Hin margverðlaunaða arkitektastofa HJARK

Arkitektastofan HJARK sem stofnuð var árið 2019, hefur vakið athygli fyrir fallega formhönnun sem unnin er með parametrískri hönnun. Eigandi stofunnar, Hulda Jónsdóttir segir slíka hönnun vera sköpun forma í byggingarlistinni þar sem tekið er tillit til umhverfisþátta eins og veðurs strax á hönnunarstiginu, en ekki einungis eftir á. Höfuðáhersla er lögð á að nýta dagsbirtu og sólarljós, að loka á vind og koma í veg fyrir vandamál á borð við vindgöng.

Hulda Jónsdóttir

Hulda stundaði nám víðsvegar í Evrópu. Hún vann til Velux verðlaunanna (notkun dagsbirtu í arkitektúr) fyrir lokaverkefni sitt til mastersgráðu við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn (KADK). Einungis ein slík verðlaun eru veitt nemendum í arkitektúr á tveggja ára fresti. Áhersla Huldu í námi var parametrísk hönnun sem kemur fram í öllum hennar verkefnum og virðist leika í höndum hennar og huga.
Hulda dvaldi erlendis í tólf ár og vann við arkitektúr í Frakklandi, á Spáni, í Englandi og síðast hjá BIG (Bjarke Ingels Group) í Danmörku. Arkitektastofan BIG stendur framarlega er kemur að nútíma arkitektúr og hefur getið sér gott orð fyrir framúrstefnulegar og útsjónasamar hönnunarlausnir. Eftir veruna hjá BIG ákvað Hulda að koma heim og stofna sína eigin stofu á Íslandi.

Leiðarhöfði

Í desember árið 2022 vann HJARK – í samstarfi við Tiago Sa, arkitekt og eiganda portúgölsku stofunnar Sastudio, ásamt Áslaugu Traustadóttur landslagsarkitekt og meðeiganda Landmótunar – til fyrstu verðlauna WAF (The World Architecture Festival), fyrir tillögu þeirra um hönnun Leiðarhöfða, áfangastað og útivistarsvæði á Höfn í Hornafirði. Kepptu þau við stærstu arkitektastofur heims og kom því niðurstaðan þeim skemmtilega á óvart.
Þess má geta að WAF er virt, alþjóðleg arkitektaráðstefna ætluð fremstu arkitektastofum heims. Þegar Hulda og samstarfsfólk hennar hlutu verðlaunin fyrir Leiðarhöfða, höfðu um 500 tillögur borist frá yfir 50 löndum. Þótti vinningstillagan bera af, falla einstaklega vel að umhverfi sínu sem og vera leikandi og skemmtileg. Hún samanstendur af samkomu- og aðstöðuhúsi með fjölbreyttum notkunarmöguleikum auk þess að hvetja til útivistar í ótrúlegri náttúrufegurð með útsýni til sjávar og fjalla. Tillagan fékk einnig bronsverðlaun WAN (World Architecture News Awards) í flokki framtíðarverkefna, en þessi verðlaun hafa stuðlað að því að HJARK er orðin heimsverðlaunuð arkitektastofa á mjög stuttum tíma.

Leikskólinn í Urriðaholti

HJARK hafði í samstarfi við Sastudio einnig unnið hönnunarsamkeppni um leikskóla í Urriðaholtinu og hlotið fyrstu verðlaun. Verkefnið hlaut lof fyrir hvernig byggingin er löguð að umhverfi sínu og hvernig innra flæði hennar fullnýtir dagsbirtuna. Til viðbótar uppfyllir hönnunin allar kröfur norræna umhverfismerkisins Svansins sem stendur fyrir háum umhverfis- og sjálfbærnistöðlum, en Leikskólinn í Urriðaholti er sá fyrsti þeirrar tegundar hérlendis. Það verkefni var líka tilnefnt til verðlauna WAF, í flokki skólabygginga og komst í úrslit.

Leikskólinn í Urriðaholti

Tiago Sa er meðhönnuður Huldu í verkefnunum Leikskólinn í Urriðaholti og Leiðarhöfði, – „Við vinnum vel saman og erum bæði með metnaðarfullar og nýstárlegar hugmyndir,“ segir Hulda sem er ánægð með árangurinn hingað til og segir að stefnan sé að halda áfram að taka þátt í samkeppnum og vinna vel að þeim verkefnum sem eru í gangi hverju sinni. „Mikilvægast er að byggja upp gott teymi því einsamall gerir maður ekki mikið“, segir Hulda og bætir við að „þau séu rétt að byrja og hafi því miklu meira að bjóða í heimi byggingarlistarinnar“.

Fyrsta skóflustungan fyrir leikskólann í Urriðaholti

Vegna velgengninnar fær HJARK margar beiðnir um hönnun og samstarf. „Meðal annarra verkefna sem við erum með,“ segir Hulda, „eru ýmis íbúðarhús á Íslandi, gömul sem og ný, einnig endurnýjun verslunar fyrir Fraiser Group í Bretlandi. HJARK hefur verið að vinna mikið að hágæða verkefnum í krefjandi aðstæðum og er það einstaklega gefandi. Við leggjum okkur alltaf 100% fram við að setja okkur inn í aðstæður hverju sinni og gera okkur grein fyrir hverjar þarfirnar eru, þær geta verið ansi ólíkar milli verkefna – gamalt einbýlishús í miðbæ Reykjavíkur, nýr leikskóli eða jafnvel lúxus einbýlishús uppi í fjallshlíð. Það sem er svo skemmtilegt við starfið er hversu fjölbreytt það er. Enginn dagur er eins,“ segir Hulda brosandi.

Leiðarhöfði

HJARK var nýverið valin Best Architecture firm in Iceland 2023 af BUILD magazine. Verðlaunin eru veitt árlega og tekur dómnefndin saman staðreyndir um fyrirtæki; hvert þeirra hafi unnið flest verðlaun og samkeppnir á árinu. Hulda bætir við að HJARK sé stöðugt með augun opin fyrir rétta liðsaukanum. – Ef einhver hefur áhuga á að vinna hjá margverðlaunaðri arkitektastofu!

Leikskólinn í Urriðaholti
Leikskólinn í Urriðaholti
Leikskólinn í Urriðaholti
Leiðarhöfði
Leiðarhöfði
Leikskólinn í Urriðaholti

HJARK – Hulda Jóns Arkitektúr ehf
Urriðaholtsstræti 26, 210 Garðabær
+354 865 0649
https://www.huldajons.com/
[email protected]

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0