Sóley og Between Mountains á sérstökum KÍTÓN tónleikum á KEX

Fríkeypis tónleikar á laugardaginn klukkan 21:00

Sóley og Between Mountains munu troða upp á tónleikum KÍTÓN á KEX næstkomandi laugardagskvöld.

Sóley Stefánsdóttir er ein af okkar fremstu tónlistarkonum, en hún á sér stóran aðdáendahóp um allan heim. Sóley gaf í vor út sína þriðju sólóplötu, Endless Summer, fyrr á árinu og hefur fengið lofsamlega dóma bæði hér heima og erlendis.

Between Mountains eru sigurvegarar Músíktilrauna í ár og samanstendur sveitin af þeim Kötlu Vigdísi og Ásrós Helgu. Þær fengu báðar mikið tónlistaruppeldi á milli fjalla á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Núpi við Dýrafjörð og á Suðureyri í Súgandafirði.

KEX Hostel hefur frá opnun 2011 lagt mikla áherslu á lifandi tónlist og hefur fjöldi íslenskra og erlendra tónlistarmanna komið fram á KEX. KEX og KÍTÓN hafa með óreglulegu milli haldið tónleika í sameiningu og árið 2016 einkenndist mikið af tónleikum undir hatti KÍTÓN.

KÍTÓN stendur fyrir konur í tónlist og er tilgangur félagsins að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist. Þeim tilgangi er náð með auknum sýnileika, viðburðum og stöðugu samtali við tónlistarkonur á Íslandi. Með tilstuðlan KÍTÓN er umræðan um stöðu kvenkyns laga- og textahöfunda jafnt sem flytjenda orðin fyrirferðameiri en hún hefur verið undanfarna áratugi. Félagið fer þvert á allar tónlistarstefnur, strauma, bakgrunn, menntun og jafnvel má sjá konur í félaginu sem starfa við tónlist sem umboðsmenn eða hafa atbeini eða starfa af tónlistargeiranum. Félagið fer ört stækkandi og eru nú um 300 félagskonur skráðar.

Tónleikarnir eru í bókahorninu á KEX Hostel á laugardaginn 2. desemeber og hefjast þeir klukkan 21:00. Frítt er inn og tónleikarnir opnir öllum á meðan húsrúm leyfir.