Elínborgar Jóhannesdóttur Ostermann, Flæði, á laugardaginn 12. september kl. 14.


Þar sýnir Elínborg abstrakt málverk, unnin með akríllitum, þar sem litir og form leika saman í áköfu flæði.    Verkin eru unnin í gleði augnabliksins, þar sem hugmyndaflugið stýrir ferðinni og formin spretta fram. Í sumum verkunum minna formin á íslenskt landslag eða blóm, í öðrum eru þau algjörlega ótengd veruleikanum. Hvert lag verkanna býður upp á nýja stöðu sem krefst viðbragða um framhaldið, nýja litatóna, fleti, línur og hlutföll. Stundum þarf listamaðurinn að breyta litum, flötum og línum, finna hlutföll og litasamstæður eða mála yfir hluta til að ná böndum á villt fæðið. Stundum þarf að færa fórnir svo að aðrir hlutar verksins njóti sín betur og jafnvægi komist á heildarmyndina. Bestu verkin fæðast, þegar innsæið ræður ferðinni og flæðið tekur yfir.   Elínborg Ostermann Jóhannesdóttir er fædd í Reykjavík árið 1954. Á árunum 1964–1966 sótti hún námskeið við Myndlistaskóla Reykjavíkur en árið 1974 flutti hún til Vínarborgar þar sem hún kynntist vatnslitamálun og sótti m.a. námskeið hjá þekktum listamönnum í þeirri grein, m.a. Bernhard Vogel, Gerhard Almbauer, Kurt Panzenberger og Ingrid Buchthal. Einnig hefur hún sótt námskeið hjá Kunstfabrik Wien.  Flæði er þriðja einkasýning Elínborgar í Gallerí Fold.