Við Rauðanúp
Í svartasta skammdeginu hugsar maður til baka, til bjartra nátta. Hvert ætlar maður næsta sumar? Það fyrsta sem kom upp í hugan er Rauðinúpur, nyrst og vestast á Melrakkasléttunni, nyrsta hluta Íslands. Þangað kem ég ár hvert, stundum oft, því hvergi er sumarfallegra en þarna norður á hjara veraldar. Birtan, fuglalífið, nándin við náttúruna. Núna er þarna dimmt, kalt og maður skilur ekki, hvernig forfeður okkar lifðu af langan vetur þarna norðurfrá. En á Melrakkasléttunni, sem er nú að mestu farin í eyði, bjuggu fyrir hundrað árum, hundruðir manna, sem átti vel í sig og á, enda gott land fyrir sauðfé. Stutt á miðin á árabát, silungur í vötnum og tjörnum, og eggjataka, frá þúsundum sjófugla sem verpa á sléttunni, gerði það að verkum að fólk hafði það bærilegt, á þess tíma mælikvarða.

Melrakkaslétta, Rauðinúpur rís úr hafi, horft í norð austur frá Tjörnesi.

Grjótnes um miðnætti í byrjun júní. Rauðinúpur rís upp lengst til hægri. Sumir segja að þetta sé fallegasta bæjarstæði í lýðveldinu.

Fjaran við Núpskötlu, Rauðinúpur til vinstri

Ferðamenn að leggja af stað á Rauðanúp við Kötluvatn

Súla á flugi um miðnætti í júní við Karl á Rauðanúp

Horft í norður yfir Leirhöfn, að Rauðanúp klukkan 23:57, þann 23. júní í ár.

Fimm kindur fyrir framan Jón Trausta og Karl, klettana tvo sem standa vörð norður af Rauðanúp á Melrakkasléttu.
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson
Melrakkaslétta 2018/2022 : A7RIV, A7R III, RX1R II : FE 1.8/14mm GM , FE 1.8/135m GM, 2.0/35mm Z