rafmagn Rafmagnið kom á æskuheimili mitt sumarið 1956. Tilhlökkun um að fá ljós og rafmagnstæki var mikil hjá Sverrisdætrum. Á Lómatjörn var svokallaður bensínmótor sem gaf okkur ljós í bæinn en á mjaltatíma voru ljósin dauf vegan þess að þá þurfti að drífa mjaltakerfið í fjósinu. Oft kom fyrir að bensínstífla kom í mótorinn, hann hökti og þá blikkuðu ljósin, hann hreinlega bilaði og þá þurfti að nota tvo aladínlampa sem til voru á heimilinu. Var nokkuð skrýtið að beðið væri eftir ljósum sem aldrei áttu að bregðast?
Mamma hafði keypt ísskáp sem tengja átti við væntanlegt rafmagn og á heimilið var komin þvottavél sem beið svo ekki þyrfti að þvo lengur í höndunum á bretti og ryksuga sem átti að hreinsa upp öll óhreinindi af stofuteppinu. Svo maður tali nú ekki um stóru Elektrolux hrærivélina sem stóð uppi á búrhillu en mamma hafði keypt hana þegar hún var efnuð kaupkona í Reykjavík. Hún hafði tekið hana með sér í sveitina í von um að einhvern tíma kæmi rafmagn. Nú þurfti ekki lengur að hræra öll deig í höndunum. Þetta rafmagn átti að bjarga öllu. Á heimilinu heyrði maður talað um að einhverjir bændur ætluðu ekki að taka inn rafmagn. Fólk velti fyrir sér kostum rafmagnsins og göllum. Umræðan á mínu heimili var sú að við systur trúðum á rafmagnið í orðsins fyllstu merkingu.
Svo kom að því að leggja átti rafmagn í íbúðar- og útihús á Lómatjörn. Mættir voru tveir rafvirkjar, Þorsteinn Sigurðsson, kallaður Steini, og með honum lærlingur, Bjarki að nafni. Steini var skyggn og var aldrei viss um hve mörgum hann átti að heilsa þar sem hann kom ókunnugur.
Þessir menn urðu fljótt heimilisvinir. Þótt ég væri aðeins fjögurra ára gömul þegar þetta var man ég nokkuð vel eftir þessum mönnum. Við systurnar sem þá vorum fjögurra, sex og átta ára urðum mjög hrifnar af þeim. Við hirtum allar afklippur af vírum og lagnaefni þar sem þær voru í öllum regnbogans litum. Ekki var þó alveg erfiðislaust að eignast þær því við þurftum að spyrja þá leyfis. Þá var yfirleitt svarið að sú sem vildi þakka fyrir sig með kossi mundi hljóta hnossið. Ég var það mikill óviti að það skipti mig litlu þótt ég smellti einum eða tveimur kossum á þá og varð það til þess að ég eignaðist langstærsta safnið.
Nú á tímum þætti þetta trúlega óviðeigandi að ókunnugir menn létu svona og krefðu ungar stelpur um koss en enginn vafi leikur á því í mínum huga að þetta var aðeins fölskvalaust grín og gaman. Stuttu eftir að þeir voru heima eignaðist ég dúkku sem var strákur og auðvitað skírði ég dúkkuna Steina.
Á næsta bæ lögðu Gestur og Davíð rafmagnið. Gestur var söngmaður ógurlegur og auk þess kúluvarpari og loðinn á bringunni. Davíð var aftur á móti kallaður Davíð sálugi þar sem hann hreyfði sig víst frekar hægt. Rafvirkjarnir voru galdramenn sem kunnu allt og gátu. Einn þeirra, sem við fengum þó aldrei að sjá en vissum þó að var bróðir Gests, var svo göldróttur að hann var kallaður Edison. Sá var nú ekki smeykur við rafmagnið. Hann var sagður hafa læknað í sér tannpínu með því að reka tvo enda með 220 volta straum niður í jaxlinn. Það komu eldglæringar og hann steinlá en þegar hann rankaði úr rotinu fann hann ekki fyrir tannpínu og aldrei eftir það í þessum jaxli.
Það var ekki nóg að Steini, Bjarki, Gestur og Davíð væru á ferðinni. Það var hópur manna að setja upp staura og leggja línur um alla sveit og eftirminnilegir eru skórnir með göddunum sem þessar hetjur fóru í og gátu svo gengið upp og niður staurana og Guð minn góður, á staurunum stóð háspenna lífshætta. Þessir drengir voru kvennagull og margar heimasæturnar hrifust af þeim. Þeir mættu á böllin á Grenivík og sló stundum í brýnu með þeim og heimamönnum. Þeir voru komnir á þeirra yfirráðasvæði. En ég var heldur of ung, aðeins fjögurra ára gömul, minn herra var Steini.
Nú rann upp sá dagur að rafmagni var hleypt á línurnar. Við systur stóðum í stofunni og störðum á ljósakrónuna og biðum í ofvæni eftir því að það kæmi hlaupandi eftir þessum silfurlituðu vírum austan úr Laxárvirkjun og alveg inn í ljósakrónu og þá mundi þetta sama undur gerast sem varð við sköpun heimsins: Verði ljós! Og þá varð ljós en gallinn var að bjart var úti, hrifningin var ekki svo mikil fyrr en um kvöldið, þá breyttist allt, ekkert blikk í ljósum, engin týra þegar mjólkað var. Ísskápurinn var kominn í samband með kalda mjólk og frysti að ofan, svo ís var á boðstólnum til hátíðarbrigða.
„Á næsta bæ lögðu Gestur og Davíð rafmagnið. Gestur var söngmaður ógurlegur og auk þess kúluvarpari og loðinn á bringunni. Davíð var aftur á móti kallaður Davíð sálugi þar sem hann hreyfði sig víst frekar hægt.“
Þvegillinn í þvottavélinni gekk fram og aftur svo að menn trúðu því að þvotturinn væri hvítari og hreinni og ekki skemmdi að hægt var að vinda hann í rafmagnsvindu. Svo þurfti að prófa ryksuguna á teppinu í stofunni, við systur rifumst um fyrstu yfirferð en þar tapaði ég þar sem ég er yngst og þurfti að bíða betri tíma.
Í bland við ánægjuna var þó talsverður kvíði. Innan dyra leyndist nú hætta í hverju horni. Allir kunnu allt í einu orðið fullt af sögum um lítil börn sem í óvitaskap sínum tróðu nagla eða heklunál inn í innstungu og voru nærri dáin eða alveg. Því staðreyndin var sú að ef maður tók utan um vír eða eitthvað sem rafstraumur var á sat maður fastur og gat ekki losað sig fyrr en í dauðateygjunum.
Sveitasíminn gegndi hlutverki fréttastofunnar þarna eins og í svo mörgu öðru og Stjáni Ben sem þá bjó í Litlagerði ákvað að gera dálitla tilraun. Hann sagði nágranna sínum sögu í símann. „Það er betra að passa sig á rafmagninu, maður. Veistu hvað ég sá?“ „Nei.“ „Ég sá að tveir hrafnar sátu og krunkuðu sinn á hvorri rafmagnslínunni hérna rétt neðan við bæinn. Svo fóru þeir að stinga saman nefjum og þá kom bara blossi og þeir fuðruðu upp! Hurfu! Ekki svo mikið sem ein fjöður féll til jarðar!“
Þetta hafði tilætluð áhrif. Enginn treysti sér til að vefengja söguna. Hún sannaði bara það sem allir vissu. Þetta var stórhættulegt. Innan tíðar hafði hröfnum þessum fjölgað til muna og langtum fleiri en Litlagerðishrafnarnir urðu að lúta þessum örlögum.
Konurnar í sveitinni umgengust nýju rafmagnstækin sín af mikilli virðingu. Þær settu upp gleraugun áður en þær sneru takkanum á Rafha eldavélinni ofur varlega, fyrst á 3 og lækkuðu niður á 1 þegar sauð eins og stóð í leiðbeiningunum. Hraðsuðuketillinn var
undratæki sem flýtti ótrúlega fyrir uppáhellingunni. Sumar konur geymdu hann alltaf, á milli þess sem hann var notaður, í kassanum sem hann kom í svo ekki færi einhver að fikta í honum og ekki kæmu á hann fingraför eða ryk.
„Svo kom að því að leggja átti rafmagn í íbúðar- og útihús á Lómatjörn. Mættir voru tveir rafvirkjar, Þorsteinn Sigurðsson, kallaður Steini, og með honum lærlingur, Bjarki að nafni. Steini var skyggn og var aldrei viss um hve mörgum hann átti að heilsa þar sem hann kom ókunnugur.“
Og svo var komið rafmagnsútvarp! Nú þurfti ekki lengur að fara með sýrubatteríið á næstu bæi til að láta hlaða það og vera útvarpslaus á meðan. Þetta var svo dýrt tæki að betra var að fara vel með það. Þegar búið var að stilla það á Skjaldarvík þurfti ekkert að nota þann takka meira. Þá var bara einn smellur til að kveikja og stilla mátulega hátt, ekkert að fikta við að hækka og lækka. Það fór bara illa með tækið.
En eins og endranær leiddi hvað af öðru og fljótlega vildu konurnar fá ísskápa. Hvað áttu menn að gera við ísskáp? Þeir sem ekki höfðu mjólkurkæli við fjósið höfðu alltaf notast við bæjarlækinn og gátu alveg gert það áfram.
En reyndar er alveg makalaust hvað konur eru nýjungagjarnar og brátt spurðist út að Billa á Grund væri komin með ísskáp. Það varð umræðuefni í sveitinni. Á einhverjum stað þar sem menn deildu um hvort þetta væri nauðsyn eða sóun átti Snæbjörn á Nolli lokaorðið:
„Ég hef séð inn í þennan ísskáp á Grund. Þar var ekkert nema tvinnakefli, vanilludropaglas og gleraugun hennar Billu.“Frekari vitna þurfti ekki við.
Ljósahátíð var haldin á Grenivík í desember 1956. Mikil veisla með öllum þeim sem að verkinu komu. En viti menn, ljósin slokknuðu meðan á hátíðinni stóð.
Tíminn leið og vetur gekk í garð með snjó og krepju og rafmagnið fór, við systur heyrðum pabba tala um krap í Laxá. Aladínlamparnir voru teknir fram en verst var að mjólka þurfti í höndunum. Nú var ekki gamli bensínmótorinn til staðar og amma sem var svo völt á fótunum gat dottið í myrkrinu í stiganum. Var ef til vill gamla lagið betra?
Síðasta stórbilunin sem ég man eftir var í byrjun febrúar 1974. Þá féll stórt snjóflóð milli bæjanna Lómatjarnar og Hléskóga og tók með sér bæði rafmagns- og símalínur. Línur skemmdust líka vegna ísingar. Fengnar voru lánaðar litlar dísilstöðvar hjá Vegagerðinni til að bæta úr þar sem ástandið var verst. Annars hópaðist fólk í þau hús þar sem olíukynding var og þar var búið og sofið og hver lófastór blettur notaður sem svefnpláss.
Nú er rafmagnið komið í jarðstreng og rafmagnstruflanir vonandi úr sögunni. Þeir sem eru miklu yngri en undirrituð hafa ekki nokkurt hugmyndaflug til að sjá fyrir sér tæknibyltinguna miklu sem varð í Grýtubakkahreppi árið 1956.
Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri Grýtubakkahrepps
Land og saga 1 tbl. 2007- orkublað – fléttið því hér að neðan:
https://issuu.com/