200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar
Sóminn, sverðið og skjöldurinn
17. júní s.l. voru 200 ár liðin síðan Jón Sigurðsson kom í heiminn á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ýmislegt er gert til að minnast hans, bæði á Íslandi og í Danmörku þar sem hann bjó lengi.
Hjónunum Þórdísi Jónsdóttur og Sigurði Jónssyni presti fæddist sonur 17. júní árið 1811. Hann var elstur í systkinahópnum; yngri voru þau Jens og Margrét.  Sveinninn ungi ólst upp í nágrenni fagurra fjalla og grösugra hlíða. Faðir hans, presturinn að Hrafnseyri, kenndi honum heima og að verða 18 ára fór Jón til Reykjavíkur og tók þar stúdentspróf. Jón stundaði um tíma verslunarstörf hjá föðurbróður sínum, Einar Jónssyni faktor. Jón og Ingibjörg, dóttir Einars, felldu hugi saman en hún varð síðar kona hans.

JLong 17_juni_2011 002Jón gerðist vorið 1830 skrifari hjá Steingrími Jónssyni biskupi í Laugarnesi og var þar í vist í þrjú ár. Sagt er að á þessum tíma hafi aukist áhugi Jóns á íslenskum fræðum og öllu því sem íslenskt var. Hann hafði aðgang að stóru bókasafni hjá biskupi og mesta safni íslenskra handrita og skjala sem þá var til á Íslandi.
Næst lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem Jón hóf nám í málfræði og sögu við háskólann þar í borg en hann lauk ekki embættisprófi. Fljótlega eftir að hann kom til borgarinnar við Eyrarsund fór hann að sinna ýmsum aukastörfum en vegna hæfileika sinna þótti Jón eftirsóttur til starfa. Hann fékk á þessum tíma aukinn áhuga á íslenskum þjóðmálum. Jón starfaði lengi við Árnasafn í Kaupmannahöfn þar sem íslensku handritin voru geymd en Jón varð með tímanum helsti sérfræðingur í íslenskum handritum á 19. öld. Jón vann auk þess mikið fyrir ýmsa aðila á sviði íslenskra fræða. Hann hafði þó ekki að föstu starfi að hverfa.
Jón bjó í Kaupmannahöfn frá 1833 til 1845 en hann fór ekki til Íslands á þessum tíma. Unnustan beið á Íslandi.

Minningarsteinn, Dynjandi i baksyn„Vér mótmælum allir“
Jón var þrítugur þegar hann tók sæti á endurreistu Alþingi og var hann þingmaður frá 1845 til dauðadags 1879. Þing kom saman annað hvert ár og stóð í sex vikur og dvaldi Jón þá á Íslandi. Hann var lengstum forseti þingsins og lykilmaður í sjálfstæðis-baráttu Íslendinga hvort sem  hann dvaldi á Íslandi eða í Danmörku. Skoðanir hans mótuðu þingið fyrstu árin en hann var 10 sinnum kjörinn forseti þingsins.
Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848 og þá birti Jón hugvekju til Íslendinga sem var stefnuskrá hans í sjálfstæðisbaráttunni sem flestir landsmenn fylgdu undir forystu hans. Danska stjórnin boðaði til þjóðfundar þremur árum síðar þar sem hún lagið fram frumvarp þess efnis að þjóðréttindi Íslendinga voru að engu höfð. Íslensku fulltrúarnir lögð fram annað frumvarp undir forystu Jóns. Trampe greifa, fulltrúa konungs leist ekki vel á það og sleit fundinum. Þá hljómaði setningin: „Vér mótmælum allir.“
Jón tók forystu fyrir landsmönnum í baráttunni fyrir auknum stjórnar-farslegum réttindum og hélt henni til æviloka.

Prestasaeti i brekkunni fyrir ofan HrafnseyriÞýðingarmikið starf
Jón var kosinn forseti Hafnardeildar Bókmenntafélagsins að honum forspurðum en þá var hann um borð í skipi á hafi úti. Hann gegndi starfinu til æviloka og fékk af því viðurnefnið forseti.
Jón benti á að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis og að ein-okunarverslunin hefði haft slæm áhrif á þjóðina. Vegna forystu hans var verslun gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.
Jón var væntanlega án nokkurs efa ólaunaður sendiherra Íslendinga í Kaupmannahöfn og segja má að hann hafi haldið úti viðskiptaskrifstofu fyrir landa sína á eigin kostnað. Íslendingar í borginni leituðu til hans með ýmiss konar mál og aðstoðaði hann þá með glöðu geði.  Danir afhentu Íslendingum sérstaka stjórnarskrá á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 en þá fékk Alþingi löggjafarvald með konungi og fjárforræði. Jón sagði við landa sína að hér væri fengin „trappa til að standa á“. Baráttan var þó ekki til lykta leidd en stjórnarskráin markaði þáttaskil í sjálfstæðisbaráttunni. Menn gerður sér vafalaust betur grein fyrir því hve starf Jóns hafði verið þýðingarmikið. Íslendingar fengu takmarkaða sjálfstjórn árið 1874 en Ísland var viðurkennt fullvalda ríki í konungs-samandi við Danmörku 1. desember 1918.

tingeyri vid DyrafjordHrafnseyri og Jónshús
Safn tileinkað ævi Jóns Sigurðsonar er á fæðingarstað hans, Hrafnseyri við Arnarfjörð. Sýningin „Líf í þágu þjóðar“ var opnuð á 200 ára afmælisdegi hans, 17. júní, og er lögð áhersla á líf hans og starf; einkahagi hans, vísindastörf og stjórnmálaþátttöku. Nýtt og vandað margmiðlunarefni var tekið í notkun á sýningunni. Þá hafa húsakynnin verið endurbætt.  Jón og Ingibjörg bjuggu lengst af við Øster Voldgade 12 í Kaupmannahöfn og eru húsakynnin kölluð Jónshús. Þangað leituðu margir Íslendingar á meðan hjónin voru á lífi en nú eru þar minningarstofur tileinkaðar ævi og störfum Jóns. Afhöfn var haldin á vegum Alþingis í Jónshúsi 19. júní og við það tilefni var Jónshúsi fært vandað margmiðlunarefni og nýr bæklingur kynntur: „Á slóðum Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn – leiðarvísir með þremur göngutúrum.“ Í Þjóðmenningarhúsinu stendur yfir sýningin „Óskabarn – æskan og Jón Sigurðsson“, í mars var sýning á vegum Seðlabanka og Þjóðminjasafns á m.a. seðlum, mynt og frímerkjum með mynd af Jóni. Í apríl var opnuð handritasýningin Lífsverk í Þjóðarbókhlöðunni, í júníbyrjun voru opnaðar sýningar byggðar á kveri Jóns, „Lítil fiskibók“ í sjóminjasöfnunum í Reykjavík og á Ísafirði. Í Þjóðminjasafni Íslands má finna ýmsa gripi úr eigu hjónanna Jóns og Ingibjargar auk þess sem þar er margmiðlunarskjár þar sem rakinn er lífsferill Jóns og sagt frá ævistarfi hans.Hrafnseyri sed af sjo

Fleiri atburðir hafa verið og munu verða á árinu til að minnast Jóns. Jón Sigurðsson lést í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 en Ingibjörg lést níu dögum síðar. Hjónin hvíla í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Íslendingar í Kaupmannahöfn settu silfursveig á kistu Jóns og þar segir: „Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.“
Blessuð sé minning Jóns Sigurðssonar.

Hrafnseyri

Hrafnseyri • 471 Þingeyri
456 8260
[email protected]
www.hrafnseyri.is