• Íslenska

Eimir

Til eflingar nýsköpunar og nýtingar í tengslum við jarðvarma

Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Eyþing- Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu standa að EIMI og er lögð áhersla á bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Eimur vinnur einnig mikið með Íslenska jarðvarmaklasanum og Íslenska ferðaklasanum. „Nýsköpun er mikilvæg hjá EIMI og lykilstef verkefnisins er að nýta betur þær auðlindir sem til eru,“ segir Snæbjörn Sigurðarson framkvæmdastjóri. „Grunnatriðin eru sjálfbærni, nýsköpun og samvinna. EIMUR er fyrst og fremst vettvangur fyrir nýjar hugmyndir til að þær geti þróast og eflst – þetta er samvinnuverkefni til þess að efla nýsköpun og vitund á Norðausturlandi í tengslum við jarðvarma og aðrar auðlindir svæðisins. Þetta er stórt verkefni og það eru svo margir möguleikar sem koma til greina að vandinn er oft að finna þau verkefni sem eru líkleg til þess að verða að veruleika og fylgja þeim eftir. Þetta er eiginlega lúxusvandamál.“


SAMKEPPNIR
Snæbjörn segir að það sem standi upp úr séu samkeppnir sem EIMUR stendur fyrir og að EIMUR sé sýnilegastur í gegnum þær. „EIMUR í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf stóð í mars 2017 fyrir hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra. Það skiluðu skiluðu sér nokkuð margar hugmyndir og ein þeirra kemst vonandi til framkvæmda; það liggur fyrir fljótlega hvað verður um hana en hún snýst um að byggja baðhella í sjávarmálinu undir göngunum við Eyjafjörð. Það er dæmi um framkvæmd sem gæti orðið að veruleika fyrir tilstuðlan EIMS.“ Núna stendur yfir samkeppni sem kallast „Gerum okkur mat úr  jarðhitanum“ en Íslensk verðbréf, Matarauður Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru þátttakendur í því samstarfi. Kallað er eftir hugmyndum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda á Norðurlandi eystra og mega hugmyndir vera á hvaða stigi sem er og fela í sér allt frá framleiðslu á hráefnum til fullunninnar matvöru.
„Við ætlum í haust að standa að ráðstefnu á Norðausturlandi þar sem jarðhitinn verður meginþemað en sambærileg ráðstefna var haldið á síðasta ári.“


ÞÁTTTAKA Í STÆRRI VERKEFNUM EIMUR er tímabundið verkefni sem lýkur um mitt næsta ár. „Vonir standa hins vegar til að EIMUR geti komið að eða staðið fyrir langtímaverkefnum sem tengjast nýsköpun og rannsóknum. Það gæti tengst þróun jarðvangs á Norðausturlandi með áherslu á jarðhita og fjölnýtingu orkuauðlinda. Það er stórt verkefni í pípunum sem nefnist Krafla Magma Testbed sem EIMUR gæti hugsanlega haft aðkomu að en það snýst í grunninn um að bora niður í kviku undir Kröflusvæðinu til rannsókna. Við erum einnig að vinna í því að vekja athygli á Norðausturlandi sem auðlindaríku svæði og þá sérstaklega jarðhitanum. Það snýst þá um að vekja athygli ferðafólks á því að vatnið og rafmagnið sem það nýtir er endurnýjanleg, græn orka. Sama á við um þá sem hér búa – það er mikilvægt að minna menn á að þessar auðlindir eru ekki sjálfsagðar. Það þarf að hlúa vel að þeim og nýta með sjálfbærum hætti.“

Myndir: Hreinn Hjartarson og Gaukur Hjartarson.

 

„Nýsköpun er mikilvæg hjá EIMI og lykilstef verkefnisins er að nýta betur þær auðlindir sem til eru.“ —Snæbjörn Sigurðarson.