Endurskoðun aðalskipulags Grindavíkur tekur til margra þátta

Hjá skipulagsfulltrúa Grindavíkur er nú unnið að endurskoðun aðalskipulags Grindavíkur 2000-2020 og er það umfangsmikið verkefni þar sem verið er að draga upp heildarmynd af Grindavík 30 ár fram í tímann. Þá ætti Grindavík miðað við 2,25% árlega íbúafjölgun að vera um 5200 manna bær. Ef íbúaþróunin verður hins vegar að jafnaði um 1% hærri þá gæti Grindavík verið 7000 manna bær eftir 30 ár sem er gríðarlegur vöxtur. Má geta þess að íbúum í Grindavík fjölgaði á árunum 2004 og 2005 yfir 4,5%.

DSC_0682c.jpgA4Íþróttasvæðið stækkar
Hjá byggingafulltrúa er einnig verið að vinna að deiluskipulagi fyrir nýtt íbúðahverfi þar sem fyrsti áfanginn eru um það bil þrjátíu lóðir: “Við erum einnig með lóðir í öðru hverfi fyrir 120 íbúðir, raðhús og parhús. Það skipulag var unnið í fyrra og verður farið í gatnagerð á næsta ári. Þá er búið að klára deiliskipulagið fyrir íþróttasvæðið okkar þar sem rís stórt fjölnotaíþróttahús á árinu auk þess sem gert er ráð fyrir frjálsíþróttavelli til viðbótar öðrum völlum og byggingum. Hesthúsahverfi mun rísa á næsta ári og er hafin vinna við frekari stækkun hverfisins við Víðihlíð í samvinnu við Búmenn. Í lok þessa árs verður síðan farið yfir stöðu mála varðandi úthlutaðar lóðir og verður þá líklegast farið að gera fyrstu drög að nýju hafnar-og iðnaðarsvæði sem skildi þá teygja sig örlítið meira suður út á Hópsnes og að skipuleggja íbúðarhverfi austan við frahópshverfið.”

Pétur nefnir einnig að í fyrra var gert athafanasvæði fyrir vistvæna starfsemi þar sem gert er ráð fyrir starfsemi sem þarf töluverða orku, til að mynda gróðurhús, svepparækt og parketframleiðslu.

Sprengingin varð 2004
Hvað varðar hina miklu þenslu í íbúðabyggð þá segir Pétur að sprengingin hafi orðið 2004 þegar tveimur hverfum var úthlutað: “Þar voru umsækjendur margir um hverja lóð. Í kjölfar dálítillar svartsýni í fyrra dró aðeins úr kraftinum en ekki er haldinn sá fundur skipulagsnefndar í dag að ekki liggi fyrir umsóknir um lóð. Það er kannski ekki eins mikið og var fyrir tveimur árum en samt mjög gott hjá ekki stærra bæjarfélagi.”

Ef farið er í breytingarnar á aðalskipulaginu þá er meira en íbúbyggð sem þarf að huga að:“Við þurfum líklegast að breyta skipulagi út af fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum, enn það liggur fyrir hvernig þær breytingar verða. Göngustígar koma til með að vera meira inn í aðalskipulaginu meðal annars við Bláa lónið, sumarhúsabyggð er einnig inni í breyttu aðalskipulagi og segja má að í heildina muni breytt aðalskipulag einkennast af meiri fjölbreytni en áður.”

Tenging stórt atriði
Með skipulagningu nýrra hverfa í Grindavík er áhersla lögð á að tenging sé góð: “Eðlilegt er að við förum með stækkunina til austurs. Við viljum ekki vaxa til norðurs heldur í radíus frá höfninni sem er hjarta bæjarins, þannig að alls staðar sé stutt í þjónustu og annað sem er í miðbænum.”
Hvað varðar byggingar segir Pétur að áður fyrr hafi mest verið byggt af einbýlishúsum og raðhúsum: “Frá árunum 2000 til 2005 voru aðeins byggð tvö lítil fjölbýlishús sem voru með að ég held átta íbúðum hvort. Þegar svo íbúðaverð fór að hækka vantaði meira af litlum íbúðum þannig að þróunin var töluverð í átt að fjölbýli. Það voru byggðar 20 íbúðir í blokk fyrir 50 ára og eldri í fyrra og nú er verið að byggja 24 íbúða og 12 og 10 íbúða blokkir og fleiri eru í undirbúningi. Það sem er að gerast nú er að aftur er farnar að koma fyrirspurnir um lóðir fyrir stærri einbýlishús.”

Vinna við endurskoðun aðalskipulags er einnig mjög stefnumarkandi á s.s. umhverfisvernd, útivist og atvinnustarfsemi og hvernig bæjarfélagið okkar góðar er að þróast inn í framtíðinna. Pétur Bragason er skipulagsfulltrúi Grindavíkur: “Það er mikil vinna við að endurskoða aðalskipulagið, vinna sem tekur á annað ár. Nýtt aðalskipulag átti að gilda til 2020, en þróunin á svæðinu hefur verið það ör í byggðamálum að við gerum ráð fyrir að að árið 2009 verðum við búnir að byggja á svæðinu sem átti að duga til 2020. Sérstaklega var það í fyrra og hitteðfyrra sem gekk hratt á landsvæðið en aðeins hefur hægst um á þessu ári.”