Kristjan Gudmundsson

Kristjan Gudmundsson

 

Leidin ad Glym

Leiðin að Glym.

Vesturland

Náttúran og sagan

Líkja má Vesturlandi við ævintýraheim þar sem allir finna sér eitthvað við hæfi. Af nægu er að taka og mun Kristján Guðmundsson hjá Markaðsstofu Vesturlands leiða okkur um svæðið. Ferðalagið hefst á Akranesi en þar eru tveir vitar og er annar þeirra opinn í sumar frá 13-16. Þeir sem gaman hafa af göngu ættu að skella sér upp á Akrafjall.

Í Hvalfirði er gaman að ganga upp að Glym, sem er hæsti foss landsins, og koma svo við í litla Hvalasafninu í Ferstiklu. Sögubærinn Borgarnes hefur upp á að bjóða þrjú söfn í gamla hluta bæjarins. Í safnahúsi Borgarfjarðar er fuglasýning auk sýningarinnar Börn í 100 ár. Landnámssetrið býður upp á sýningu um landnámið og Egilssögu. Sýning um „níu heima goðafræðinnar“ er í Edduveröld. Þá er skemmtilegur sveitamarkaður í Borgarnesi sem kallast Ljómalind.

„Ég kemst ekki hjá því að segja frá Hvanneyri, heimabæ mínum, en þar eru tvö skemmtileg söfn, Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið. Svo er þar skemmtilegt kaffihús í elsta húsi bæjarins“, segir Kristján.

Deildartunguhver, vatnsmesti hver í Evrópu, er í Reykholtsdal og alltaf er gaman að koma við á Hraunfossum. Þaðan er stutt í Húsafell þar sem allir finna sér eitthvað við hæfi hvort sem það er að skoða listaverkin hans Páls eða skella sér í sund. Einnig er hægt að fara í hellaskoðun í hellinum Víðgelmi.

Geitfjársetur Íslands er á Háafelli í Hvítársíðu. Þar er hægt að faðma geitur og kaupa  geitaafurðir. Svo er svæðið í kringum Bifröst skemmtilegt til útivistar, m.a. er hægt að ganga upp á Grábrók, að fossinum Glanna og að Paradísarlaut. Á leiðinni út á Snæfellsnes er gaman að koma við á Eldborg, í Gerðubergi og í Ölkeldu. Í fjörunni við Ytri-Tungu liggja oft selir sem gaman er að heilsa upp á.
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull  er heill heimur út af fyrir sig sem allir ættu kynna sér. Þar er meðal annars Vatnshellir sem hægt er að fara í allt árið með leiðsögn.
Frystiklefinn er Leikhús sem staðsett er á Rifi en þar ræður Kári Viðarsson ríkjum og flytur þar sögu Bárðar Snæfellsáss. „Nauðsynlegt er að ná mynd af Kirkjufelli við Grundarfjörð, mest myndaða fjalli landsins.“

kirkjufellsfoss-sumarid-2013-80-edit

Kirkjufellsfoss

Á Snæfellsnesi er gaman að fara í siglingu með t.d  Láki Tours, Sæferðum eða Iceland Ocean Tours. Í þessum ferðum kynnist fólk náttúru og sögu Breiðafjarðar á einstakan hátt. Stykkishólmur er einn fallegasti bær landsins. Þar eru m.a. þrjú skemmtileg söfn, Norska húsið, Vatnasafnið og Eldfjallasafnið.

Rjómabúið Erpsstaðir er í Dölunum þar sem má kaupa skyrkonfekt og ís ásamt fleiru sem búið er til á staðnum. Eiríksstaðir eru þar sem Leifur Eiríksson fæddist og þar er búið að endurbyggja bæ Eiríks rauða. Ein flottasta náttúrulaug landsins er Guðrúnarlaug á Laugum í Sælingsdal.

–    S.J.

Callout box: Deildartunguhver, vatnsmesti hver í Evrópu, er í Reykholtsdal