Höfuðstaður 

Í öllum Skagafirði búa 4.250 manns, þar af 2.600 í höfuðstað Skagafjarðar, Sauðárkróki. Í bænum sem er öflugur þjónustubær við sveitirnar  í kring, er líka mjög stór útgerð, ostagerð á heimsmælikvarða, og fjöldi veitingastaða sem eru vel sóttir af bæði heimamönnum og ferðamönnum. En á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta tekið mikinn kipp í Skagafirði, enda margt að sjá, eins og Drangey, í miðjum firðinum, Örlygsstaði, en þar fór fram mesti bardagi á Íslandi árið 1238. Síðan er það Glaumbær, einn stærsti og reisulegasti torfbær á Íslandi, rétt sunnan við Sauðárkrók, og austan við Sauðárkrók í Hjaltadal er hin fallega Dómkirkjan á Hólum. Fjöldi góðra sundlauga er í sveitarfélaginu, einnig hestaleigur enda er Skagafjörður landsfrægur fyrir sitt góða hestakyn. Norðan og vestan við Sauðárkrók er fjallið Tindastóll, en þar er eitt besta skíðasvæði á Íslandi, opið frá því í desember og fram í lok apríl. Frá Reykjavík er tæplega 4 tíma akstur á Sauðárkrók.

Svipmyndir frá Sauðárkróki

Sauðárkrókur 07/2022 :  A7C,  RX1R II : FE 1.4/24mm GM, 2.0/35mm Z

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson