Viltu láta hella upp í þig lýsi eða fyllast af fróðleik í safnheimsókn?

Borgarsögusafn Reykjavíkur: Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey

skólaárið 2017-2018

Viltu láta hella upp í þig lýsi eða fyllast af fróðleik í safnheimsókn?

Út er kominn sextán síðna fræðslubæklingur Borgarsögusafns með fjölbreyttum og áhugaverðum tilboðum. Á forsíðunni er mynd af kennara að hella lýsi upp í nemanda í Laugarnesskóla árið 1951.

Nám á sér stað alltaf, alls staðar, ekki einungis í formlega skólakerfinu. Öll söfn, sama hvert viðfangsefni þeirra er, eru óformlegur námsvettvangur sem hægt er að nýta á margbreytilegan máta í vettvangsferðum hópa. Það er heilt fag sem tengist þessum þætti safnastarfs og nefnist það safnfræðsla. (e. museum education / museum learnning)

 

Borgarsögusafn Reykjavíkur er spennandi menningarminjasafn á fimm frábærum stöðum víðsvegar um borgina sem sinnir fjórum skólastigum: 1 safn – 5 staðir – 4 skólastig. Árbæjarsafn er sveitasæla í miðri borg; Landnámssýningin fjallar um fyrsta fólkið á Íslandi; Ljósmyndasafn Reykjavíkur setur myndlæsi í fókus; Sjóminjasafnið í Reykjavík er hafsjór af fróðleik og í Viðey sameinast list, náttúra og saga. Forsíðumyndin á fræðslubæklingi safnsins er hluti af safneign og sýnir gamla hefð – lýsisgjöf í skólum — sem hætt var í kringum 1970 þegar lýsispillur komu til sögunnar.

Fræðsluteymi Borgarsögusafns býður upp á vandaða safnfræðslu fyrir nemendur á öllum skólastigum t.d. eru 18 tilboð fyrir grunnskóla, 9 fyrir leikskóla og 7 frístundatilboð. Við mælum eindregið með því að safnheimsóknir séu nýttar sem hluti af námi allt árið um kring. Þannig skapast margbreytileg tækifæri til að læra á virkan og skapandi hátt. Við tökum einnig á móti hópum í frístundastarfi og ýmiskonar sérhópum eins og eldri borgurum, fólki sem er að byggja sig upp eftir veikindi eða hópar frá Rauða krossinum, sumsé alls konar fólki á öllum aldri – frá 5 til 95 ára.

Við vinnum eftir fræðslustefnu þar sem þátttaka, sköpun og aðgengi fyrir alla er haft að leiðarljósi. Safnfræðsla fyrir skóla- og frístundahópa á öllum aldri er án endurgjalds. Einnig er boðið upp á ókeypis rútuferðir fyrir leik- og grunnskóla Reykjavíkur sem afmarkast við ákveðin tilboð og er liður í að gera menningaruppeldi aðgengilegra í borginni.

Borgarsögusafn Reykjavíkur: eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Borgarsögusafn Reykjavíkur
Tengiliður: AlmaDís Kristinsdóttir s: 4116351 / 6647370
[email protected]

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0