Austurland í hnotskurn

Á Austurlandi eru lítil þorp, stórbrotin strandlengja, þröngir firðir, fossar, fjöll og spriklandi fjörugt menningarlíf. Nálægðin við náttúruna er mikil og landslagið er heillandi. Hér eru frábærir og fjölbreyttir möguleikar til útivistar, allt árið um kring.

Eftirfarandi er aðeins brot af því besta sem Austurland hefur upp á að bjóða:

Seyðisfjörður – Alþjóðlegur smábær

Íbúafjöldi 653! Frá náttúrunnar hendi er hafnaraðstaðan í firðinum einstök sem hefur gert hann að mikilvægri samgönguæð allt frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag og tengslin við Evrópu sterk. Litrík, norskættuð timburhúsin, gera þorpið einstaklega fallegt og framúrskarandi menningarlíf, þekkt um land land, bera alþjóðlegum tengslum glöggt vitni. Við bendum ferðalöngum að skoða „Regnbogagötuna“ sem liggur þvert í gegnum miðbæinn og hefur orðið vinsælt myndefni síðustu árin.

Borgarfjörður eystri – Í návígi við lunda

Hvergi á Íslandi er eins auðvelt að komast í návígi við lunda og á Borgarfirði. Við smábátahöfnina er svonenfdur „Hafnarhólmi“, svæði sem hentar sérdeilis vel til fuglaskoðunar. Heimamenn hafa gert Hafnarhólmann vel úr garði og eru upplýsingar til reiðu um þá fugla sem sjá má. Sjálfur er hólminn og leiðin þangað augnayndi.

Hafrahvammagljúfur – Stórt og stórfenglegt

Hafrahvammagljúfur á Austurlandi er með stærstu og stórfenglegustu gljúfrum landsins. Þar sem það er hæðst er það um tvö hundruð metrar og er gljúfrið um átta kílómetrar að lengd. Falleg merkt gönguleið er meðfram gljúfrinu og niður að Magnahelli. Það þarf fjórhjóladrifsbíl til að keyra að gönguleiðinni en hægt er að sjá hluta gljúfursins frá Kárahjúkum og dugar venjulegur fólksbíll til að komast þangað. Þetta gljúfur lætur engan ósnortinn.

Vopnafjörður – Einstök sundlaug í Selárdal

Ein flottasta sundlaug landsins er í Selárdal, á bökkum einnar mestu laxveiðiár Íslands. Við sundlaugina er stór sólpallur, sólstólar og heitir pottar. Leitun er að jafn fagurri staðsetningu fyrir sundlaug enda er hún rómuð fyrir umhverfi sitt.

Vallanes – ferskt og austfirskt

Vallanes á Fljótsdalshéraði er kirkjustaður frá fornu fari og margir þjóðþekktir einstaklingar hafa gengið þar um götu. Þar er stunduð lífræn ræktun undir vörumerkinu „Móðir Jörð“. Byggt hefur verið hús á staðnum úr austfirskum viði.  Húsið hýsir verslun Móður Jarðar þar sem í boði eru ýmsar lífrænar mat- og heilsuvörur sem framleiddar eru á staðnum úr íslensku hráefni, sem og ferskt grænmeti.

Rokkað á Austurlandi

Austurland hefur getið sér gott orð á síðustu árum sem landsfjórðungur tónlistar og eiga sumar af þekktustu og bestu tónlistarhátíðum landsins lögheimili sitt fyrir austan.

Að skjótast austur á land er ævintýri. Ferðalagið getur verið langt hugsi menn eingöngu í kílómetrum og klukkustundum en góðum félagskap er það ógleymanleg upplifun að ferðast austur. Að skella sér á góða tónleika í fallegum firði eftir langt en skemmtilegt ferðalag í góðra vina hópi er minning sem hægt er að ylja sér við um ókomin ár.

Eistnaflug – Neskaupstað

Á seinni árum hefur fjöldi hljómsveita sem koma fram margfaldast og nú er svo komið að mörg af þekktari böndum þessarar tónlistarhefðar á heimsvísu sækja Neskaupstað heim á Eistnaflugi. Þungarokkið og fjarðalandslagið á einstaklega vel saman!

LungA – Seyðisfjöður

Hátíðin er frábær blanda af listum, sköpun, tjáningu og stórbrotinni náttúru. Hún hefur getið sér gott orðspor, bæði á Íslandi og erlendis fyrir frábært andrúmsloft, námskeið af miklum gæðum og með mikilli virkni þátttakenda. Ennfremur færir hátíðin gleði, sjálfsþekkingu, nýja vini og góðar minningar fyrir þá sem sækja hátíðina heim.

Bræðslan – Borgarfjörður eystri

Það er erfitt að finna orð til að lýsa tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði. Þorpið er eins og athvarf frá ys og þys hversdagsins og tónlistarhátíðin sjálf er algerlega sér á báti. Andinn í gömlu síldarbræðslunni er eintakur og hátíðin dregur fram það besta í gestum og tónlistarmönnunum sem standa á sviðinu.