Þetta er árstíminn. Mín reynsla sem ljósmyndari í meira en fjóra áratugi er að mesta virkni norðurljósa er um jafndægur að hausti og vori. Besti tíminn að sjá og fanga þau á mynd. Síðan er önnur saga hvort vísindalega þetta sé rétt. Því norðurljósin, eins og náttúran eru óútreiknaleg.
Norðurljós eru tíðust á norðurljósakraganum, sem er 500 km breitt belti, í um 2000 km fjarlægð frá segulpólnum, nyrst og vestast í Kanada. Allt Ísland er á þessum norðurljósbelti. Ljós sem dansa fyrir okkur í 100 km hæð, Norðurljósin myndast þegar hraðfleygar rafhlaðnar agnir frá sólinni, aðallega rafeindir, rekast á atóm og sameindir í um 100 km hæð yfir Jörðinni. Agnirnar koma ekki beint frá sólinni heldur safnast þær fyrir í segulhvolfi Jarðar, streyma eftir segulsviðslínunum og fá þar þá hröðun og orku sem þarf til að mynda ljósin.
Það þarf þolinmæði að sjá, og eða ná mynd af þessu undri. Síðan góðan þrífót, og góða, ljósnæma víðlinsu til að fanga töfrana sem voru. Voru bara eitt augnablik. Eða ekki.
Ljósmyndir & texti: Páll Stefánsson
Reykjavík 03/10/2023 : A7R III, RX1R II : 2.0/35mm Z, FE 1.4/24mm GM, FE 2.8/28mm