Enginn staður – íslenskt landslag

DanielReuter-untitled-2013Til vinstri: Stuart Richardson, Segmented landscape no. 9, 2013. Hægri: Daniel Reuter, án titils, 2013.
Laugardaginn 13. júní kl. 15 verður opnuð sýningin Enginn staður – íslenskt landslag í aðalsal Hafnarborgar með verkum átta samtímaljósmyndara sem allir eru búsettir á Íslandi og beina sjónum sínum að íslenskri náttúru.

Þau eru Björn Árnason, Claudia Hausfeld, Daniel Reuter, Edda Fransiska Kjarval, Ingvar Högni Ragnarsson, Katrín Elvarsdóttir, Pétur Thomsen og Stuart Richardson og eiga það öll sameiginlegt að nota ljósmyndina sem miðil. Sýningarstjórar eru Áslaug Íris Friðjónsdóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Verk á sýningunni Enginn staður endurspegla innra og ytra landslag. Listamennirnir horfa á náttúruna hver með sínum augum og verkin kalla fram hjá hverjum og einum meðvitund um staði sem koma kunnuglega fyrir sjónir. Þetta er landslagið sem er okkur öllum svo kunnugt, myndin sem við sjáum þegar við lítum út um bílglugga á ferð okkar um landið, staðirnir sem bera engin nöfn, umhverfið sem við sjáum á milli merkilegu áfangastaðanna.

Náttúra og landslag hafa löngum verið umfjöllunarefni listamanna. Meðvitað eða ómeðvitað hefur landið verið upphafið með því að beina sjónum að stórbrotnu og nánast háleitu landslagi þar sem þekkt kennileiti og sögufrægir staðir eru áberandi. Hvað þetta varðar er ljósmyndin engin undatekning og undanfarin ár hefur sá miðill gengt mikilvægu hlutverki við ímyndasköpun landsins einkum þegar litið er til ferðaþjónustu. Hvarvetna sjáum við landslagsmyndir af leiftrandi norðurljósum, stórbrotnum jöklum, spegilsléttum vötnum og litríkum fjöllum.

Á sýningunni Enginn staður er horft til verka listamanna sem líta landið öðum augum og leitast við að fanga fegurðina í þeim augnablikum sem við veitum oft ekki eftirtekt.

Nánari upplýsingar má nálgast hjá:
Áslaugu Írisi Friðjónsdóttur, upplýsingafulltrúi og sýningarstjóri, s. 585 5790
og á heimasíðu Hafnarborgar: www.hafnarborg.is

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0