Frá landnámi til dagsins í dag

Þjóðminjasafn Íslands

522646_10200208438807769_820665817_nFrá landnámi til dagsins í dag

Þjóðminjasafn Íslands var opnað árið 1863. „Það var liður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að stofna forngripasafn og undirstrika að Íslendingar ættu sér sögu og væru færir um að varðveita menningararf sinn,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, „en áður höfðu ýmsir munir verið fluttir til Danmerkur og varðveittir í þjóðminjasafninu þar í landi.image001 Stofnun safnsins var því í raun táknrænt skref í sjálfstæðisbaráttunni. Bygging Safnahússins við Hverfisgötu, sem nú er hluti Þjóðminjasafns Íslands, var einnig slíkt táknrænt skref, enda byggingunni ætlað að hýsa söfn landsins. Það var svo fyrsta ákvörðun Alþingis við stofnun lýðveldis árið 1944 að byggja nýtt og glæsilegt húsnæði fyrir Þjóðminjasafnið við Suðurgötu til að undirstrika mikilvægi menningar og menntunar hjá stærri þjóð. Tekin var meðvituð ákvörðun um að byggja Þjóðminjasafn við hliðina á Háskóla Íslands til að undirstrika þetta atriði.“ Það hús var endurbætt og ný sýning opnuð árið 2004 og mörkuð stefna fyrir Þjóðminjasafn á 21. öldinni. Þar hefur verið iðandi menningarlíf allt frá enduropnun safnsins.

syningin-109-icelandic-times

Margþætt hlutverk

Margrét segir að Þjóðminjasafnið gegni margþættu hlutverki. „Það sinnir safninu og varðveislu safnkosts sem er auðvitað víðtækt hlutverk sem felur í sér forvörslu og skráningu gripa. Það leiðir gjarnan af sér rannsóknir og spennandi þekkingarsköpun. Þannig verður til ný þekking sem er grundvöllur fjölbreyttrar miðlunar-  og menningarstarfsemi sem blasir við gestum Þjóðminjasafnsins bæði í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sýningarnar, útgáfan og hvers kyns viðburðir og fræðsla endurspegla hið innra starf sem þannig er birtingarmynd af því varðveislustarfi sem fram fer á vegum safnsins og þeim rannsóknum sem eiga sér stað. Þjóðminjarnar eru mikilsverðar heimildir um líf fólks í gegnum aldirnar á Íslandi. Við lítum líka svo á að Þjóðminjasafnið sé þjóðasafn í alþjóðlegu samhengi. Þetta er framlag okkar og við lítum alltaf á að starfsemin fari fram í samhengi við það sem gerist í öðrum löndum og við gefum innsýn inn í það mannlíf sem hér hefur verið. Söfn eins og Þjóðminjasafnið gegna samfélagslegu hlutverki og er í raun ætlað að gera sitt til þess að bæta og auðga líf fólks.“banmh8

Þjóð verður til

Margrét segir að lögð sé áhersla á að vera með fjölbreyttar sýningar og viðburði sem byggja á þeim grunni sem Þjóðminjasafninu ber að starfa eftir lögum samkvæmt. Grunnsýningar eru kjarninn í þeirri sýningarstarfsemi en grunnsýning Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, er í húsnæði Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. „Þar geta gestir fræðst um sögu Íslands frá landnámi til dagsins í dag og séð mikilvægan menningararf sem Þjóðminjasafnið varðveitir frá öllum öldum Íslandsbyggðar.“

Þúsundir raunverulegra gripa eru til sýnis á grunnsýningunni. Þar má nefna Þórslíkneskið, Ufsakrist, sem er Kristslíkneski af krossi frá tímum frumkristni á Íslandi og skorið út í birki, og svo má nefna Valþjófsstaðahurðina sem er frá tímum miðaldakirkjunnar og gefur til kynna stærð kirkna á Íslandi á þeim tíma. Guðbrandsbiblía er til sýnis í safninu. Þá má nefna sýningu á þjóðbúningum og búningaskarti og baðstofu sem gefur innsýn í íslenska byggingarsögu.

Leitast er við á sýningunni að draga upp skýra og heillega mynd af menningarsögu Íslendinga og eru gripir safnsins settir í sögulegt samhengi. Saga þjóðarinnar er rakin í tímaröð frá landnámi til dagsins í dag og er sögunni skipt í sjö tímabil og er hvert þeirra einkennt með sérstökum skáp sem sýnir lykilgrip auk þess sem fyrir hvert tímabil eru valdir atburðir eða merkar nýjungar sem hafa markað spor í þjóðarsöguna. Notaðar eru m.a. hljóðstöðvar, snertiskjáir og fræðslumöppur.

Safnahúsið við Hverfisgötu

Þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 var tekin ákvörðun um að byggja hús fyrir söfnin sem þá voru til – svo sem Þjóðminjasafnið, Landsbókasafnið og Listasafn Íslands – og var byggt glæsilegt hús við Hverfisgötu sem nú er búið að friða. Það hús, Safnahúsið, tilheyrir nú Þjóðminjasafni Íslands en húsið, sem áður hét Þjóðmenningarhúsið, var sameinað Þjóðminjasafninu árið 2013.

Grunnsýning Þjóðminjasafnsins í Safnahúsinu kallast Sjónarhorn þar sem lögð er áhersla á sjónrænan arf Íslendinga – listaverk, málverk, handrit – svo sem 13 Jónsbókarhandrit -, skjöl og forngripi og er sýningin unnin í samstarfi við allar helstu lykilstofnanir á landinu; Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafn-háskólabókasafn og Þjóðskjalasafn.jk-9733jon-kaldal

Ýmsar sérsýningar eru haldnar í húsnæði safnsins við Suðurgötu, s.s. í Bogasalnum sem margir þekkja og Myndasalnum sem hýsir reglubundnar ljósmyndasýningar Ljósmyndasafns Íslands sem tilheyrir jk4-74-jon-kaldal-astaÞjóðminjasafninu. Þar má nefna ljósmyndasýningu á myndum Kaldals, Portrett Jóns Kaldals í tíma og rúmi, sem gefur innsýn inn í mannlíf á 20. öld. „Kaldal starfaði sem ljósmyndari í Reykjavík í rúm 50 ár og gefa myndir hans ákveðna innsýn inn í mannlífið á Íslandi.“

Þá stendur yfir sérsýningin Bláklædda konan sem er sýning á kumli landnámskonu sem fannst fyrir 80 árum en með nútímalegum greiningum var komist að því að hún hefur fæðst á Bretlandseyjum, hefur komið til Íslands með landnámsmönnum í kringum árið 900 og dáið um tvítugt.

Í nóvember mun opna ný sérsýning í Bogasalnum með yfirskriftinni, Ísland í heiminum – heimurinn í Íslandi, þar sem sjónum er beint að fjölmenningunni, fjölbreytileikanum og Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

 

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og þjóðminjavörslu.

Safnkostur þess er fjölbreyttur – þjóðminjar allt frá landnámi til dagsins í dag. „Það eru gripir, stórt ljósmyndasafn og ýmiss konar heimildir um mannlíf í gegnum aldirnar. Svo eru það hús á um 50 sögustöðum um allt land sem oft eru kjarninn í menningarstarfseminni á hverju svæði.“ Þar er spennandir vettvangur og allir velkomnir. Sýningar höfða til breiðs hóps gesta, og í boði eru spennandi viðburðir. Í Þjóðminjasafninu og Safnahúsinu eru kaffihús Kaffitárs og safnbúðir með áhugaverðum ritum og minjagripum. Um allt land eru söguleg hús í eigu safnsins sem vert er að skoða.

Þjóðminjasafnið er bæði á Facebook og Instagram.

https://www.facebook.com/thjodminjasafn

https://www.instagram.com/icelandnationalmuseum/