Vörumerki fyrir Reykjavík, samstarf byggingarfélagsins Eyktar og fasteignafélaganna Íþöku og Höfðatorgs við íslenska og þýska arkitekta, hönnunarfirmað MetaDesign í Berlín og íslenska listamenn

Höfðatorgsreiturinn er án efa eitt stærsta heildstæða byggingarverkefnið í miðborg Reykjavíkur til þessa. Segja má að uppbyggingu á reitnum sé nánast lokið með tilkomu Húss íslenskra fjármála sem tekið var í notkun í sumar í Katrínartúni 6 og mun hýsa starfsemi Skattsins og Fjársýslu ríkisins á næstu árum og áratugum. Höfðatorgið kemur til með að setja sterkan svip á borgarmyndina í náinni framtíð. Þar hefur á undanförnum rúmlega 20 árum risið blönduð byggð með fjölda fyrirtækja og opinberra stofnana, íbúðum og stærsta hóteli landsins. Gunnar Valur Gíslason er framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Íþöku ehf. og dótturfélagsins Höfðatorg ehf. sem hefur ásamt byggingarfélaginu Eykt ehf., systurfélagi Íþöku ehf., staðið að uppbyggingu Höfðatorgsreits frá upphafi.Höfðatorg er borg í borg, ef svo má segja með útsýni yfir borgina úr hæstu turnum Reykjavíkur og sést víða að. Má lýsa Höfðatorgi sem nokkurs konar vörumerki Reykjavíkur með alþjóðlegu yfirbragði á nýrri öld?

Gunnar Valur Gíslason framkvæmdastjóri Íþöku og Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar (Ljósmynd: Páll Stefánsson)

 „Já, vörumerki er einmitt ágætis lýsing á þessum reit í miðborginni,“ segir Gunnar Valur og bætir við:„Alþjóðlega yfirbragðið á sér vissa tengingu við uppruna verkefnisins. Þegar verkefnið fór í gang upp úr 2001 og fyrsta húsið var í byggingu, þ.e. þjónustubygging Reykjavíkurborgar sem stendur við Borgartún 12-14, ákváðum við að venda okkar kvæði í kross og fara leið sem þá hafði ekki tíðkast við þróun byggðakjarna hérlendis.

Við ákváðum þá að þetta verkefni skyldi ekki verða enn eitt stóra byggingarverkefnið hér í Reykjavík og tókum til við að nýta okkur víðtæka þekkingu og reynslu innlendra og erlendra aðila á sviði markaðsfræða og ímyndarsköpunar til þess að búa til umhverfi í Reykjavík sem yrði nokkurs konar vörumerki fyrir Reykjavík, líkt og Harpan kæmi til með að verða við Austurhöfn. Höfðatorgið myndi jafnvel kallast á við Tónlistarhúsið við Austurhöfn, sem Harpan var kölluð á þeim tíma, sem eftirsóttur viðkomustaður erlendra og innlendra gesta höfuðborgarinnar.“

Nýjar áherslur 2005

Ljósmynd: Páll Guðjónsson

Samið var við PK Arkitekta um deiliskipulag Höfðatorgsreits í kjölfar hugmyndasamkeppni Eyktar meðal íslenskra arkitekta á árinu 2001. Stefna Reykjavíkurborgar á þeim tíma gekk út á að sami aðilinn myndi þróa allan reitinn. Áhersla skyldi lögð á fallegan frágang svæðisins, eftirsótta vinnustaði, sköpun sameiginlegrar aðstöðu í hverju húsi og fleira því um líkt.
„Við lukum við uppkaup á öllum eignum á Höfðatorgsreitnum á árinu 2005 og ákváðum í kjölfarið að styrkja umgjörð verkefnisins með því að fá erlenda ráðgjafa að borðinu með PK Arkitektum. Við fengum fimm arkitektastofur í Berlín, sem höfðu mikla  reynslu af álíka verkefnum, heldur stærri þó, til þess að senda tillögur að skipulagi Höfðatorgs eins og þessir aðilar myndu vilja sjá torgið þróast.

Í framhaldi af þessari hugmyndasamkeppni hófst tveggja ára þróunarsamstarf milli Eyktar, sem á þeim tíma fór fyrir verkefninu okkar megin, þýska hönnunarfyrirtækisins MetaDesign og þýsku arkitektastofunnar LWW Architekten, bæði með aðsetur í Berlín. Milli þessara fyrirtækja og PK Arkitekta með aðsetur í Reykjavík tókst farsælt samstarf. MetaDesign hafði meðal annars þróað vörumerki Volkswagen, Audi og Lufthansa svo að nokkur séu nefnd. Markmið okkar var að móta glæsilegt umhverfi og vandaða umgjörð um Höfðatorg sem sérstakt kennileiti í hjarta höfuðborgar Íslands.“

Þróun vörumerkisins „Höfðatorg“

Að sögn Gunnars Vals kom hönnunarfyrirtækið MetaDesign með ferskan blæ inn í hugmyndavinnuna sem byggðist á vörumerkjafræðum. „Þetta var nýjung fyrir okkur sem vorum að starfa í byggingarbransanum hér á landi á þessum árum. Það var ekki fyrr en að lokinni þróunarvinnu með vörumerkið Höfðatorg í samvinnu við MetaDesign að farið var að huga að skipulagningu alls reitsins og  grunnhönnun húsa,“ segir Gunnar Valur. „Vinnubrögðin við undirbúning uppbyggingar á Höfðatorgi voru sem sé með allt öðrum hætti en almennt var hjá okkur á þessum tíma, þegar hönnun og bygging húsa voru ávallt í forgrunni.

Eftir tveggja ára undirbúningsvinnu við hugmyndafræði vörumerkisins gat Pálmar Kristmundsson arkitekt sem aðalhönnuður svæðisins hafist handa við hönnun bygginga með ímyndar- og markaðslegar forsendur frá þýsku fyrirtækjunum MetaDesign og LWW Architekten að leiðarljósi.

Ljósmynd: Páll Guðjónsson

Þessi aðferðarfræði vörumerkjasköpunar var ekki bara ný af nálinni fyrir okkur heldur líka fyrir íslenska arkitekta. Og að mínu mati virkaði aðferðin mjög vel. Öll kynning og framsetning á verkefninu tók eftir þetta mið af vörumerkjahönnun MetaDesign varðandi útlit og áferð Höfðatorgs.”Höfðatorg – miðstöð mannlífs í höfuðborginni

Gunnar Valur kveður byggingar á Höfðatorgi stílhreinar þar sem teflt er saman ólíkri starfsemi; íbúðarbyggð, öflugum fyrirtækjum, stofnunum og stærsta hóteli landsins. Reynslan af því sé afar góð.

„Höfðatorg hefur frá upphafi verið hugsað í samhengi við miðborgina og rík áhersla verið lögð á að svæðið verði lifandi allan daginn. Kjarninn í hugmyndafræðinni var að örva fólk og gleðja í samtvinnuðu íbúðar- og atvinnuumhverfi. Tengsl við menningu og listir voru líka ofarlega í huga okkar. Við vildum stuðla að því að menning og listir fengju að lifa og dafna á Höfðatorgi. Með það í huga settum við af stað á árinu 2018 lokaða samkeppni um útilistaverk þar sem við vildum finna eitt eða fleiri listaverk til að styrkja Höfðatorg sem fallegan samkomustað fólks.

Vinningstillögur úr samkeppninni voru tvær; Hornsteinar, verk listamannsins Kristins E. Hrafnssonar og Gagnkvæmni, verk listakonunnar Sigrúnar Ólafsdóttur. Við trúum því að bæði þessi listaverk muni sóma sér vel á Höfðatorgi og styrkja svæðið sem samkomustað starfsfólks fyrirtækja á Höfðatorgi, íbúa í grennd og almennings.”

Frá hugmynd að upphafi framkvæmda

Gunnar Valur segir að verkefnið Höfðatorg hafi orðið til þegar Eykt keypti lóðirnar í Skúlatúni 1 og Höfðatúni 2 eftir útboð Reykjavíkurborgar á árinu 2000 (áður lóðir Vélamiðstöðvar og Trésmiðju Reykjavíkurborgar). Lóð Ræsis á horni Skúlatúns og Skúlagötu var keypt á því sama ári.

Í kjölfarið efndi Eykt til samkeppni um skipulag svæðisins sem leiddi til þess að fyrsta formlega deiliskipulag Höfðatorgs varð til árið 2003. Þetta fyrsta deiliskipulag náði til ríflega helmings af reitnum þar sem Eykt hafði þá ekki eignast allt svæðið. Húsin voru hugsuð sem 4-6 hæða randbyggingar þétt að götum með einum 16 hæða turni.

„Við breyttum áherslum árið 2005 í alþjóðlegt verkefni eins og áður segir. Þá höfðum við keypt allar fasteignir á reitnum og stefndum að því að fá erlenda ráðgjafa til liðs við okkur til þess að tryggja enn betur vandaða umgjörð og glæsilegt umhverfi á Höfðatorgi auk þess að bæta við hótelturni. Við settum upp hugmyndasamkeppni meðal fimm arkitektastofa í Berlín. Við vildum draga lærdóm af endurbyggingu Berlínar og alveg sérstaklega Potsdamer Platz um kílómeter suður af Brandenborgar hliðinu og Reichtag, þýska þinginu í höfuðborg Þýskalands.

Ég lít á vissan hátt á Potsdamer Platz í Berlín sem fyrirmynd að hinu íslenska Höfðatorgi. LWW Architekten hafði komið að þróun Potsdamertorgs, sem reyndar er mun stærra en Höfðatorg og byggingar heldur hærri. Líkindin með þessum tveimur borgartorgum eru samt augljós þeim sem til þekkja.

Ljósmynd: Páll Guðjónsson

Og líkt og Potsdamer Platz var þróað fyrir Berlínarbúa á sínum tíma var Höfðatorg hugsað sem samfélag athafnalífs, menningar, verslunar og þjónustu í náinni sambúð við alla höfuðborgarbúa,“ segir Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Íþöku að lokum.