tourism in iceland

Fögur rödd úr Fljótshlíð

Við komum að austan eftir hringveginum og höldum vestur um grösugar sveitir í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Landslagið er stórfenglegt og margbreytilegt. Á hægri hönd rísa fannhvítir jöklar, en til vinstri gnauðar aldan við sendna strönd og Vestmannaeyjar lyfta sér tígulega upp úr bláum haffletinum. Vestarlega í Eyjafjallasveit fórum við fyrir Seljalandsmúla og beygjum þar til hægri út af þjóðvegi nr. 1 og höldum eftir hliðarvegi vestur fyrir fjöllin og síðan áleiðis inn með þeim norðanverðum. Þá opnast smám saman fyrir okkur breiður og mikill dalur milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar og niður eftir honum dunar jökullitað Markarfljótið á leið sinni til sjávar. Lengst í austri og fyrir botni dalsins hvílir Þórsmörk í skjóli háfjalla og jökla, ein fegursta gróðurvin í óbyggðum landsins. Á leið okkar inn með fjöllunum fórum við hjá fáeinum blómlegum bændabýlum og síðasti bærinn sem við komum að heitir í Stóru- Mörk. Þar er staðarlegt um að litast og margbýlt. Og þegar við komum í hlað á þessu foma stórbýli, rifjast ekki aðeins upp fyrir okkur að þarna bjó Ketill í Mörk, ein af söguhetjum Brennu-Njáls sögu, heldur líka að í Stóru-Mörk fæddist Þorsteinn Erlingsson, eitt orðhagasta og ástsælasta skáld þjóðarinnar á sinni tíð.gonguferd

Þorsteinn Erlingsson fæddist 1858 í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru hjónin Erlingur Pálsson og Þuríður Jónsdóttir, bæði atgervisfólk, en lítt efnum búin. Fjögurra vikna gamall var Þorsteinn sendur í fóstur til ömmu sinnar, Helgu Erlingsdóttur, í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, og þar ólst hann upp. Þegar í æsku bar á góðum gáfum hjá honum sem og hagmælsku, en framan af virtust engin tök á að koma mætti honum til mennta. Samtíða Þorsteini í Hlíðarendakoti var Jón Jónsson sem nefndur var söðli. Hann var fróður vel, en nokkuð sérstakur og var einna síðastur þeirra manna er trúðu statt og stöðugt á tilvist útilegumanna. En hann trúði á fleira og þar á meðal að í Þorsteini Erlingssyni byggi mikið og gott mannsefni og vildi styðja hann.marketing-office-of-south-iceland

Árið 1876 komu tvö mestu skáld landsins, þeir Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinsson, í skemmtiferð austur í Fljótshlíð. Þar fréttu þeir af skáldmæltum efnispilti í Hlíðarendakoti og gerðu sér það ómak að heilsa upp á hann. Er skemmst frá því að segja að fyrir hvatningu þeirra og hjálp og með stuðningi Jóns söðla komst Þorsteinn í Latínuskólann í Reykjavík og lauk þar stúdentsprófi vorið 1883. En þótt hann færi að heiman gleymdi hann ekki æskustöðvunum í Fljótshlíð, enda er þar náttúrfegurð svo mikil að í innanverðri sveitinni má segja að sum bæjarstæðin minni einna helst á listaverk. Þessara heimahaga minntist hann margvíslega og meðal annars í ljóðinu Í Hlíðarendakoti.

Þegar á skólaárunum í Reykjavík varð Þorsteinn kunnur fyrir góðan skáldskap sinn, enda voru kvæði hans svo vel gerð að fólk lærði þau næstum ósjálfrátt. Sem dæmi má nefna kvæðið Kvöld sem hefst á þessu erindi:

Nú blika við sólarlag sædjúpin köld;
ó, svona ætti’ að vera hvert einasta kvöld,
með hreinan og ljúfan og heilnæman blæ,
og himininn bláan og speglandi sæ.

Þorsteinn sigldi eftir stúdentspróf til Kaupmanna­hafnar og hóf þar háskólanám í lögfræði. Ekki féll honum laganámið til lengdar og sneri sér fljótlega að öðrum greinum, en þó mest bókmenntum og skáldskap. Mörg kvæði hans birtust á þeim árum í ýmsum tímaritum. Í ljóðagerð sinni fylgdi hann að sumu leyti hinni rómantísku arfleifð, en víðar kom hann þó fram sem raunsæisskáld sem deildi á félagslega þröngsýni, misrétti og trúarofstæki og var jafnan öruggur málsvari lítilmagnans. Nám hans við Hafnarháskóla varð endasleppt af ýmsum ástæðum og hvarf hann frá því án þess að ljúka prófi. Var hann þó áfram ytra um skeið og vann fyrir sér við kennslu, fornleifarannsóknir og fleira. Alkominn heim sneri hann loks 1896.hekla

Gerðist hann þá ritstjóri vikublaða, fyrst á Seyðisfirði og síðar á Bíldudal. Til Reykjavíkur fluttist hann 1902 og átti þar heima til æviloka. Stundaði hann þá kennslu og ritstörf. Ljóðabók hans, Þyrnar, kom út 1897. Skipaði hún honum þegar á bekk meðal öndvegisskálda þjóðarinnar og náðu mörg kvæðanna fádæma vinsældum.
Eitt þeirra heitir Sólskríkjan og hefst á þessa leið:

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni;
hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt, sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein —
ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún kunni.

Og í niðurlagi kvæðisins lýsir Þorsteinn söknuði sínum eftir söng sólskríkjunnar og þráir heima- landið, þar sem hann dvelst á framandi slóðum:

En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin;
hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornætur friðinn, —
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.

Kvæðabók Þorsteins, Þyr­nar, hefur komið út í ýmsum útgáfum og þá mjög aukin. Einnig samdi hann ljóðaflokkinn Eiðinn, margar smásögur, safnaði þjóðsögum og þýddi ýmis fræg bókmenntaverk. Var hann þannig mjög virkur og fjölhæfur í ritstörfum sínum. Eitt þekktasta kvæði hans ber titilinn Hreiðrið mitt:

Þér frjálst er að sjá,
hve ég bólið mitt bjó,
ef börnin mín smáu þú lætur í ró;
þú manst, að þau eiga sér móður;
og ef að þau lifa, þau syngja þér söng
um sumarið blíða og vorkvöldin löng –
þú gerir það, vinur minn góður.

Þá kannast margir við upphaf­serindið úr ljóðaflokknum Nótt:

Nú máttu hægt um heiminn líða,
svo hverju brjósti verði rótt,
og svæfa allt við barminn blíða,
þú bjarta, heiða júlínótt.

Þorsteinn Erlingsson átti fyrst danska konu. Þau skildu. Síðar kvæntist hann Guðrúnu Jóns­dóttur og áttu þau tvö börn. Á Hafnarárum sínum hafði hann veikst af brjóstveiki og var löngum heilsuveill. Hann féll frá árið 1914, mjög um aldur fram. Þorsteinn var löngum skáld sumars og sólar og fer því vel að enda á þessari leikandi léttu stöku hans:

Þegar vetrar þokan grá
þig vill fjötra inni:
svífðu burt og sestu hjá
sumargleði þinni.

Í Hlíðarendakoti:

Fyrr var oft í koti kátt,
krakkar léku saman,
þar var löngum hlegið hátt,
hent að mörgu gaman;
úti um stéttar urðu þar
einatt skrítnar sögur,
þegar saman safnast var
sumarkvöldin fögur.

Eins við brugðum okkur þá
oft á milli bæja
til kankast eitthvað á
eða til að hlæja;
margt eitt kvöld og margan dag
máttum við í næði
æfa saman eitthvert lag
eða syngja kvæði.

Bænum mínum heima hjá
Hlíðar brekkum undir
er svo margt að minnast á,
margar glaðar stundir.
Því vill hvarfla hugurinn,
heillavinir góðir,
heim í gamla hópinn minn,
heim á fornar slóðir.