að andvirði 1100 milljónir króna
Íslenska líftæknifyrirtækið Prokazyme ehf og Matís, ásamt 13 erlendum háskólum, stofnunum og fyrirtækjum hafa hlotið styrk að verðmæti 8 milljónir evra (1100 milljónir íslenskra króna) úr sjóði Horizon 2020, 8. rannsóknaáætlun Evrópu, vegna rannsóknaverkefnisins VIRUS-X. Verkefnið miðar að rannsókn á erfðamengjum og genaafurðum í veirum sem finnast í náttúrulegum vistkerfum með áherslu á vistkerfi hitakærra örvera í íslenskum hverum. Samstarfsaðilarnir munu skipta með sér fjárframlaginu samkvæmt verk- og kostnaðaráætlun og er verkefnið til fjögurra ára.
Dr. Arnþór Ævarsson, framkvæmdastjóri Prokazyme ehf, mun stýra verkefninu en Matís er stærsti einstaki framkvæmdaaðilinn af þeim 15 rannsóknastofnunum víðs vegar í Evrópu sem taka þátt í verkefninu. Aðrir vísindamenn hjá íslensku fyrirtækjunum sem einnig höfðu frumkvæði að VIRUS-X rannsóknaáætluninni, eru m.a. Próf. Guðmundur Óli Hreggviðsson, Dr. Ólafur Héðinn Friðjónsson og samstarfsfólk sem hafa áratuga reynslu af rannsóknum og hagnýtingu á erfðauðlindum í hitakærum örverum í hverum. Þessar rannsóknir hafa einnig beinst að þeim veirum sem sýkja slíkar hitakærar örverur, m.a. í fyrra Evrópuverkefni í 7. rannsóknaáætlun Evrópu (EXGENOMES, FP7), sem stýrt var af Dr. Jakobi Kristjánssyni hjá Prokazyme.
Grundvallarmarkmið VIRUS-X verkefnisins er að einangra erðaefni slíkra veira beint úr náttúrulegum sýnum í þeim tilgangi að raðgreina erfðamengi þeirra, bera kennsl á áhugaverð gen og framleiða viðkomandi genaafurðir, fyrst og fremst ensím, til frekari skoðunar með lífefnafræðilegum aðferðum og ákvörðun á þrívíddarmyndbyggingu. Þannig verði miðað að því að finna og skilgreina ný og betri ensím til hagnýtingar.
Einkum er sóst eftir ensímum sem eru virk á erfðaefni og aðrar kjarnsýrur svo sem DNA og RNA og nýtast sem verkfæri þeirra aðila sem eru að vinna við raðgreiningu og annarri vinnu með erfðaefni á þúsundum rannsóknastofa um allan heim. Í VIRUS-X verkefninu verður einnig leitast við að skoða samspil örvera og veira í náttúrunni og fá betri skilning á viðkomandi vistkerfum svo sem á jarðhitasvæðum á landgrunni Noregs og í hverum á völdum jarðhitasvæðum á Íslandi.