Í Byggðasafni Garðskaga, sem er rétt við Garðskagavita, er að finna ýmsa muni úr byggðasögu Garðsins en um er að ræða byggða- og sjóminjasafn. Ásgeir Hjálmarsson safnstjóri byrjaði að safna ýmsum munum sem varð síðan til þess að úr varð safn í gömlum útihúsum sem opnað var almenningi árið 1995. Tíu árum síðar var auk þess tekin í notkun ný, 700 fermetra bygging og í hluta hennar er veitingasalur.
„Vélasafnið er merkilegast,“ segir Ásgeir. „Þar eru rúmlega 60 vélar af ýmsum gerðum sem eru allar gangfærar en Guðni Ingimundarson á heiður af að hafa gert þær upp. Þetta eru mest litlar bátavélar. Þar á meðal eru þrjár glóðarhausvélar sem eru fyrstu bátavélarnar sem komu til landsins, bensínvélar og gufuvél. Í safninu er fyrsta dísilvélin sem kom til Íslands í vörubíl árið 1934.
Í sjóminjadeildinni eru þrír opnir fiskibátar sem réru frá Garði. Þar á meðal er sexæringur með Engeyjarlagi sem var smíðaður árið 1887. Tveir bátar eru á útisvæði. Í sumar verður lokið við að gera upp Hólmstein sem er 43 tonn. Hugmyndin er að fólk geti farið niður í lest, lúkar og í vélarrúmið. Ég fékk þá hugmynd að bjóða gistingu í lúkarnum þar sem eru átta kojur. Það er notalegt að sofa í svona bát þó það sé á þurru landi.“
Hvað varðar muni sem notaðir voru á heimilum má nefna strokka, skilvindur, þvottabala og -bretti, hluta af eldhúsinnréttingu frá 1943, leirtau frá gamalli tíð, vöfflujárn sem notað var á kolaeldavélum, hraðsuðukatla sem gengu ekki fyrir rafmagni, Rafha-eldavél frá 1947, prjóna- og saumavélar, klukkur, útvörp og orgel. „Þarna er flestallt sem tengist heimilislífinu.“
Í Byggðasafni Garðskaga er deild þar sem er að finna ýmislegt sem tengist búskap svo sem gamlan hestvagn, handverkfæri, orf og ljá, eldsmiðjur, hefla, dráttarvélar, traktor frá 1953 og annan frá 1949 og garðplóg. „Í safninu er 150 ára trérennibekkur, sem var fótstiginn, skóvinnustofa sem var í Garðinum og ýmsir munir úr Hraðfrystihúsi Gerðabátanna.“
Nefna má deildir þar sem eru myndir og skjöl, símtæki og senditæki og í safninu er fyrsti símasjálfsalinn sem var settur upp á Keflavíkurflugvelli. „Í safninu er afgreiðsluborð og hillur ásamt öllu bókhaldi úr verslun Þorláks Benediktssonar sem var í Akurhúsum í Út – Garði frá 1921 – 1972.
Draumur okkar er að stækka safnið því það er heilmikið til og ýmsar hugmyndir í gangi.“ Ásgeir nefnir sem dæmi að á 70 ára afmæli Slysavarnafélag Íslands árið 1998 var sett upp merkilegt safn í 300 m2 húsnæði í Garðinum þar sem sýnd var saga félagsins í 70 ár með munum, myndum og textum. „Því miður var þetta safn tekið niður og sett í geymslu en okkur langar að endurvekja þetta safn. Einnig er áhugi fyrir því að gera fiskvinnslu betri skil á safninu.
Þá má nefna að á síðasta ári var unnið við að gera upp gamalt sjóhús sem er í göngufæri frá safninu. Þar má sjá gamalt uppsátur, vör, gönguspil, vélknúið spil sem notað var síðustu árin sem opnum bátum var róið úr þessum vörum sem eru 30 talsins meðfram ströndinni í Garðinum.
„Garðskaginn er einstök náttúruperla og hingað kemur óhemjumargt fólk. Vitarnir tveir hafa mikið aðdráttarafl,“ segir Ásgeir en unnið er að því að koma upp safni í stærri vitanum.
„Heildarframtíðarsýnin er að gera Garðskagann og svæðið að Útskálum að allherjarsafnasvæði. Skagagarður er mikill garður sem er talinn hafa verið reistur á landsnámsöld; hann var 1,5 kílómetri að lengd og náði mönnum í öxl. Hugmyndin er að byggja sýnishorn af honum.“