Hin pólskættaða Agnieszka Sosnowska var hlutskörpust þátttakenda í ljósmyndarýni sem Borgarsögusafn Reykjavíkur stóð fyrir 15.-16. janúar. Í verðlaun var styrkur úr Minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar ljósmyndara (1862-1937) að upphæð 400.000 kr.
Ljósmyndarýnin var hluti af dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands sem lauk um sl. helgi og var þetta í þriðja sinn sem úthlutað var úr Minningarsjóði Magnúsar, en hann er sá eini sem hefur þann tilgang að styrkja ljósmyndun á Íslandi sem listgrein. Fjöldi þátttakenda var í ljósmyndarýninni og hlaut Agnieszka flest atkvæði dómnefndar.
Agnieszka Sosnowska er fædd í Varsjá í Póllandi og býr og starfar á Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu á Héraði. Hún er með B.F.A. í ljósmyndun frá Massachusetts College of Art og M.F.A. frá Boston University.
Verk Agnieszku hafa verið sýnd víða á Íslandi, í Póllandi og Bandaríkjunum. Síðastliðið sumar tók Agnieszka þátt í samsýningunni Verksummerki sem sýnd var í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en sú sýning var hluti af dagskrá Listahátíðar. Einnig má nefna einkasýningar hennar í Lancaster Museum of Art í Pennsylvaníu og Pleiades Gallery of Art í New York.
Agnieszka hefur gert fjölda sjálfsmynda síðastliðin 25 ár en hún hóf að taka sjálfsmyndir á námsárum sínum í Massachusetts College of Art 1997–1999. Agnieszka notar sjálfsmyndir sínar til að öðlast aukinn skilning á sjálfri sér, tilfinningum sínum og væntingum. Myndir hennar eru leikrænar og tjáningarfullar frásagnir og skrásetning á nærumhverfi hennar á Íslandi, Póllandi og Bandaríkjunum.

Nánari upplýsingar:
Agnieszka Sosnowska [email protected]
Heimasíða Agnieszku má finna hér.
Sjá lista yfir rýnendur hér.
Hér má sjá dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands.
Hér má lesa um Ljósmyndahátíð Íslands.