þriðjudag 6. febrúar kl. 12
Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 12 er komið að fyrstu hádegistónleikum ársins 2018 sem mun vera fimmtánda starfsár þeirra. Er það Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona sem ríður á vaðið og flytur aríur eftir Mozart, Dvorák og Strauss ásamt Antoníu Hevesí Píanóleikara og listrænum stjórnanda Hádegistónleikana. Tónleikana nefna þær „Dívur í dulargervi“ en aríurnar eiga það allar sameiginlegt að tengjast konum sem að á einn eða annan hátt villa sér um heimildir.
Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Sama ár hóf hún nám hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001. Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis. Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir útvarp. Hallveig hefur haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng. Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árið 2013 fyrir hlutverk sitt sem Michaëla í Carmen hjá Íslensku óperunni. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 fyrir sama hlutverk. Hallveig var einnig tilnefnd til Grímunnar á síðasta leikári fyrir söng sinn og leik í hlutverki Donnu Önnu í Don Giovanni eftir W. A. Mozart. Hallveig hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir söng sinn í Deutches Requiem eftir Brahms með Söngsveitinni Fílharmóníu, og var nýlega tilnefnd til sömu verðlauna fyrir söng sinn í 3. Sinfóníu Góreckís með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.