,,Tröllaskaginn er einstakt landsvæði“

,,Tröllaskaginn er einstakt landsvæði sem vekur vaxandi áhuga almennings á skemmtilegri útivist“
–    segir Bjarni Th. Bjarnason, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar

Bjarni Th. Bjarnason, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, með Svarfaðardalinn í baksýn.

IMG_0646
Mikill jarðskjálfti reið yfir Dalvík 2. júní 1934 sem talinn er hafa verið 6,3 stig á Richter og átti hann upptök sín skammt undan landi við Dalvík. Þessum atburði eru gerð skil fyrir ferðamenn m.a. með þessu tjaldi sem stendur á túninu við byggðasafnið Hvol. Það er frá sama tíma og inniheldur muni sem tjaldbúar notuðu. Sýning er í byggðasafninu Hvoli.

 

,,Fólk getur starfað nánast hvar sem er með hjálp internetsins, en til þess að fólk geti og vilji starfa á stað eins og Dalvík þarf að vera gott netsamband  sem því miður er alls ekki nógu gott á Dalvík. Ljósleiðaratenging verður  æ nauðsynlegri, hún er framtíðin, ekki bara fyrir almenning heldur einnig atvinnulífið á staðnum og þá ekki síst ferðaþjónustuna og nýsköpun sem skapar vel launuð störf. Starfsmenn fyrirtækja, námsfólk og fleiri þurfa að vinna inni á ýmsum heimasíðum, setja upp alls konar form og oft eru þetta þungar síður og skýrslur sem um ræðir. Góð tenging er líka nauðsynleg í nútíma ferðaþjónustu, fólk er með tölvur í bílnum og vill hratt og öruggt netsamband. Hér er ekki þráðlaust netsamband á tjaldsvæðinu og auðvitað þarf að kippa því í lag, það er krafan í nútíma ferðaþjónustu“ segir Bjarni Th. Bjarnason, nýkjörinn bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar.
–    Fiskidagurinn mikli hefur skilað bænum ómældri auglýsingu, enda ein af stærstu útihátíðum landsins ár hvert og er mjög fjölskylduvænn. Er hugmyndin að halda þessa hátíð sjaldnar, ekki í ágústmánuði á hverju ári  eins og verið hefur?


Bjarni segir það ekki koma til greina enda sé Fiskidagurinn mikli eitt besta tækifærið sem íbúar Dalvíkurbyggðar hafa til að skapa  ímynd sína og stuðla að  öflugu sveitarfélagi sem fólk  vill heimsækja og jafnvel búa í ef til þess gefst tækifæri í atvinnulífinu. Fiskidagurinn mikli er stærsta einstaka markaðssetningin sem sveitarfélagið Dalvíkurbyggð stendur að. Fólk sem hefur komið einu sinni vill koma aftur og aftur, og gerir það, og svo er allur hinn fjöldinn sem vill koma en á eftir að láta það eftir sér. Það var skemmtileg viðbót þegar fiskisúpukvöldinu var bætt við. Ef fjöldi ferðamanna sem sækir til landsins á eftir að aukast, og það kannski einnig á Fiskideginum mikla, munu vafalaust einhverjir sjá tækifæri í því að byggja hótel á Dalvík.

 

Tröllaskaginn og hvalaskoðun
–    Þú hefur nefnt að miklir möguleikar séu fólgnir í því að byggja smávirkjanir í Svarfaðardal, næg sé vatnsorkan. Er það bara til þjónustu við landbúnaðinn eða tengist það líka aukinni ferðaþjónustu?
,,Á sínum tíma voru hér um 12 smávirkjanir vítt og breitt í byggðarlaginu en þær voru allar aflagðar, nema við bæinn Karlsá, þegar RARIK kom til sögunnar. Það væri kjörið að virkja t.d. Brimnesána og nota það rafmagn t.d. í þágu stórfyrirtækisins Promens á Dalvík sem notar gríðarlega mikið rafmagn.“


Bjarni segir hvalaskoðun hafa aukist mikið í byggðarlaginu. Frá Dalvík eru gerðir út tveir hvalaskoðunarbátar og þaðan er siglt til Grímseyjar, einnig er hvalaskoðun frá Hauganesi og frá Litla-Árskógssandi eru siglingar til Hríseyjar, perlu Eyjafjarðar. ,,Tröllaskaginn er hér næstur okkur og hann er alveg einstakt landsvæði sem hefur vakið aukinn áhuga almennings á skemmtilegri útivist, og það allan ársins hring. Það mætti auka ferðir þangað með skipulögðum gönguferðum og fram hefur komið sú hugmynd, sem ég er mjög fylgjandi, að gera stíga upp með dalnum sem bæði göngufólk og fjallahjólafólk gæti nýtt sér. Þeirri framkvæmd þyrfti að fylgja aðgengilegt kort. Ég hvet íbúa Dalvíkurbyggðar til að hafa opinn huga og frjótt ímyndunarafl, fara í hugarflæði um það sem betur má gera, ekki síst í ferðaþjónustunni. Þeir þurfa að huga að því hvað þeir geta gert sjálfir án stuðnings annars staðar frá, t.d. frá ríkisvaldinu. Vera hugrakkir og bera höfuðið hátt.“Solarfjall

 

„Helsta ógnin sem steðjar að  íbúum landsbyggðarinnar í dag er fólkið sem stjórnar Reykjavíkurborg og vill leggja af Reykjavíkurflugvöll. Reykjavíkurflugvöllur er nauðsynlegur fyrir landsbyggðarfólk sem þarf á flugsamgöngum að halda hvort sem það lýtur að sjúkraflugi, atvinnulífi, ferðaþjónustu, menntun eða öðru því sem almenningur þarf að sækja til höfuðborgarsvæðisins.  Ef borgarfulltrúar breyta ekki um kúrs þá ber stjórnvöldum skylda til að stoppa þessa vitleysu af með lagasetningu. Innanlandsflug leggst af í núverandi mynd ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður.  Það fer enginn til Keflavíkur sem á erindi á höfuðborgarsvæðið, þá er alveg eins gott að gera Reykjanesbæ að höfuðborg Íslands,“ segir Bjarni Th. Bjarnason bæjarstjóri.
–    G.G.
www.dalvikurbyggd.is
Callout box: ,, Helsta ógnin sem steðjar að  íbúum landsbyggðarinnar í dag er fólkið sem stjórnar Reykjavíkurborg og vill leggja af Reykjavíkurflugvöll. Reykjavíkurflugvöllur er nauðsynlegur fyrir landsbyggðarfólk sem þarf á flugsamgöngum að halda hvort sem það lýtur að sjúkraflugi, atvinnulífi, ferðaþjónustu, menntun eða öðru því sem almenningur þarf að sækja til höfuðborgarsvæðisins.“

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0