Listamannsspjall – Sunnudagur 12. mars kl. 14
Sunnudaginn 12. mars kl. 14 verður Sigga Björg Sigurðardóttir með listamannsspjall þar sem hún ræðir við gesti um sýninguna Rósa, sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar.
Sigga Björg vinnur með myndheim sem fjallar um veruna Rósu. Sýningin er innsetning sem samanstendur af teikningum, skúlptúrum og myndbandsverki með hljóðmynd. Rósa er af óljósri tegund – hvorki manneskja né dýr, en glímir þó við mennskar tilfinningar og aðstæður. Í salnum getur að líta aðrar verur sem tengjast Rósu á einn eða annan hátt. Við skynjum trega Rósu og örvæntingu um leið og við sjáum hana þroskast og bókstaflega móta sjálfa sig. Teikningar Siggu Bjargar í rýminu eru bæði unnar fyrirfram en einnig skapaðar á staðnum og leggur listakonan áherslu á að tengja saman heim myndbandsins, teikninganna og rýmisins og skapa úr því heild.
Sigga Björg Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 1977, hún útskrifaðist frá LHÍ 2001 og lauk síðan MFA gráðu í myndlist frá Glasgow School of Art 2004. Sigga Björg hefur sýnt ein og í samstarfi við aðra víða um heim og verk hennar eru í eigu safna hér á landi og erlendis.
Hafnarborg
Menningar- og listamiðstöð
Hafnarfjarðar
Strandgata 34
220 Hafnarfjörður
Ísland Opið alla daga kl. 12–17
Lokað á þriðjudögum.
www.hafnarborg.is
[email protected]
585 5790