Gallerí Fold – Þegar enginn sér til

Rebekka Kühnis – Þegar enginn sér til
30. september – 14. október 2023

Gallerí Fold kynnir einkasýningu myndlistarkonunnar Rebekku Kühnis “When not looking – Þegar enginn sér til”

Rebekka Kühnis (f. 1976) ólst upp í Windisch í Sviss. Hún stundaði nám við Hochschule der Künste í Bern, þaðan sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist og kennslufræði. Hún hefur síðan starfað sem listamaður og kennari.

Í kringum tvítugt lá leið hennar til Íslands þar sem hún vann tvö sumur í bændagistingu á Suðvesturlandi. Hún fann strax fyrir sterkum tengslum við landið og leið eins og hún væri komin heim. Það liðu hins vegar næstum tuttugu ár þar til hún snéri aftur til Íslands, í þetta skiptið til að skoða landið fótgangandi með tjaldið á bakinu en hún ferðaðist um í nokkra mánuði. Hughrifin og tilfinningarnar sem hún upplifði á ferðum sínum rötuðu smám saman inn í list hennar og loks var íslenskt landslag orðið hennar helsta viðfangsefni.

Árið 2015 ákvað Rebekka að flytja til Íslands, hefur búið hér síðan og komið sér vel fyir þar sem hún býr og starfar í grennd við Akureyri. Fyrstu íslensku landslagsmyndirnar hennar voru kúlupennateikningar og verk unnin með blandaðri tækni. Síðar sneri hún sér að stærri verkum og sýnir nú fyrst og fremst af olíumálverk.

„Ég hef alla tíð haft listræna þörf fyrir að leysa upp umhverfi mitt, eða í það minnsta að umbreyta því í eitthvað léttara og óljósara. Á Íslandi upplifði ég ósnortna náttúru sem er ekki eins afmörkuð og skipulögð og náttúrunni í heimalandi mínu. Mér fannst allt í kringum mig vera lifandi og í stöðugu breytingarferli – og ég þar með talin.

Sífelldar veðrabreytingar og birtan gætu haft áhrif þarna á. En að baki er einnig grundvallar meðvitund um stöðuga breytingu alls, út frá sjónarhóli alheimsins. Mér hugnast léttleikinn í þessari hugsun.

Í tengslum við Ísland þá lýsir þessu enginn betur en Roni Horn í þessum orðum:

„Í bókstaflegri merkingu er Ísland ekki stöðugur staður. Ísland er alltaf að verða það sem það verður og það er ekki neitt fyrirfram ákveðið. Þannig að Ísland er hér: gjörð, ekki hlutur, sögn, aldrei nafnorð.“

Í málverkum mínum og teikningum leikur þessi upplifun stór hlutverk. Línur, lagskipting, gegnsæi, hreyfing og leikurinn að þyngdaraflinu eru þannig persónuleg leið til tjáningar.“

“When not looking – Þegar enginn sér til” er fyrsta einkasýning Rebekku í Gallerí Fold.

Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 10 – 18 og laugardaga 10 – 16.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0