Unnur Valdís Kristjánsdóttir

Hádegisleiðsögn: Unnur Valdís Kristjánsdóttir
Föstudag 24. mars kl. 12.30 á Kjarvalsstöðum

Eitt af mörgum verkum og verkefnum sem sýnd eru á sýningunni Dæmisögur: Vöruhönnun á 21. öld er Flothettan eftir Unni Valdísi Kristjánsdóttur. Unnur Valdís gengur með gestum um sýninguna og rekur sögu þessa farsæla verkefni síns í hádeginu í upphafi HönnunarMars-helgarinnar. Gestum er velkomið að spyrja spurninga og fróðlegt verður að heyra um það samfélag og siði sem flothettan hefur skapað.

Flothettan er dæmi um upplifunarhönnun og hefur frá því að hún kom á markað árið 2011 öðlast eigið líf. Flothettan hefur opnað heim slökunar, samveru og náttúruupplifunar. Fimmtán sundlaugar á Íslandi bjóða nú upp á Samflot og ætla má að hundruð manna stundi fljótandi slökun í skipulögðum samflotum um land allt í hverri viku.

Flothettan hefur leitt til nýsköpunar í ferðaþjónustu og heilsugeiranum þar sem boðið er upp á flot og vatnsslökun í ýmsum útgáfum. Einnig hafa orðið til flotviðburðir sem flokkast undir svokallað Heilsudjamm, þar sem áherslan er á boðefnabætandi athafnir, veitingar og samveru í vatni. Flothettan hefur hvatt til skemmtilegrar nýyrðasmíðar eins og samflot og heilsudjamm bera vott um.

Flothettan er dæmi um einfalda en snjalla hugmynd sem byggir á rótgróinni baðmenningu Íslendinga. Um leið er hún í takt við tíðaranda núvitundar og heilsumeðvitundar. Flothettan er einnig dæmi um hugmynd sem er fylgt vel eftir, gefinn góður tími og takinu sleppt í frjálst flæði.

Á sýningunni Dæmisögur: Vöruhönnun á 21.öld eru nokkur framúrskarandi verkefni sem hvert um sig endurspeglar með skýrum hætti ólík viðfangsefni vöruhönnunar. Þannig fæst innsýn í helstu strauma og stefnur í faginu hér á landi undanfarin ár.

Þess má geta að flothettan er til sölu í safnbúðinni á Kjarvalsstöðum.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0