Þar sem styttan af landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni stendur nú voru áður bæjarhús býlisins Arnarhóls. Talið er að býlið hafi verið reist skömmu eftir landnám á 9. öld. Elstu minjar sem komu í ljós við fornleifarannsókn á staðnum árið 1995 voru frá 12.-13. öld. Hóllin var þó ekki fullkannaður og því má búast við eldri minjum hér við frekari rannsóknir. Arnarhólsjörðin var lögð undir rekstur tukthússins sem var byggt syðst í Arnarhólstúni á árunum 1759-1764 (nú Stjórnarráðið). Við það fór bærinn í mikla niðurníðslu og var að lokum rifinn árið 1828. Á Arnarhóli má enn greina menningarlandslag sem tilheyrir Arnarhólsbýlinu, nokkur rústabrot og grasi gróna Arnarhólströðina sunnan í hólnum.
Vegakerfi fyrri alda voru slóðar eða götur sem lágu á milli bæja. Allt fram á 19. öld lá aðalvegurinn eða þjóðvegurinn austur úr Reykjavík eftir fjörunni þar sem í dag er Hafnarstræti, síðan yfir ós Arnarhólslækjar („Lækjarins“) og upp Arnarhólinn um Arnarhólstraðirnar. Þaðan lá vegurinn í ótal hlykkjum yfir Arnarhólsholt, sem síðar var nefnt Skólavörðuholt. Vegurinn lá síðan utan í Öskjuhlíðinni en skiptist þar og lá önnur leiðin til Hafnarfjarðar en hin eftir Bústaðaholti til Bústaða og þaðan að vaðinu yfir Elliðaárnar.
Arnarhólslækurinn var oft illur yfirferðar en var brúaður fyrir 1800. Leiðin um Arnarhólstraðir lagðist af upp úr 1830 og færðist þjóðvegurinn þá yfir í Bakarabrekkuna (nú Bankastræti) og Laugaveg. Þá hafði stiftamtmaður afnot af landi Arnarhóls og vildi ekki hafa umferðina í gegnum túnið hjá sér. Bústaður stiftamtmanns var þá í gamla tukthúsinu sem í dag hýsir Stjórnarráðið.
Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is