Allt veltur á góðri hugmynd

Allt veltur á góðri hugmynd
Arkitektastofan Batteríið sneri vörn í sókn þegar kreppan skall á og sigraði á dögunum tvo norræna risa í samkeppni um hverfiskjarna í Bergen
Strax eftir hrun settum við fram þessa spurningu: Annað hvort verðum við að gera það sem við erum vön að gera einhvers staðar annars staðar, eða við verðum að gera eitthvað annað en við erum vön að gera. Við getum ekki verið í bygginga- og skipulagshönnun á Íslandi vegna þess að hér er enginn markaður fyrir það. Við verðum að baka flatkökur eða flaka fisk í staðinn fyrir að hanna byggingar, segir Sigurður Einarson arkitekt hjá Batteríinu, þegar hann er spurður hvernig hann og félagar hans hafi farið að þvi að stýra fyrirtæki sínu til sigurs á krepputímum.


„Niðurstaðan varð sú að við myndum sækja út, halda áfram að gera það sem við erum vön að gera annars staðar. Við höfðum talsverða“ cross-border“ reynslu. Við höfðum unnið í Montreal í Kanada, með Henning Larsen í Hörpunni og með aðilum í Noregi. Við þekktum því hvernig menn unnu, reynslan var til staðar í fyrirtækinu til að gera þetta.
Þá var fyrsta spurningin: Hvert eigum við að fara…. Norðmenn eru reiðir út í okkur, Svíar eru reiðir út í okkur, Danir þola okkur ekki – og við skulum bara ekki tala um Bretland og Icesave… Það var alls staðar sviðin jörð eftir útrásarvíkingana.“
Það er greinilegt að Sigurður lítur á sókn sem bestu vörnina vegna þess að í dag er Batteríið líklega stærsta arkitektastofan á Íslandi og hefur tekist það með mjög markvissri útrás, markvissri markaðsöflun í Kanada og síðan í Noregi.

Velkomnir í Kanada  

Í október nóvember 2008 þegar allt hrundi, hafði Batteríð veður af arkitektastofu í Kanada sem vantaði arkitekta. „Við fengum Atla Ásmundsson ræðismann Íslands í Winnipeg í Kanada á fund með okkur. Hann sagði okkur frá aðstæðum í Manitoba en við spurðum hvort Kanadamenn væru ekki brjálaðir út í okkur eins og allir aðrir. Hann sagði það af og frá, Kanadamenn bæru Íslendinga á höndum sér. „Mér fannst ég kominn til himnaríkis – á launum. Ég get lofað ykkur því að það verður ekki litið niður á ykkur,“ sagði hann.
Fyrir orð og með hjálp Atla byrjuðum við að vinna í Manitoba. Hann reyndist sannspár. Við þreifuðum á fjölmörgum stofum og fundum eina sem vildi vinna með okkur – og smullum algerlega saman. Við sóttum fyrst um og fengum verkefni í Gimli sem enn er ekki komið á framkvæmdastig en síðan gríðarlega stórt verkefni við Manitoba háskóla í Winnipeg sem er núna í útboðsferli. Þetta er risastór íþróttamiðstöð, eða það sem þeir kalla „Active Living Centre,“ með líkamsræktarstöðvum, ólympískri hlaupabraut og öllum tegundum af sölum fyrir boltakeppnir.“
Þótt vel hafi gengið að afla verkefna í Kanada, komust forsvarsmenn Batterísins að því á þessum tíma að mun auðveldara er að vinna á Noregs/Svíþjóðar markaðnum en á Kanadamarkaði.

Íþróttamiðstöð í Kanada, sem er kölluð „Active Living Centre,“ með líkamsræktarstöðvum, ólympískri hlaupabraut og öllum tegundum af sölum fyrir boltakeppnir.“

Brjálað að gera í Noregi
„Í Kanda lendum við í eilífu basli með atvinnuleyfi,“ segir Sigurður. „Í tengslum við verkefni þar, höfum við stöðugt fært okkur meira yfir í að nota netið, vinnum í gegnum internet samskipti og höldum skype-fundi. Á sama tíma byrjuðum við að þreifa á teiknistofum í Noregi. Þar var svo brjálað að gera að þeir óskuðu eftir aðstoð við hin og þessi verkefni. Í dag erum við í samstarfi við eina stærstu teiknistofu í Noregi, auk tveggja annarra. Auk þess erum við farnir að vinna beint fyrir verktaka í Noregi. Fyrsta verkefnið var alútboðs-samkeppni á íbúðablokkum fyrir þennan verktaka sem við unnum og síðan höfum haldið áfram að teikna fyrir hann. Við höfum líka verið að vinna með teiknistofum í Bergen. Þar unnum við samkeppni strax eftir hrun og vorum hálfnaðir með að klára hönnunina þegar skipt var um sveitastjórn þar, sem hætti við allt saman. Þetta gerist alveg eins í Noregi og á Íslandi.“
Þótt vissulega sé fúlt að láta fleygja verkefnum út af borðinu, hefur Sigurður og hans fólk ekki skap til að setjast niður volandi með hendur í skauti. Batteríð er núna að hanna þrjá leikskóla í Þrándheimi og hefur opnað útibú í Helsingborg í Svíþjóð. „Við erum að hefja samstarfsverkefni á Skáni vegna þess að sænski markaðurinn hefur sín sérkenni. Kanada vinnur á einn máta, Noregur á annan máta og Svíþjóð á þriðja mátann og Svíar vilja að fyrirtækið hafi sænska kennitölu.“ En hvað með Danmörku? Þegar Sigurður er spurður hvers vegna fyrirtækið hafi ekki haslað sér völl þar, segir hann: „Ég lærði í Danmörku og við þekkjum mjög vel danska markaðinn. Þar eru slíkir hákallar, sem reyna allt hvað þeir geta til að ryksuga upp Noreg og Svíþjóð, að við ákváðum að fara ekki inn á þann markað.“
Davíð fellir Golíat
Engu að síður hefur Batteríinu núna tekist að fella einn stærsta danska risann, BIG, í samkepppni í Noregi, auk þess að leggja einnig Snøhetta, þekktustu arkitektastofu í Noregi í dag sem hannaði Óperuhúsið í Osló, að velli. Það má því segja að Davíð hafi enn einu sinni sigrað Golíat.
Fyrir fáeinum dögum var opinberuð niðurstaða úr sameppni um hönnun hverfismiðju í úthverfi Bergen. Þar er áætlun um að hafa sjálfbæran kjarna með blandaðri byggð, það er að segja íbúðir, þjónustu og atvinnustarfsemi, 140.000 fermetrar. „Við vorum í samstarfi við Link Arkitektur í Noregi,“ segir Sigurður. „Samkeppnin var um skipulagsverkefni og ef við hönnum byggingarnar í kjölfarið, þá er þetta með stærstu verkefnum sem við höfum fengið. Álverið í Reyðarfirði og Harpa hafa hingað til verið stærstu verkefnin okkar.
Þegar maður byrjar að keppa við þessi nöfn, sem eru með gífurlega samkeppnisreynslu, með mikla reynslubolta í samkeppnisteymi sínu – og vinninga í röðum, þá fallast manni næstum hendur. En svo segir maður bara: Þetta snýst allt um góða hugmynd og við duttum niður á réttu hugmyndina og góða útfærslu.“

Sigurður Einarsson arkitekt


Sóknarfæri á krepputímum
Við höfum alla tíð verið mjög tæknivædd. Allt sem við höfum gert frá 1990 hefur verið tölvuvætt og við höfum lagt okkur fram um að tileinka okkur nýja tölvutækni.“Auk þess að fara í markaðsöflun erlendis notuðu starfsmenn Battarísins tímann eftir hrun til að byggja upp mjög góða BIM-kunnáttu (Building Information Modelling) í fyrirtækinu og vinna öll sín verkefni í slíku þrívíddarupplýsingalíkani í dag. „Samtímis því höfum við verið að byggja upp gæðakerfi í fyrirtækinu,“ segir Sigurður. „Stór hluti af okkar verkefnaöflun er að taka þátt í forvölum og þar skiptir máli að fyrirtæki sé með vottað gæðakerfi. Við fengum vottun á okkar kerfi í fyrra. Við höfum því verið með það í ár. Í beinu framhaldi erum við nú að fá umhverfisvottun og erum að einbeita okkur meira að umhverfismálum. Sem liður í því var mér boðið að vera með í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, undir lógóinu Nordic Built og var í því að móta þann sáttmála, bæði á upphafsfundi og í ritnefnd landanna sem þróuðu sáttmálann.“ Sigurður er einn af sendiherrum verkefnisins á Íslandi, en verkefninu er ætlað að stuðla að því að sem flestir byggingaraðilar, verktakar og sveitarfélög vinni eftir þessum sáttmála. Liður í því er að Batteríið vinni mjög meðvitað með umhverfismál í allri hönnuninni.
Þrátt fyrir allt hefur þessi krepputími verið áhugaverður og spennandi að mati Sigurðar. „Launakjörin hafa verið bág. Við eyddum upp öllu eigin fé í markaðssetningu árið 2009 – en teljum okkur komin fyrir horn í dag. Við brenndum upp allt sem við áttum til að geta söðlað um og í dag eru verkefni erlendis um áttatíuogfimm prósent af okkar veltu. Sumarið 2008 vorum við með 35 manns í vinnu, fórum alveg niður í átta þegar fæst var 2009. Núna erum við með 25-30 manns í vinnu.
Síharðnandi kröfur
„Fyrirtækið býr yfir mikilli breidd. Við hönnuðum Hörpuna sem er menningarbygging og við höfum líka teiknað iðnaðarbyggingar, til dæmis, Álverið á Reyðarfirði. Við höfum lagt áherslu á að sérþekkingu okkar á því sviði. Við höfum verið að sýna þessa breidd okkar í samstarfi Tark og Landslags undir dótturfyrirtækinu TBL Architects og höfum verið að vinna allt frá iðnaðarbyggingum til hátæknispítala, meðal annars í Bandaríkjunum, með góðum árangri. Í framhaldi af opinni samkeppni í Kaliforníu, þar sem við náðum inn í sex-tillagna úrtak af yfir hundað tillögum, var óskað eftir því að við tækjum þátt í forvali í Halifax á stórum hátæknisjúkrahúsi sem á að reisa þar. Við erum nýbúin að senda okkar gögn til Halifax. En Batteríið hefur sérstöðu á fleiri sviðum. Á 10. áratugnum vann stofan handbókina „Aðgengi fyrir alla,“ auk þess að vinna rannsóknarverkefni sem fékk heitið „Gjóla.“ Það verkefni gekk út á að rannsaka áhrif verðurfars á byggingar og skipulag á Íslandi. „Við komum okkur upp vindhermi sem við getum notað til að herma í líkönum áhrif og hegðun vinds í kringum byggingar. Þessa vindviftu höfum við notað í gerð okkar eigin bygginga, auk þess að gera skýrslur og úttektir fyrir aðra. Núna erum við að færa þetta inn í tölvuforrit,“ segir Sigurður.
Öryggismál í byggingum eru nýjasta sérstaðan sem Batteríið er að tileinka sér. „Við erum að vinna mjög markvisst með öryggi, bæði við byggingu og rekstur þeirra bygginga sem við hönnum. Menn eru sífellt að gera ríkari kröfur til okkar hönnuða um að uppfylla ákveðin skilyrði um það sem er kallað „Health and Safety“ sem hluta af hönnuninni – og þá er bara að mæta þeim kröfum.

www.arkitekt.is

( Þetta viðtal var tekið 2012 fyrir Land og sögu af Sússana Svavarsdóttir.)