Gerð Reykjavíkurhafnar á árunum 1913-1917 var dýrasta framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í fram að þeim tíma. Danskur verktaki, N. C. Monberg, tók að sér verkið. Stórvirk vinnutæki, sem aldrei höfðu sést áður á Íslandi, voru tekin í notkun. Þar má nefna járnbraut en allt grjót og möl sem þurfti við hafnargerðinni var flutt á vögnum sem eimvagnar drógu. Gríðarlegur gufuknúinn fallhamar á fleka var notaður til að reka niður staura, fyrstu loftborarnir á Íslandi voru notaðir við grjótsprengingar og gufuknúnar vélskóflur og lyftingakranar við malar- og grjótnámið. Einnig var flutt inn gufuknúið dýpkunarskip til að dýpka höfnina. Þetta var sannkölluð tæknibylting á upphafsárum íslenskrar iðnvæðingar.
Heimildir: Faxaflóahafnir SF og Ljósmyndasafn Reykjavíkur