„Ávinningurinn getur orðið mikill fyrir orkugeirann á Íslandi ef hægt verður að ná tökum á djúpborunum,“ segir dr. Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Þá yrði hægt að framleiða meiri orku og með hagkvæmari hætti.

profile

Dr. Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík

Íslenska djúpborunarverkefnið, IDDP, var stofnað árið 2000 af HS-orku, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkustofnun. Auk þeirra koma fleiri að verkefninu – íslenskar og erlendar vísindastofnanir, fyrirtæki og háskólar. Með djúpborunarverkefninu er ætlunin að bora niður á um fimm kílómetra dýpi eða nálægt varmagjafa jarðhitasvæðis en hefðbundnar borholur ná niður á um tveggja kílómetra dýpi. Markmiðið er að ná meiri orku úr iðrum jarðar þar sem hitastig er um 400-500 gráður.

„Ef þetta tekst verður hægt að ná upp jarðhitavökva, eða vatni, sem er töluvert heitara og orkuríkara heldur en það sem fæst úr hefðbundnum jarðhitaholum,“ segir Guðrún Sævarsdóttir. „Lögmál varmafræðinnar segja að ef um er að ræða heitari vökva þá sé hægt að ná meiri varmafræðilegri nýtni út úr vökvanum þegar orkuforminu er breytt frá varma yfir í raforku.“

Guðrún segir að ástæða þess að lághitavökvi, sem er 120 gráður eða kaldari, sé yfirleitt ekki notaður í raforkuframleiðslu, heldur fyrst og fremst í húshitun, sé að mjög óhagkvæmt sé að breyta þeirri orku yfir í raforku út af fyrrnefndum lögmálum.

„Annar kostur við að gera þetta með þessum hætti er að ef hægt er að bora nógu djúpt til þess að ná í heitari vökva verður kannski hægt að fjölga þeim svæðum þar sem hægt er að vinna varma; það væri þá kannski hægt að fara inn á svæði sem flokkast ekki í dag sem hefðbundin jarðhitasvæði.“

Digital CameraSýnd veiði en ekki gefin

Djúpborunarhola var boruð við Kröflu fyrir nokkrum árum og átti að bora niður á fjóra til fimm kílómetra.

„Holan átti að lenda nálægt kvikuhólfi sem menn töldu sig vera búna að staðsetja en það tókst þó aldrei að bora nema tvo kílómetra niður því borinn lenti á kviku á því dýpi og því var ekki hægt að bora lengra. Upp úr þeirri holu fékkst heitasti vökvi sem nokkurn tímann hefur fengist upp úr jarðhitaborholu á Íslandi eða yfirhituð gufa við allt að 450 gráður. Úr venjulegri jarðhitaborholu fæst í mesta lagi um 2-300 gráðu heitur vökvi. Flæðismælingar benda til að þessi eina hola geti gefið um 30 megavött af raforku en það má bera saman við uppsett afl Kröfluvirkjunar sem er 60 megavött.

Háskólinn í Reykjavík - Rektor og deildarforsetar

Guðrún Sævarsdóttir. „Lögmál varmafræðinnar segja að ef um er að ræða heitari vökva þá sé hægt að ná meiri varmafræðilegri nýtni út úr vökvanum þegar orkuforminu er breytt frá varma yfir í raforku.“

Holan var svo kröftug að það endaði með því að hún var kæfð og er hún ónýt í dag. Á þeim tíma sem hún var í rekstri náðist heilmikill árangur við að þróa aðferðir svo hægt væri að nýta gufuna til raforkuframleiðslu. Að lokum bilaði búnaður við holutoppinn vegna þessa óvenjulega álags og menn voru hræddir um að missa stjórn á þessu og dældu köldu vatni ofan í holuna og við það eyðilagðist stálfóðring sem er ofan í holunni.

2Þetta segir manni að það þarf að hanna allan búnaðinn sérstaklega til þess að taka við þessum heita vökva. Djúpboranir eru sýnd veiði en ekki gefin þar sem bæði form og efnasamsetning jarðhitavökvans er öðruvísi heldur en þegar um er að ræða hefðbundið hitastig auk fleiri áskorana. Þetta þarf allt að hafa í huga þegar næsta hola verður undirbúin.

Digital CameraAð mínu mati er þetta framsæknasta rannsóknar- og þróunarverkefnið í íslenskum jarðhita í dag enda standa fyrirtækin öll saman að þessu. Ávinningurinn getur orðið mikill fyrir orkugeirann á Íslandi ef hægt verður að leysa öll þau vandamál sem geta fylgt djúpborunum. Þá yrði hægt að framleiða meiri orku með hagkvæmari hætti og jafnvel nýta fleiri svæði, stækka auðlindina og ná meiri nýtni út úr hverri holu. Það þýðir í raun meiri og hagkvæmari orkuframleiðsla fyrir íslensk orkufyrirtæki og íslenskt samfélag.“3