Það er engum blöðum um það að fletta að stuðningssveit íslenska landsliðsinsins í knattspyrnu, sem ber heitið Tólfan, heitir því nafni með réttu. Þeir eru svo sannarlega tólfti maðurinn á vellinum í liði Íslands þegar þeir spila. Enda er það ekkert skrýtið að það fyrsta, sem landsliðsmennirnir okkar gera eftir hvern leik, er að fara til Tólfunnar og þakka fyrir sig. Er örugglega hægt að ræða það að einn af punktunum sem leitt hafa til velgengis íslenska liðsins sé einmitt Tólfan. Og nú er þeim stórkostlega árangri náð að komast á stórmót. Það munaði litlu að það tækist á síðasta HM-móti, en nú var þetta engin spurning; Ísland er að fara að spila í lokakeppni EM, og mun að sjálfsögðu tólfti maðurinn fylgja með, jafnvel enn öflugri en nokkru sinni fyrr. Það má ætla að hann verði stór, breiður, glæsilegur, hávær og mjög tilkomumikill, tólfti maðurinn sem fer með íslenska landsliðinu á EM. Ef öll leyfi nást í gegn fyrir hópinn, þ.e. að fá að taka með sér trommur, kjuða, fána og fleira eða allt það sem þarf að vera til taks til að mynda réttu stemninguna og bestan stuðninginn, mun Tólfan leggja sig í líma við að láta til sín taka og leggja sitt af mörkum við að ná góðum árangri og góðum leikjum á þessu móti. Það er næsta víst. 

Við hittum á tvo meðlimi Tólfunnar áður en haldið var til Frakklands og forvitnuðumst aðeins um stemninguna. Það voru þeir Benjamín Hallbjörnsson formaður og Styrmir Gíslason, stofnandi Tólfunnar.

Öflugur stuðningur skiptir miklu máli

EM 2016 - Íslands„Stemningin er alveg gríðarleg fyrir þetta mót. Nú er komið að stóru stundinni, þetta er að gerast,“ segja þeir félagar miklu meira en hressir og eftirvæntingin skín af þeim. 

„Það skiptir svo miklu máli fyrir lið sem er að fara að spila á svona stórmóti að hafa góðan stuðningshóp með sér á vellinum, það gæti jafnvel skipt sköpum og að lið nái fram þeim herslumuni sem stundum á vantar til að dæmið gangi upp. Þetta skiptir það miklu máli að þjálfararnir Heimir og Lars gerðu sér grein fyrir þessu alveg frá upphafi. Þess vegna kallaði Heimir okkur á sinn fund fyrir nokkrum árum og tjáði okkur að þeir vildu og þyrftu að hafa góðan, öflugan og virkan stuðningshóp á bak við liðið, því þeir höfðu mikið í hyggju og ætluðu að ná góðum árangri. En Tólfan hafði verið í svolítilli lægð um skeið og var ekki eins mikill kraftur í hópnum eins og hann var í byrjun þegar Tólfan var stofnuð og fór að láta að sér kveða,“ segja þeir Tólfumenn þegar þeir rifja upp þróunina sem verið hefur á hópnum, ferlið og aðdragandann að því hvernig stemningin hefur margfaldast jafnt og þétt síðustu árin. 

Árið 2007 ræddu nokkrir strákar sem elska fótbolta og Ísland um það hversu sárlega það vantaði alvöru stuðning og stuðningsmenn á Laugardalsvöllinn. Einhverja grjótharða aðila sem létu í sér heyra þannig að landsliðsmenn tæku eftir og myndu tvíeflast við stuðninginn. Aðila sem myndu stappa í þá stálinu í gegnum súrt og sætt. Aðila sem myndu vekja aðra áhorfendur af værum blundi og gefa þeim byr undir báða vængi þannig að þeir geti umbreytt sér úr áhorfendum í stuðningsmenn.

Viti menn, afrakstur þessa litla samtals varð Tólfan, stuðningssveit sem hefur sótt í sig veðrið með hverjum deginum þannig að eftir er tekið heima og heiman. Útfrá þessu litla samtali fóru líka hjólin að snúast. Menn fóru markvisst að hittast fyrir leiki og semja söngva og stuðnings-“pepp.” Menn fóru að standa upp og öskra, styðja, syngja og hvetja landsliðið í 90 mínútur, hvort sem leikurinn væri að spilast því í vil eður ei. Já, það hafði myndast ný menning í íslensku þjóðfélagi sem kallast fótboltamenning sem er virkilega lifandi í allri atburðarrásinni á Íslandi.

Ný menning á Íslandi

EM 2016 - Íslands

– tólfan er að sönnu tólfti maðurinn

„Það hefur myndast gríðarleg stemning, skemmtun, félagsskapur og samheldni í Tólfunni í kringum íslenska landsliðið. Þar eru allir sem einn og allir velkomnir sem vilja styðja við bakið á strákunum. Við erum í góðum tengslum við bæði leikmenn og þjálfara og yljar það manni um hjartarætur þegar t.d. Heimir þjálfari kemur og hittir okkur klukkutíma fyrir leik og tilkynnir byrjunarliðið, ræðir við okkur um leikinn og hvaða taktík verður spiluð, já, talar við okkur eins og nána félaga sína sem eru mjög mikilvægir í allri heildarmyndinni. Virkilega skemmtilegt og að finna hvernig maður er partur af þessu öllu og er að taka þátt í þessu. Ég tala nú ekki um þegar árangur er eftir því,“ segja glaðir Tólfumennirnir sem eru að fara að „feisa“ markmiðið sem einu sinni virtist vera fjarlægur draumur og óskhyggja, en er nú orðin að bláköldum veruleika: Ísland er að fara á stórmót í fótbolta!

„Þegar það gerðist að Ísland var næstum því komið á HM síðast, en urðum að sætta okkur við tapleik gegn Króatíu í umspili og gáfum þeim því sætið eftir, var eins og eitthvað alveg nýtt hafi fæðst meðal landsliðsins og stuðningsmannanna. Það var eitthvert ákveðið gegnumbrot á þessum punkti og menn fóru að hugsa með sér og þá í leiðinni sáu að þetta var virkilega hægt. Við vorum margir í Tólfunni sem sögðum: Við getum þetta, íslenska liðið á miklu meira en fullt erindi á stórmót. Við skulum fara á hvern einasta leik með í undankeppni EM og veita liðinu allan þann stuðning sem það þarf til að komast til Frakklands í úrslitakeppnina.“

Við vorum komin saman sem Tólfti maðurinn á vellinum.

island-em-2016-2Tólfan er ekki lokaður hópur og enginn þarf að borga til að vera partur af þessari frábæru stuðningssveit. Það sem til þarf er eingöngu það að fólk mæti í bláu, sleppi af sér beislinu og styðji landsliðið okkar með söngvum og lófaklappi. Að vera Tólfa er ekkert annað en vinskapur, gleði, samheldni, virðing og stuðningur. Ef þú ert stuðningsmaður en ekki áhorfandi þá ert þú einfaldlega Tólfa.

Þetta má lesa í stefnuskrá Tólfunnar og eru menn hvattir til að vera stuðningsmenn en ekki bara áhorfendur því staðreyndin er sú að alvöru stuðningur skiptir gríðarlegu máli í kappleik og getur hreinlega gert gæfumuninn. Þess vegna megum við, sem erum stuðningsmenn, ekki slaka á jafnvel þó að á móti blási. Við verðum því ávallt að fylla völlinn og sjá til þess að andstæðingurinn viti og heyri að Tólfti maðurinn er mættur og að hann megi hræðast.

„Við munum eftir leiknum gegn Tékkum í undankeppninni hér heima, að við lentum undir í þessum gríðarlega mikilvæga leik. En hvorki okkur sem stuðningsmönnum né leikmönnum íslenska landsliðsins datt í hug eitt andartak að láta hugfallast og fara að hugsa með sér: Nú, jæja, þá verðum við víst að skora tvö mörk, til þess að hafa eitthvað út úr þessu! Nei, alls ekki, bæði Tólfan og leikmennirnir tvíelfdust og það leystist úr læðingi einhver fítonskraftur og menn voru svo ákveðnir. Og hlutirnir gerðust, íslenska liðið tók leikinn í sínar hendur, það kom ekkert annað til greina en að yfirvinna þessa tímbundnu mótspyrnu og ganga fram og sækja sigur. Og vitið til, það tókst!“ segja Styrmir og Benni og rifjaðist það upp fyrir okkur hversu mikilvægur þessi leikur og sigur var fyrir íslenska liðið upp á framhaldið og hvernig riðillinn þróaðist og niðurstaðan var. Hafa menn það á orði að þetta hafi verið vendipunkturinn.

Það er vonin að Ísland upplifi slíka vendipunkta í Frakklandi og að Tólfan verði svo sannarlega tólfti maðurinn þegar á reynir og það geri gæfumuninn.

 

Eirikur Einarsson Ritstjóri

„Við erum bara bjartsýnir fyrir mótið og höfum fulla trú á því að Íslandi takist að komast áfram úr riðlinum. Við höfum alla burði til þess og er engin ástæða til að ætla annað en að það takist. Það yrðu ákveðin vonbrigði ef það verður ekki að veruleika og þá ekki bara hjá okkur í Tólfunni, heldur og leikmönnum landsliðsins. Þeir ætla sér að komast áfram, annað yrði bara mikið svekkelsi. Það er svo mikill hugur í mönnum. Það er löngu ljóst að við erum ekki að fara að spila á þessu móti bara til að vera með, menn trúa því að þeir séu full-gjaldgengir til að spjara sig í þessari keppni og ætla sér ekkert annað en að gera það. Menn eru langt frá því að vera saddir og segja: Jæja, við komumst á mótið, þetta er búið að vera frábært og markmiðinu náð. Nei, svoleiðis aldeilis ekki, þó að þetta sé frumraun íslenska landsliðsins að spila á stórmóti í fótbolta, þá ætla menn að fara á þetta á þetta mót til að ná sem allra lengst og fara út í hvern einasta leik til að sigra. Við trúum því,“ segja þeir félagar Styrmir og Benni að lokum og er ekki ástæða til annars en að taka undir þetta með þeim, vitandi að um leið og maður byrjar að styðja og hvetja íslenska landsliðið þá er maður orðinn partur af Tólfunni.