Vel geymdur fjársjóður á austurlandi

Borgarfjöður Eystri skarta mörgum af fallegustu náttúruperlum landsins.

Little elves1Álfadrottning Íslands býr í Álfaborginni, klettaborg nærri þorpinu og fjölmargar álfa- og huldufólkssögur tengjast henni; stúlkur sem giftust íbúum þar og ýmis önnur samskipti mennskra við íbúa borgarinnar.
Í Landnámu er getið landnámsmanna á svæðinu og þeir voru: Loðmundur gamli í Loðmundarfirði, Þorsteinn kleggi í Húsavík, Þórir lína í Breiðuvík, Veturliði Arnbjarnarson á Borgarfirði, Þorkell fullspakur í Njarðvík og Uni danski Garðarsson á Austur-Héraði. Gunnars saga Þiðrandabana, sem gerist um árið 1000, tengist Njarðvík mikið og í sögunni er m.a. getið Þorragarðs og Þiðrandaþúfu sem hvort tveggja eru í dag friðlýstar fornminjar. Þorragarður er hlaðinn torfgarður, allt að 1,5 m hár og hefur verið um 1,4 km að lengd í upphafi, en um þriðjungur hans er nú kominn undir tún.

Tveir synir Þóris línu í Breiðuvík bjuggu á Borgarfirði, Gunnsteinn á „Dysjarmýri” og Sveinungur á Bakka en þeirra bræðra er beggja getið í Gunnars sögu Þiðrandabana. Sveinungur bjargaði Gunnari á flótta og er það fyrsta heimild um björgun í Borgarfirði en björgunarsveitin þar heitir Sveinungi.Brunavik sandur_borgarfjordur eystri_icelandic_times

Brunavik sandur

Hrikaleg fegurð
Til að ferðast um Víknaslóðir, gangandi eða akandi, er æskilegt að verða sér úti um vandað göngukort af svæðinu, útgefið af Ferðamálahópnum á Borgarfirði. En hefjum nú smá ferðalag um svæðið og byrjum nyrst á svæðinu.

icelandic times Storurd lake

Stórurð

Vestan Dyrfjalla er Stórurð, ein af náttúruperlum Íslands. Um tveggja og hálfs tíma ganga (7 km) er þangað frá þjóðvegi og rétt að gera ráð fyrir löngum degi í þá ferð því það er auðvelt að gleyma sér í þeirri hrikalegu fegurð sem Stórurð býr yfir. Fullyrða má að þeir sem þangað koma heillist af þessari sérstöku náttúruperlu sem ekki á sér hliðstæðu í heiminum.
                                                                                                                    
Storurdarmynd2IMG_8837 copyIMG_8828Talið er að Stórurð hafi myndast þannig að ísaldarjökullinn hafi skrapað hamraþilin og blokkir fallið þannig á jökulinn sem hafi síðan flutt þær fram dalinn, allt að 7 km leið. Velja má um fjórar stikaðar gönguleiðir að Stórurð. Tvímælalaust má mæla með að hefja gönguna frá Vatnsskarði því þannig fæst einstakt útsýni yfir Njarðvík, Fljótsdalshérað og síðan Stórurð áður en gengið er niður í hana af dalsbrúninni við Mjóadalsvarp.

Stapavík er lítil klettavík, sunnanvert við Héraðsflóa. Rétt vestar er Krosshöfði en í byrjun 20. aldar var þar aðal verslunarstaður úthéraðsmanna. Í Stapavík var komið upp aðstöðu til vöruuppskipunar og hún nýtt fram á fimmta áratug síðustu aldar eða þar til flutningar hófust með bílum.

Njarðvík er norðan Borgarfjarðar. Þrír bæir eru í víkinni.

Í byrjun 16. aldar bjó á Eiðum Margrét, kölluð hin ríka. Átti hún átti bæði Húsavík og Njarðvík og gaf hún systur sinni Njarðvík. Þá var hún nefnd „víkin magra en fagra”

Under Dyrfjoll peak1 icelandictimes

Undir Dyrfjöll

Njarðvík er ákaflega litfögur. Ljóst líparít setur mjög sterkan svip á hana og Dyrfjöllin (1136 m) gnæfa svo fyrir víkurbotni með sína svörtu móbergs- og basalthamra. Útsýni af Vatnsskarði er fagurt og af norðurbrún má í góðu skyggni sjá til Snæfells, Herðubreiðar og Langaness. Vegurinn yfir Vatnsskarð var fyrst lagður árið 1954. Áður var farin göngu- og hestaslóð um Gönguskarð frá Unaósi en um Sandaskörð ef farið var frá Borgarfirði á Inn- Hérað. Innra-Hvannagil í Njarðvík er athyglisverður staður. Skilti er við veginn þegar komið er niður í víkina og góður vegslóði er upp að gilinu. Stutt og mjög auðveld ganga fyrir alla er inn í það en þar birtast fjölbreyttar bergmyndanir í líparítinu og sérkennilegir basalt-berggangar kljúfa líparítskriðurnar þvers og kruss. Botn árinnar er mjög sérkennilegur á flúðum skammt uppi í gilinu.

Talið er að í Njarðvík sé miðja Njarðvíkureldstöðvarinnar og hún og Dyrfjallaeldstöðin myndi eina megineldstöð. Dyrfjöllin munu hafa myndast í gosi í öskju, svipaðri og Askja í Dyngjufjöllum er í dag. Önnur megineldstöð er talin nálægt Víknaheiði innst í Borgarfirði og einnig eru á svæðinu Álftavíkureldstöðin sunnan Húsavíkur og Herfellseldstöðin í Loðmundarfirði.

minjasafnausturkjarval

Jóhannes S. Kjarval í Borarfirði Eystra

 

Kjarval
Borgarfjörður fékk verslunarréttindi 1895 og um það leyti byrjaði að myndast þéttbýliskjarni þar sem þorpið Bakkagerði er nú. Fyrst voru þetta lítil torfhús, svokallaðar þurrabúðir og „neðst” í þorpinu er Lindarbakki, fallegt lítið torfhús, sem sýnir vel hvernig þessi hús litu út. Lindarbakki er í einkaeign, nýttur sem sumarhús og er vinsælt myndefni ferðamanna.

kjarvalstofa1

kjaarvalstofa3Á Borgarfirði eystri eru æskustöðvar listmálarans Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals en hann ólst upp í Geitavík, og þar ofan við veginn stendur minnisvarði um hann. Sumarið 2002 var opnuð á Borgarfirði Kjarvalsstofa, sem helguð er minningu Kjarvals. Þar er varpað ljósi á lífshlaup hans og listiðkun, auk þess sem fjallað er um dvöl hans á Borgarfirði á fyrri hluta 20. aldar. Kjarval, eða „Jói í Geitavík”, eins og Borgfirðingar kölluðu hann, sýndi heimahögunum alla tíð mikla rækt og þangað sótti hann efnivið í margar rómaðar landslagsmyndir (auk þess sem hann teiknaði fjölda kjarvalstofa4andlitsmynda af Borgfirðingum. Það verk sem stendur Borgfirðingum næst er eflaust altaristaflan í Bakkagerðiskirkju, en stór hluti þeirra ferðamanna sem sækja fjörðinn heim koma við í kirkjunni til að sjá þetta meistaraverk. Auk sögusýninga í Kjarvalsstofu er þar Barnaland, góð leikaðstaða fyrir börn þar sem þau geta m.a. málað eigin listaverk á striga. Merktar hafa verið sérstakar gönguleiðir, ,,Í leit að landslagi’’ þar sem komið hefur verið upp eftirprentunum af nokkrum þekktum verkum Kjarvals úti í náttúrunni, á þeim stöðum þar sem talið er að Kjarval hafi málað þau. Kjarvalsstofa hefur komið upp myndasýningum frá eldri tíma á Borgarfirði, bæði lifandi myndir og ljósmyndir. Þá hefur Kjarvalsstofa gefið út geisladisk með álfa- og vættasögum sem tengjast svæðinu og samstarf er komið á við safn í Bö í Vesterålen í Norður-Noregi. Kjarvalsstofa setur upp í Noregi aðstöðu fyrir nokkra álfa frá Borgarfirði og safnið í Bö gerir aðstöðu á Borgarfirði fyrir sæbúa, prinsessu og aðrar spennandi verur.

Fuglaskoðunnarparadís
Frábær aðstaða er til fuglaskoðunar við Hafnarhólma. Þar eru tveir pallar fyrir fuglaáhugamenn en óvíða er betri aðstaða til að fylgjast með lunda og ritu. Lundinn kemur um miðjan apríl en hverfur allur á braut á einni nóttu um miðjan ágúst. Góð aðstaða er líka fyrir fuglaáhugamenn í fuglaskoðunarhúsi í þorpinu. Borgarfjörður er þekktur fyrir fallega steina en almenn steinatínsla er bönnuð nema með sérstöku leyfi landeigenda . Álfasteinn er fyrirtæki sem vinnur listmuni úr steinum úr borgfirskri náttúru. Hjá Álfasteini er varðveittur einn alstærsti jaspissteinn sem fundist hefur á Íslandi, 2.250 kg að þyngd.

OLYMPUS DIGITAL CAMERAOLYMPUS DIGITAL CAMERAÍbúar Borgarfjarðarhrepps eru tæplega 150. Í sveitinni er sauðfjárbúskapur og nokkuð af hrossum. Gott afréttarland fyrir sauðfé er í Loðmundarfirði og á víkunum sunnan fjarðarins og reka bændur fé sitt gjarnan þangað. Talsvert er af hreindýrum á svæðinu en þau eru stygg og oft erfitt að koma auga á þau.

Hafnaraðstaða á Borgarfirði er slæm frá náttúrunnar hendi enda fjörðurinn stuttur og breiður en við Hafnarhólma austan fjarðar hefur verið gerð góð smábátahöfn. Gerðar eru út 10-12 trillur og mest af aflanum er saltað hjá Fiskverkun Kalla Sveins.
Árið 2003 fékk Borgarfjarðarhöfn, önnur íslenskra hafna, að skarta Bláfánanum sem er alþjóðlegt tákn smærri hafna sem uppfylla ýmiss skilyrði, m.a. gott aðgengi ferðafólks, snyrtimennsku og góðar merkingar. Stykkishólmshöfn er einnig með bláfánann.

Víkurnar tíu
Víkurnar milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar eru tíu og var búið í flestum þeirra fram undir miðja 20. öldina en síðust fór Húsavík í eyði árið 1974.

Að norðan eru það; Brúnavík, Hvalvík, Kjólsvík, Svínavík, Breiðavík, Litlavík, Herjólfsvík, Húsavík, Ytri-Álftavík og Innri-Álftavík. Auk þess var búið á Glettingsnesi.

Brúnavík er næst sunnan Borgarfjarðar. Þar var oft tvíbýli og á síðasta áratug 19. aldar komst íbúatalan yfir 30 manns en byggð lagðist þar af 1944. Brúnavík er talin bera nafn af brúnunum í víkinni en ekki af brúna litnum sem þó er áberandi þar. Það er því gengið til Brúnavíkur en ekki til Brúnuvíkur.

Í víkinni er þokkaleg lending við klappir nálægt bæjarstæðinu og oftast var nokkur útgerð þar enda mjög stutt á fengsæl fiskimið.

Fyrir botni víkurinnar er sandfjara og ofan hennar eru mjög sérkennilegir og fallegir líparítklettar. Þeir sem leið eiga til Brúnavíkur ættu ekki að láta göngu um fjöruna fram hjá sér fara. Yfirleitt er greiðfært yfir Víkurána nálægt sjónum.

Ægilegt skriðuhlaup
Í Hvalvík er lítið vitað um búsetu nema hvað merkur maður, Benoní Guðlaugsson bjó þar í 10 ár eða til 1842 er hann flutti sig á Glettingsnes sem þá hafði verið í eyði um tíma. Bærinn stóð skammt ofan við sjávarbakkann en ófært er þar niður í fjöru. Bæjarrústirnar eru ógreinilegar.

Á Glettingsnesi er góð lending og þar var nokkuð útræði. Viti var byggður þar árið 1931 og vitavörður var þar til 1952 er nesið fór í eyði. Þægileg ganga er á Gletting (Glettingskoll) (553) frá Kjólsvík eða Súluskarði en leiðin er ekki stikuð. Af Glettingi er stórbrotið útsýni og þar skiptast spásvæði Veðurstofu: Austurland að Glettingi og Austfirðir.

Kjólsvík er sunnan Glettings. Þar er bæjarstæðið út við sjó norðan víkur. Víkin ber nafn af kletti sem er ofan við bæinn. Kjóll þýðir skip eða kjölur og kletturinn á að bægja skriðum og grjóthruni frá bænum, sem stendur beint neðan hans. Í Kjólsvík eru mikil framhlaup og Ólafur Ólavíus segir í ferðabók sinni 1776: „Hefur víkin, sem þótti mjög grasgefin, breyst mjög af ægilegu skriðuhlaupi fyrir þremur árum”. Kjólsvík fór í eyði við þessi skriðuhlaup og byggðist ekki aftur fyrr en 1819 og fór síðan aftur í eyði 1938.

Svínavík heitir dalverpi er liggur upp í Grenmó sunnan Kjólsvíkur. Þar hefur aldrei verið búið enda víkin lítil. Fáar færar leiðir eru þangað en þó er þokkaleg leið um Kaplaskarð og á háfjöru má auðveldlega ganga með sjó um Steinsfjöru, fyrir Forvaða og þaðan upp í víkina.

Litfagurt líparít
Næst eru Breiðavík og Litlavík. Oftast er talað um sitt hvora víkina þótt þær séu í raun bara ein vík landfræðilega. Landamörk jarðanna fylgja Stóruá inni í vík og langleiðina til sjávar. Svæðið er ákaflega litfagurt með mjög áberandi ljósum líparítfjöllum.

Í seinni tíð var oft tvíbýli í Breiðuvík, jafnvel þríbýli, yfirleitt 10-15 manns. Mikið af eldri rústum eru umhverfis bæjarstæðið og flest bendir til búsetu frá landnámi en víkurinnar er getið í Gunnars sögu Þiðrandabana (um árið 1000). Gamlar rústir þar heita Fornibær. Sérstakt var Athyglisvert er að Litluvíkurfólk átti kirkjusókn til Húsavíkur en Breiðuvíkurfólk til Borgarfjarðar. Litlavík fór í eyði 1945 og Breiðavík 1947.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (FFF) reisti í víkinni glæsilegan 33ja manna gönguskála 1998.Jeppavegur er frá Borgarfirði um Gagnheiði og þar uppi er útsýnisskífa. Frá Breiðuvík er einnig jeppavegur um Víknaheiði og þar er komið á Loðmundarfjarðarveg við rætur Hvítserks.  Álfadrottning Íslands býr í Álfaborginni, klettaborg nærri þorpinu og fjölmargar álfa- og huldufólkssögur tengjast henni; stúlkur sem giftust íbúum þar og ýmis önnur samskipti mennskra við íbúa borgarinnar.        

Nágrannaerjur til forna
Herjólfsvík er næst sunnan Litluvíkur en þar var aldrei búið ef frá er talin frásögn í þjóðsögum um Herjólf og systur hans Gunnhildi sem bjó í Gunnhildardal í Húsavík. Deildu þau um upprekstrarland sem endaði með því að þau felldu skriður á bæi hvors annars. Gunnhildur og hennar fólk komst af því hún hafði veður af ferð Herjólfs en hann fórst hins vegar ,,með hyski sínu öllu‘‘ undir skriðu Gunnhildar. Sunnan Herjólfsvíkur eru Blábjörg, tígurlegt stuðlabergsþil og þar er talið að álfabiskupinn yfir Íslandi búi. Aðeins lítill hluti Blábjarga sést af landi en frá sjó sést að þetta er mikilfenglegt náttúrufyrirbrigði. Húsavík bar höfuð og herðar yfir aðrar víkur hvað ábúð snerti enda hæst metna jörð í Múlaþingi að samkvæmt fornu mati. Þar var stunduð mikil útgerð og Færeyingar voru þar t.d. fram undir 1930. Á árunum 1830 til 1900 bjuggu þar 40 – 65 manns á fjórum bæjum. Eftir það fór fólki fækkandi og byggð lagðist af 1974. Kirkju og bæjarhúsum er vel við haldið af landeigendum sem nýta þau til sumardvalar. Margrét ríka, sem átti Húsavík á 16. öld, kallaði Húsavík „víkina ljótu en feitu”. Sú nafngift er vart verðskulduð því víkin skartar a.m.k. tveim einstökum fjöllum. Annað er Hvítserkur, eitt fegursta og sérstæðasta fjall landsins með dökka bergganga þvers og kruss um ljósar hlíðar sínar og svo Skælingur, eitt formfegursta fjall landsins, stundum af sjómönnum kallaður „kínverska musterið”. Fegurð er metin öðruvísi nú til dags en var á öldum áður því þá réðu oft magn og gæði beitarlands mestu.Hvítserkur og Leirfjall hafa myndast í gífurlegu sprengigosi en aðal bergtegundin í þeim er ingnimbrít eða flikruberg.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs reisti sumarið 2000 glæsilegan 33ja manna gönguskála í Húsavík nálægt Loðmundarfjarðarvegi við rætur Skælings.

Perlusteinsnámur
Ytri- og Innri Álftavíkur eru í raun bara slakkar í fjallinu sunnan Húsavíkur og snúa að Seyðisfjarðarflóa. Búið var í Ytri-Álftavík a.m.k. frá 1829 til 1904 er hún fór í eyði. Forsenda búsetu þar var Lotna, einstök höfn frá náttúrunnar hendi, með þröngri innsiglingu sem gerði aðstæður þar lífvænlegar. Gönguleiðin, (ekki stikuð), er nokkuð erfið, um brött og þröng fjallaskörð og brattar hlíðar.

Loðmundarfjörður var færður undir Borgarfjarðarhrepp 1. janúar 1973. Í byrjun 20. aldar voru þar 87 íbúar á 10 bæjum. Upp úr 1940 fór þeim að fækka og 1973 flutti síðasti ábúandinn úr firðinum.
 
Í Loðmundarfirði er mikið framhlaup sem kallast Loðmundarskriður eða Stakkahlíðarhraun. Talið er að það sé komið ofan frá Bungufelli og Flatafjalli og hafi fallið fram dalinn. Efst í því finnast miklar perlusteinsnámur sem rannsakaðar voru nokkuð á 7. áratugnum með nýtingu í huga en það var ekki talið arðvænlegt.

Kirkja frá 1895 er að Klyppsstað. Þar sat síðast prestur 1888.

Á Sævarenda er talsvert æðarvarp og er búið þar fyrri part sumars við nitjun þess.

Í Stakkahlíð var um árabil starfrækt ferðaþjónusta en hefur nú verið lögð niður og jörðin seld. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur uppi áform um að byggja skála í Loðmundarfirði árið 2009. Nokkuð undirlendi í firðinum og auðvelt er að eyða þar heilum degi við að skoða sig um því fjörðurinn býr yfir einstakri náttúrufegurð og kyrrð sem gott er að njóta. Góður jeppavegur er til Loðmundarfjarðar. Ekki er þó rétt að treysta á að hann sé orðinn fær fyrr en í byrjun júlí en það fer þó eftir snjóalögum. Stikaðar leiðir frá Loðmundarfirði eru um Kækjuskörð til Borgarfjarðar, Nesháls til Húsavíkur og Hjálmárdalsheiði til Seyðisfjarðar. Nokkrar aðrar leiðir eru þekktar m.a. um Bárðarstaðadal til Héraðs eða Seyðisfjarðar, Árnastaðaskörð og með sjó um Jökul til Seyðisfjarðar. Þar er farið um einstigi og varhugavert nema fyrir vana göngumenn og rétt að hafa samband við staðkunnuga áður. Sjaldgæfar plöntur Gróðurríkið í Borgarfirði, Víkum og Loðmundarfirði ber vott um snjóþyngsli og svipar um sumt til útsveita norðanlands og á Vestfjörðum. Þar finnast víða tegundir sem eru einkennandi fyrir Austurland svo sem bergsteinbrjótur, bláklukka, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og sjöstjarna svo og tegundir fágætar á landsvísu eins og bláklukkulyng, eggtvíblaðka, gullkollur, súrsmæra, ljósalyng og lyngbúi. Einnig má nefna sjaldgæfa burkna eins og skollakamb og þúsundblaðarós. Alls munu vaxa á svæðinu hátt á þriðja hundrað tegundir blómplantna.

Borgarfjörður eystri er þekktur fyrir álfa- og vættatrú og fjölmargir staðir í sveitinni tengjast þeim.

Álfadrottning Íslands býr í Álfaborginni, klettaborg nærri þorpinu og fjölmargar álfa- og huldufólkssögur tengjast henni; stúlkur sem giftust íbúum þar og ýmis önnur samskipti mennskra við íbúa borgarinnar. Í Kækjudal innst í sveitinni er álfakirkja en í sögunum er m.a. sagt frá ferðum álfa á leið í kirkjuna og einnig frá giftingum mennskra stúlkna og huldudrengja þar. Bæirnir Hvoll og Jökulsá tengjast mjög álfa- og vættasögum og í Hvolshrauni / Lobbuhrauni búa álfar og ýmsar aðrar verur.

Í Sólarfjalli í Breiðuvík býr álfasýslumaðurinn, í Blábjörgum sunnan Herjólfsvíkur býr álfabiskupinn, í Kolli í Kollutungum býr lítill dvergur og álfkonan Snotra bjó á Snotrunesi.

Þeir eru margir Álfasteinarnir, m.a. rétt innan við Klyppsstað í Loðmundarfirði, á Glettingsnesi og einnig í Eiríksdal neðan Stórurðar.

Í Staðarfjalli bjó um tíma tröllkonan Gellivör. Ekki er vitað um uppruna hennar en sumar sagnir telja hana vera Glettu er bjó í Glettingi áður. Gletta átti systur sem Gríður hét en hún bjó í helli í Gríðarnesi sunnan Breiðuvíkur. Gellivör hraktist frá Borgarfirði eftir að hafa mistekist að ná mannakjöti í jólamat handa barni sínu og er talið að hún hafi flutt sig um set til Mjóafjarðar.

Skrýmslið Naddi
Naddi var óvættur í dýrslíki að neðan en mannslíki að ofan. Hann bjó í helli í Njarðvíkurskriðum og grandaði þar fólki er leið átti um skriðurnar eftir að skyggja tók. Var hann hrakinn í sjó fram af borgfirsku hraustmenni sem setti síðar upp kross í skriðunum „fyrir Guðs vernd á sér”. Stendur krossinn enn og var síðast endurnýjaður árið 1954. Á honum er áletrun á latínu sem þýdd hefur verið á þessa leið í bundnu máli: Þú sem að framhjá fer fram fall í þessum reit. Og Kristí ímynd hér auðmjúkur lotning veit. Anno MCCCVI (1306)

Þá má að lokum nefna hina frægu sögu „Móðir mín í kví, kví” en hún gerist í Loðmundarfirði. Sjá má nokkrar þessara sagna og fleiri á  www.borgarfjordureystri.is

viknaslodirGönguleiðir
Á Víknaslóðum eru mjög fjölbreyttar gönguleiðir. Vinsælt er að fara í 3ja-5 daga gönguferðir og gista á Borgarfirði eða í skálunum í Húsavík og Breiðuvík. Ef fólk vill skoða svæðið vel mælum við með því að skipta því niður í tvær 5 daga gönguferðir, norðursvæði sem nær suður til Breiðuvíkur og suðursvæði frá Húsavík til Loðmundarfjarðar.

Hér eru grófar tillögur að ferðatilhögun, en við mælum með því að þið fáið aðstoð hjá staðkunnugum því á þann hátt fáið þið mun meira út úr ferðinni. Heimamenn hafa aðstoðað við skipulagningu ferða og leiðsögn undanfarin ár og byggja orðið á góðri reynslu.

Brunavik ruins view1

Brunavík

Eftirfarandi tillögum mælum við með sem fimm daga ferð:

Ferð 1. Norðursvæði, gist á Borgarfirði fjórar nætur og tvær í Breiðuvík. 1. Gengið í Stapavík og til Njarðvíkur. 2. Um Brúnavík til Breiðuvíkur. 3. Á Gletting og í Kjólsvík. 4. Um Víknaheiði til Borgarfjarðar. 5. Gengið í Stórurð.

Ferð 2. Suðursvæði. Gist í tvær nætur, á hverjum stað, Borgarfirði, Húsavík og Loðmundarfirði. 1. Gengið til Húsavíkur. 2. Á Álftavík. 3. Til Loðmundarfjarðar. 4. Í Loðmundarfirði. 5. Um Kækjuskörð til Borgarfjarðar. Ferðina mætti líka enda eða byrja á Seyðisfirði.

Ferð 3. Allt svæðið. Gist í þrjár nætur á Borgarfirði og eina í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. 1. Í Stórurð. 2. Til Breiðuvíkur. 3. Til Húsavíkur. 4. Til Loðmundarfjarðar. 5. Til Borgarfjarðar.

Í ferð 3 verða útundan margir áhugaverðir staðir eins og Stapavík, Kjólsvík, Glettingur og Álftavík en samt er farið um allt svæðið.

Víknaslóðir er af mörgum talið eitt best skipulagða göngusvæði landsins með mjög fjölbreyttum vel merktum gönguleiðum. Æskilegt er að hefja hvern göngudag snemma og tilvalið að enda ferð saman yfir góðri máltíð. Við bendum því á gistingu á Borgarfirði bæði nóttina fyrir og nóttina eftir gönguferðina. Gisting í tveim gönguskálum á Víkum. Góð tjaldstæði með sturtuaðstöðu og rafmagni eru á Borgarfirði og tjaldstæði eru við skálana á Víkum.Við minnum á alla þá þjónustu sem fæst á svæðinu svo sem leiðsögn í styttri og lengri ferðir og aðstoð við skipulagningu gönguferða.

Göngufólki er boðið upp á kjarngóðan morgunmat og nesti til dagsins. Fjarðarborg framreiðir þjóðlegan kjarngóðan mat og þaðan má fá sendan heitan mat og nesti í skálana.

Áætlunarferðir eru í Egilsstaði virka daga og ferðir suður á Víkur með fólk eða farangur eftir pöntun. Matvöruverslun KHB er með allar nauðsynjavörur og þar er bensínsjálfsali.

Fjölmargt er hægt að gera sér til afþreyingar á Borgarfirði annað en að ganga og við hvetjum ykkur til að kynna ykkur það nánar. M.a. eru tónleikar í Bræðslunni síðustu helgina í júlí, fjölskylduhátíðin Álfaborgarsjens um verslunarmannahelgina, fuglaskoðun, Kjarvalsstofa með ýmsar sýningar og afþreyingu en á www.borgarfjordureystri.is, er gagnlegur fróðleikur um svæðið.
 
VELKOMIN Á VÍKNASLÓÐIR
Ferðamálahópurinn, Borgarfirði eystri www.borgarfjordureystri.is  Helgi Arngrímson