Þjóðminjasafn Íslands er eitt af höfuðsöfnum Íslands. Safnið er stofnað árið 1863, fyrir 161 ári, og hét Forngripasafnið fram til 1911 þegar það fær sitt núverandi nafn. Fyrst var safnið á vergangi, en fær síðan inni í Dómkirkjunni, Tukthúsinu við Skólavörðustíg, Alþingishúsinu, í húsi Landsbanka Íslands við Austurstræti, og frá 1908 á efstu hæð í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Við stofnun lýðveldisins fyrir 80 árum, ákvað Alþingi að reisa safninu eigið hús, og var flutt í það frá Safnahúsinu í nýtt hús á horni Suðurgötu og Hringbrautar árið 1950, og er þar enn. Fyrir tuttugu árum, árið 2004, var opnaður á fyrstu hæð sýningarrýmið Myndasalur. Salurinn hefur alla tíð verið helgaður samtímaljósmyndun, og hefur Þjóðminjasafnið lagt áherslu að sýna verk sem endurspegla sköpunargáfu íslenskra ljósmyndara. Á sýningunni sem nú stendur yfir, er litið um öxl, sýnt úrval mynda sem sýndar hafa verið í Myndasalnum síðustu tvo áratugi.
Reykjavík 17/04/2024 : A7RIV, RX1R II – 2.0/35mm Z, FE 1.8/20mm G
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson