Kjarvalsstaðir – laugardag 14. nóv. kl. 15–17
Efnt verður til málstofu á Kjarvalsstöðum laugardaginn 14. nóvember kl. 15 í tilefni sýningarinnar Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar sem þar stendur yfir. Í pallborði verða þrír listamenn sýningarinnar, þær Brynhildur Þorgeirsdóttir, Erla Þórarinsdóttir og Harpa Björnsdóttir, ásamt G.ERLU (Guðrún Erla Geirsdóttir) sem var í sýningarnefnd Hér og nú á Kjarvalstöðum árið 1985 og gegndi jafnframt stöðu framkvæmdastjóra Listahátíðar kvenna sama ár. Anna Jóa sýningarstjóri Kvennatíma leiðir umræður.
G.erla (Guðrún Erla Geirsdóttir), Brynhildur Þorgeirsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Harpa Björnsdóttir ásamt Guerilla Girl (fyrir miðju)
Á málstofunni miðla pallborðsþátttakendur af drjúgri reynslu sinni af listheiminum. Þess má geta að árið 1994 gerðu sömu konur úttekt á kynjaslagsíðunni í íslenskum listheimi í tengslum við sýningu á plakötum Guerilla Girls í Nýlistasafninu. Ýmislegt hefur áunnist síðan en ljóst er að enn er langt í land hvað snertir jafnræði kynjanna í listheiminum.
Hugmyndin að baki sýningunni Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar var að kalla aftur saman þær konur sem sýndu saman undir heitinu Hér og nú á Kjarvalsstöðum haustið 1985. Við undirbúning nýju sýningarinnar vöknuðu spurningar á borð við þá hvort kyn listamannanna hefði með einhverjum hætti mótað feril þeirra og verið í þeim skilningi kvennatími. Hvers vegna er ennþá þörf á sérstökum „kvennasýningum“?
Sýningin Hér og nú var einn umfangsmesti viðburður Listahátíðar kvenna 1985, en efnt var til hennar vegna loka kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur hátíðarinnar var að gera framlag kvenna á sviði lista- og menningar sýnilegt. Tilefni nýju sýningarinnar er einnig hátíð sem tengist konum því að á þessu ári er haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hér á landi. Sýningin stendur til 29. nóvember 2015.