Listaverk 13 íslenskra listakvenna
13 listakonur reka Art Gallery 101 við Laugaveg 44 – níu málarar, þrjár leirlistakonur og ein er skartgripahönnuður. Listakonurnar eru Aðalheiður Karlsdóttir, Bjarney Sif Ólafsdóttir, Guðmunda Kristinsdóttir, Helga Ástvaldsdóttir, Helga Kristjánsdóttir, Ingibjörg Ottósdóttir, Lilja Bragadóttir, Ólöf Jóna Guðmundsdóttir, Rut Ragnarsdóttir, Þóra Ben, Þóra Jóna Dagbjartsdóttir, Þóra Sigurþórsdóttir og Þórdís Baldursdóttir. Opið er alla daga vikunnar. Opið er virka daga kl. 10-19, á laugardögum er opið frá 11 – 17 og á sunnudögum frá kl 12-16. Listakonurnar skipta með sér vöktum í galleríinu og afgreiða sjálfar.
„Við erum búnar að reka galleríið í rúm þrjú ár,“ segir ein af listakonunum. „Nokkrum úr hópnum hafði dreymt um að vera með svona gallerí og helst þar sem væri mikil gangandi umferð. Margar úr hópnum hafa áður tekið þátt í sams konar rekstri í Reykjavík og Hafnarfirði. Svona samstarf er heppilegt form fyrir okkur og það er gaman og gefandi að vinna saman.“
Erlendir ferðamenn hafa verið mjög hrifnir af að galleríið sé rekið af 13 konum en það var samt ekkert markmiðið að eingöngu konur kæmu að rekstri gallerísins.
„Við höfum lagt metnað í að ef pláss losnar hjá okkur, sem hefur komið fyrir, þá veljum við hæfileikaríka myndlistarmenn og helst myndlistarmenn sem skapa eitthvað ólíkt því sem við erum með fyrir til að breikka úrvalið.“
Lögð er áhersla á fjölbreytt úrval og mikla breidd þegar kemur að viðfangsefnum og stíl og er það hægt þar sem listakonurnar eru svo margar. „Sjá má mikil áhrif íslenskrar náttúru í listaverkum margra okkar, hvort sem það eru landslagsmyndir eða abstrakt. Útlendingum finnst það ekki undarlegt því þeir eru flestir algjörlega heillaðir af náttúrunni hér á landi. Við erum mest með olíumálverk og auk þess grafíkmyndir og vatnslitamyndir.
Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur að það koma sífellt fleiri Íslendingar í galleríið en ennþá er samt meirihluti viðskiptavina erlendir ferðamenn. Erlendu ferðamennirnir eru duglegir að versla; sumir kaupa minni verk til að taka með sér en aðrir kaupa stór málverk sem við sjáum um að senda til heimalanda þeirra. Þetta er fólk frá öllum heimshornum og höfum við til dæmis sent myndir nokkrum sinnum til Ástralíu og við sendum mikið til Bandaríkjanna, ýmissa Evrópulanda og Asíulanda.“
Ný heimasíða gallerísins er artgallery101.is og er nú vefverslun komin í loftið. Þar er hægt að sjá myndir af hluta þeirra listaverka sem eru til sölu í galleríinu og kaupa þau í gegnum netið. Þá eru upplýsingar um listakonurnar á heimasíðunni. Einnig er hægt að fylgjast með Instagram-síðu gallerísins, https://www.instagram.com/artgallery101rvk/
Framtíðarsýn gallerísins er að fá fleiri listamenn í samstarf og miðla íslenskri listsköpun sem víðast. „Framtíðarmarkmiðið er að breiða út íslenska list og draumurinn er að galleríið blómstri.“