Guðný Rósa Ingimarsdóttir OPUS-OUPS

Kjarvalsstaðir 2.10.2021 – 16.01.2022

Á Kjarvalstöðum stendur yfir yfirlitssýningin opus – oups á verkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur. Á sýningunni er farið yfir feril hennar síðustu 25 árin en þetta er fimmta sýningin í röð á vegum Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalstöðum þar sem ferill listamanns er tekinn til skoðunar. Er sérstaklega leitast við listamönnum sem hafa markað áhugaverð spor og má ætla að sé á sínum miðjum listferli. Eins hefur verið gefin út bók með yfirgripi yfir feril Guðnýjar Rósu.

Titill sýningarinnar opus – oups er lýsandi fyrir listsköpun Guðnýjar Rósu, umhverfi hennar og hennar eilífu undrun yfir fegurðinni og því listræna sem má finna í hversdagslegum hlutum. Nafn sýningarinnar er bæði á latínu og frönsku en opus merkir verk á latínu en oups merkir einfaldlega úps á frönsku. Guðný Rósa býr og starfar í frönskumælandi Belgíu en titillinn ber með sér hik og þá undrun sem verður til þegar smáir og jafnvel ómerkilegir hversdagshlutir verða að listaverki.

„Ég fer í nokkurskonar trans þegar ég vinn við sýningar og vinn þær svolítið eins og ég vinn á vinnustofunni minni. Það er mjög tilfinningaþrungin vinna.“, segir Guðný. „Allt ferlið og sýningin sjálf er áhrifamikil upplifun. Ég reyndi reglulega að skipuleggja sýninguna en það gekk ekki og ég varð einfaldlega að fylgja því eftir. Verkin virtust að hluta til velja sig sjálf og þau voru mörg sem ég var viss um að yrðu á sýningunni en fundu síðan ekki sinn stað, þau pössuðu ekki.“ Verkin eru lágstemmd en segja öfluga sögu. Mörg verkanna eru einnig samtengd og hún notar oft efni úr einu listaverki í annað, jafnvel árum síðar.

Guðný Rósa er fædd í Reykjavík ári 1969. Hún stundaði nám í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands þaðan sem hún for svo í framhaldsnám í L‘Ensav La Cambre í Brussel og svo í HISK í Antwerpen í Belgíu. Hún býr og starfar í Belgíu.

Á ferli sínum hefur Guðný Rósa nýtt sér fjölbreytta miðla eins og svo sem hljóð og skúlptúra en pappírsverk hafa verið fyrirferðarmikil. Pappírsverk hennar krefjast mikillar nákvæmnisvinnu en þau eru oft skorin út, teiknuð með fínlegum blýandi, saumuð með tvinna eða jafnvel tveimur ólíkum efnum skeytt saman.

Hún notar ekki einungis venjulegan prentpappír í verk sín heldur notar hún einnig kalkipappír, arkitektapappír og veggfóður.

Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og víðsvegar um Evrópu en verk hennar má einnig finna í opinberum söfnum í Frakklandi, Belgíu, Slóveníu og á Íslandi.

Sýningin opus – oups er á Kjarvalsstöðum og stendur yfir þar til 16. janúar, 2022.

-HDB