Almannavarnir, sem heyra undir Ríkislögreglustjóra, voru stofnaðar með lögum frá Alþingi 1962. Almannavarnir undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.
Það mæðir mikið á Almannavörnum, stofnunin var í fararbroddi í aðgerðum sem snéru að Covid-19, og nú hafa orðið þrjú eldgos á jafn mörgum árum á Reykjanesi. Þar sem Almannavarnir þurftu að loka svæðum og fylgjast vel með gasmengun, ösku og hraunrennsli, hvar og hvort það ógnaði mannvirkjum eða byggð. Nú berast fréttir að það sé aukin hiti farin að myndast austan við Keili, nær höfuðborgarsvæðinu. Ef byrjaði að gjósa þar er líklegt að hraun renni í norður í átt að vegi 41, Reykjanesbraut, sem tengir saman höfuðborgarsvæðið og alþjóðaflugvöllin í Keflavík, og Reykjanesbæ, fjórða stærsta bæ Íslands.
Land & Saga kannaði hvort og hvaða ráðstafanir Almannavarnir hafi ef þarna yrði gos. Hjördís Guðmundsdóttir hjá Almannavörnum sagði okkur að bæði verkfræðistofur og jarðvísindamenn hafi unnið líkön og kort fyrir Almannavarnir, um hugsanlegt hraunflæði, en…. síðan er náttúran svo mikið ólíkindatól, að það er aldrei hægt að vera með eitthvað fullkomið plan. Það eru svo margir óvissuþættir, hvar gosið kemur upp, hvað það er stórt, hvort því fylgi mikið gasuppstreymi eða aska. Svo það er raunverulega ekkert plan til… fyrr en það fer að gjósa. En við höfum lært mikið á þessum þremur gosum, lærdómur sem hjálpar okkur mikið, þegar eða ef það byrjar að gjósa þarna aftur. Ef svo óheppilega vildi til að Reykjanesbrautin myndi lokast, þá er í dag varaleiðin, Suðurstrandarvegur, mun lengri, svo samgöngur á landi myndu ekki rofna þrátt fyrir að Reykjanesbrautin færi undir hraun.
Ljósmyndir & texti: Páll Stefánsson
Reykjanes 11/09/2023 : RX1R II, A7R IV : 2.0/35mm Z, FE 2.8/100 GM